Ísland verður í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir undankeppni Evrópumóts kvenna 2026 í handknattleik í Cluj-Napoca í Rúmeníu fimmtudaginn 20. mars.
Íslenska liðið fær því eina sterka þjóð úr fyrsta styrkleikaflokki í sinn riðil og tvær sem eiga að vera veikari og koma úr þriðja og fjórða styrkleikaflokki.
Í undankeppninni leika 24 lið í sex riðlum um sextán sæti í lokakeppninni og það eru því tvö efstu lið hvers riðils sem fara á EM, ásamt fjórum liðum af sex sem enda í þriðja sæti riðlanna.
Átta þjóðir fara beint á EM og taka því ekki þátt í undankeppninni en það eru fimm gestgjafar, Rúmenía, Pólland, Tékkland, Slóvakía og Tyrkland, og þrjú efstu liðin á EM 2024, sem voru Noregur, Danmörk og Ungverjaland.
Styrkleikaflokkarnir fjórir eru þannig skipaðir:
1. flokkur: Frakkland, Svíþjóð, Holland, Þýskaland, Svartfjallaland, Spánn.
2. flokkur: Slóvenía, Króatía, Austurríki, Sviss, Serbía, Ísland.
3. flokkur: Norður-Makedónía, Úkraína, Portúgal, Ítalía, Grikkland, Kósóvó.
4. flokkur: Færeyjar, Finnland, Ísrael, Bosnía, Litháen, Belgía.