Calin Georgescu mælist núna með um 40% fylgi í könnunum.
Calin Georgescu mælist núna með um 40% fylgi í könnunum. — AFP/Daniel Mihailescu
Mikið væri gaman að dvelja um skeið í Rúmeníu og kynnast þessari merkilegu þjóð vel og vandlega. Ræturnar ná alla leið aftur til Rómaveldis og af þeim sökum virðast Rúmenar, enn þann dag í dag, ná betri tengingu við frændur sína á Ítalíu og Spáni en …

Mikið væri gaman að dvelja um skeið í Rúmeníu og kynnast þessari merkilegu þjóð vel og vandlega.

Ræturnar ná alla leið aftur til Rómaveldis og af þeim sökum virðast Rúmenar, enn þann dag í dag, ná betri tengingu við frændur sína á Ítalíu og Spáni en við nágrannaríkin á Balkanskaganum og við Svartahafið. Menning landsins er fjölbreyttur hrærigrautur úr öllum áttum, maturinn feitur og kjötmikill og rúmenska vínið þykir víst afbragðsgott.

Ætli það væri ekki best að byrja í Transylvaníu, á slóðum Drakúla, og kíkja svo í óperuhúsið í Búkarest sem heldur úti þéttu prógrammi af perlum óperubókmenntanna. Að endingu myndi ég slaka á í strandbænum Constanta, sem Rómverjar kölluðu Tomis, þar sem skáldið Óvidíus fékk að dúsa í útlegðinni frá Róm.

Meðal þess sem gerir Rúmeníu heillandi er að þótt landið sé á hraðleið inn í framtíðina toga hefðirnar og sagan fast í heimamenn, og var það einkar lýsandi þegar rúmenskir pólitíkusar ákváðu árið 2010 að tímabært væri að skattleggja starfsemi þeirra þúsunda spákvenna og norna sem starfa vítt og breitt um landið. Átti að skikka þær til að greiða skatta af tekjum sínum og gera þær lagalega ábyrgar fyrir því ef spádómar þeirra rættust ekki. Frumvarpið komst ekki í gegnum þingið, því þegar á hólminn var komið óttuðust kjörnir fulltrúar að nornastéttin myndi leggja á þá bölvun fyrir uppátækið. Ekki amaleg stéttabarátta það!

Lesendum gæti þótt sagan af spákonuskattinum fyndin, en Rúmenar taka hindurvitni mjög alvarlega enda skógarnir fullir af draugum, vampírum og varúlfum. Skýrir það væntanlega hvers vegna það dró ekkert úr áhuga rúmenskra kjósenda þegar það spurðist út að forsetaframbjóðandinn Calin Georgescu teldi sig hafa hitt geimveru. Ætli kjósendum þætti það ekki tortryggilegra ef Georgescu hefði ekki rambað fram á verur af öðrum heimi, einhvern tíma á lífsleiðinni.

Í viðtölum við erlenda fjölmiðla hefur Georgescu mjög fimlega forðast að svara spurningum um sjónarmið sín um geimverur og ýmsar óhefðbundnar skoðanir sem hann hefur viðrað, s.s. um að finna megi nanó-róbota í gosdrykkjum eða að tungllendingin hafi verið sviðsett.

Georgescu kom öllum á óvart þegar hann hlaut flest atkvæði í fyrstu lotu rúmensku forsetakosninganna í nóvember síðastliðnum, en stjórnlagadómstóll ákvað að ógilda kosninguna eins og hún lagði sig vegna vísbendinga um að stjórnvöld í Rússlandi hefðu reynt að hafa áhrif á kjósendur og þá einkum með umsvifamikilli herferð á TikTok.

Í síðustu viku hugðist Georgescu skila inn framboðsgögnum fyrir fyrirhugaðar kosningar síðar á árinu en kjörstjórnin neitaði að skrá framboðið, með vísan til fyrri brota á kosningalögum. Við þetta braust út mikil gremja hjá almenningi og hafa mótmæli geisað síðan um helgina.

Ný ríkisstjórn á fimmtán mánaða fresti

Áður en lengra er haldið er ágætt að renna stuttlega yfir landslagið í stjórnmálum Rúmeníu.

Rúmenskir stjórnmálamenn eru ekki barnanna bestir og allt síðan Rúmenarnir losuðu sig við Ceausescu hefur gengið hægt og illa að uppræta spillingu í stjórnkerfinu. Ástandið hefur samt farið batnandi, m.a. vegna jákvæðs hópþrýstings frá Evrópusambandinu, en líka vegna þrýstings innan frá. Markaði það kaflaskil þegar skelfilegur eldsvoði braust út á skemmtistað í Búkarest árið 2015 með þeim afleiðingum að 64 ungmenni létu lífið. Brunann mátti m.a. rekja til þess að spilltir embættismenn höfðu ekki sinnt skyldum sínum og leyft alls konar brotum að viðgangast á skemmtistaðnum sem hafði t.d. verið hljóðeinangraður með eldfimum efnum. Þetta fyllti mælinn hjá almenningi.

Frá því að kommúnistarnir hrökkluðust í burtu hafa kristilegir demókratar og sósíaldemókratar farið með völdin en stjórnmálin hafa engu að síður litast af miklum óstöðugleika og frá 1990 hafa 25 ólíkar ríkisstjórnir verið við völd í landinu. Jafngildir það 15 mánuðum að meðaltali á hverja ríkisstjórn og virðist varla líða það ár að ekki komi upp einhvers konar meiri háttar hneykslis- og spillingarmál sem hleypir öllu í bál og brand.

Það sem af er þessum áratug hafa flokkar á hægrijaðrinum verið að sækja í sig veðrið og bar til tíðinda í þingkosningunum sem haldnar voru í desember þegar róttæka hægrið sópaði til sín nægilega mörgum þingsætum til að binda enda á tveggja flokka meirihluta kristilegra demókrata og sósíaldemókrata. Gömlu meirihlutaflokkarnir eru þó enn við völd og mynduðu ESB-sinnað bandalag með miðju-hægriflokki ungverska þjóðarbrotsins.

Rúmenska þingið, sem skiptist í neðri og efri deild, fer með löggjafarvaldið og forsætisráðherrann stýrir framkvæmdarvaldinu inn á við en utanríkisstefnan heyrir undir forsetann, sem er þar að auki æðsti yfirmaður heraflans.

Átakalínurnar þessi misserin snúast m.a. um samskipti Rúmeníu við Evrópusambandið, vægi og hlutverk rétttrúnaðarkirkjunnar, réttindi LGBT-fólks og stríðið í Úkraínu, en rúmensk stjórnvöld hafa staðið dyggilega við bakið á ráðamönnum í Kænugarði.

Landsframleiðsla á mann hefur aukist nokkuð hratt undanfarinn áratug og tvöfaldast frá árinu 2010 en verðbólga og efnahagsleg óvissa plagar rúmenskan almenning og það hefur reynst vatn á myllu öfgahægriafla líkt og víða annars staðar.

Hæfilega hrifinn af ESB og Nató

Skyndilegar vinsældir Georgescus komu öllum í opna skjöldu, en í október mældist fylgi hans vel undir 5% og fáir tóku framboð hans alvarlega.

Georgescu var viðriðinn hægriflokkinn AUR, sem var stofnaður 2019 og næstum því tvöfaldaði fylgi sitt í síðustu kosningum. AUR henti Georgescu úr flokknum þegar hann þótti orðinn of vilhallur undir Rússa og bauð hann sig fram til forsetaembættisins á eigin vegum.

Georgescu, sem er með doktorsgráðu í jarðvegsfræðum, virkar nokkuð frambærilegur í viðtölum; hann er lágvaxinn, gráhærður, yfirvegaður og rólegur í fasi. Þó að ekki hafi verið hægt að kalla hann pólitíska stjörnu þar til í nóvember er hann enginn nýgræðingur í pólítík og var m.a. hátt settur hjá rúmenska umhverfisráðuneytinu og líka hátt settur starfsmaður Sameinuðu þjóðanna í Sviss.

Fyrir hvað stendur svo Georgescu? Það veltur svolítið á því hver er spurður, og veltur jafnvel líka á því hvernig Georgescu orðar hlutina þann daginn. Það fer t.d. ekki á milli mála að hann er þjóðernissinni en Georgescu hefur líka sagst leggja ríka áherslu á evrópsk gildi. Spurður um réttindi hinseginfólks segist hann styðja frelsi einstaklinga til að haga sínum ástarmálum eins og þeim sýnist en hann vill ekki leyfa „LGBT-áróður“ í skólum, hvað sem hann nákvæmlega meinar með því. Hann vill að Rúmenía standi við skyldur sínar gagnvart ESB og Nató en vill ekki að Rúmenía skipti sér af átökunum í Úkraínu.

Kjörsókn í nóvember var rúmlega 52%, sem er svipað og venjulega, og fékk Georgescu nærri 23% atkvæða. Fulltrúar sósíaldemókrata og kristilegra demókrata, sem allir höfðu reiknað með að færu áfram í lokaslaginn, hlutu rúmlega 19% atkvæða hvor um sig. Var sterkt fylgi Georgescus svo óvænt að andstæðingar hans höfðu ekki einu sinni haft ráðrúm til þess í kosningabaráttunni að gagnrýna skoðanir hans og skjóta á hann nokkrum skotum. Hann einfaldlega lenti eins og sprengja í rúmenskum stjórnmálum.

Tugir milljóna evra á TikTok

Skyndileg fylgisaukning Georgescus er rakin til afar öflugrar herferðar á TikTok, en ólíkt flestum öðrum löndum er TikTok vinsælasti samfélagsmiðillinn í Rúmeníu og notendurnir á öllum aldri – ekki bara krakkar og unglingar. Herferðin virðist hafa verið mjög vel skipulögð, og virkjaði á þriðja tug þúsunda notendareikninga, en þær aðferðir sem beitt var þykja bera keim af vinnubrögðum ráðamanna í Kreml. Fátt hefur verið um svör þegar spurt er hver borgaði fyrir herlegheitin en Georgescu segist hafa varið nákvæmlega 0 evrum úr eigin vasa í kosningabaráttuna. Sérfræðingar áætla hins vegar að herferðin á TikTok hafi kostað um 50 milljón evrur.

Vinsældir Georgescus hafa bara farið vaxandi og kjósendur virðast líta á hann sem andsvar við spillingu og vanhæfni ráðandi afla. Benda kannanir til að fylgi Georgescus sé núna komið upp í 40%, sem er ekkert smáræði, hvað þá þegar kjörsóknin í nóvember er höfð til hliðsjónar. Stuðningsmannahópurinn er breiður og fjölbreyttur; borgarbúar í bland við bændur, verkamenn í bland við háskólamenntaða, og venjulegt fólk í bland við snarruglaða fasista.

Óheppilegur vilji kjósenda

Hvað á nú til bragðs að taka? Staðan er óneitanlega snúin.

Ég man ekki eftir að það hafi nokkurs staðar áður gerst að kosningar hafi verið ógildar út af mögulegum afskiptum annars ríkis, og auðvitað er það ekki gott ef ráðamenn í Rússlandi voru með puttana í forsetakosningunum. Svo hafa ráðamenn í Brussel auðvitað engan áhuga á að fá mann eins og Georgescu í forsetaembættið, en það er samt ekki mjög lýðræðislegt að ógilda kosningar eins og ekkert sé og meina Georgescu að bjóða sig aftur fram.

Þessi pistill verður ekki notaður til að halda uppi vörnum fyrir Georgescu; hann er ekkert minna skrítinn og ófullkominn en rúmenskir stjórnmálamenn yfirleitt. En kjósendur eru ekki algjörir bjánar, og það er ekki hægt að afskrifa það sísvona ef boðskapur Georgescu á TikTok fann hljómgrunn hjá stórum hluta þjóðarinnar – sama hver fjármagnaði herferðina.

Kannski voru stærstu mistökin að ógilda kosninguna í nóvember því þar með var Georgescu gerður að píslarvætti, og allt eins líklegt að frambjóðandi stjórnarflokkanna hefði hlotið meirihluta atkvæða í seinni umferð kosninganna svo að málið væri dautt.

Er nema von að landsmenn haldi út á götur, enda getur enginn verið viss um hvort tilraunir stjórnvalda til að stöðva Georgescu byggja á hlutlausu og faglegu mati eða eru bara enn ein birtingarmynd spillingar og hagsmunapots.

Nýjustu fréttirnar eru þær að nú hefur AUR-flokkurinn tekið Georgescu aftur í sátt og flokksleiðtoginn George Simion lagt það til að hann bjóði sig fram í stað Georgescus ef úrskurði kjörstjórnar fæst ekki hnekkt. Þyki fólki Georgescu slæmur er Simion enn verri.