Hætta Gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar eru þau hættulegustu hér á landi. Tugir slysa og óhappa verða þar ár hvert með tilheyrandi kostnaði.
Hætta Gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar eru þau hættulegustu hér á landi. Tugir slysa og óhappa verða þar ár hvert með tilheyrandi kostnaði. — Morgunblaðið/Karítas
Hættulegustu gatnamót landsins eru á mótum Miklubrautar og Grensásvegar. Flest slys verða þar og mikill kostnaður hlýst af. Alls eru 204 slys og óhöpp skráð á umrædd gatnamót á árunum 2019-2023 í tölum Samgöngustofu

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Hættulegustu gatnamót landsins eru á mótum Miklubrautar og Grensásvegar. Flest slys verða þar og mikill kostnaður hlýst af.

Alls eru 204 slys og óhöpp skráð á umrædd gatnamót á árunum 2019-2023 í tölum Samgöngustofu. Þær byggja á upplýsingum frá lögreglu og árekstri.is en ekki á heildartölum frá tryggingarfélögum. Þannig má gera ráð fyrir að heildarfjöldi óhappa sé í raun mun meiri.

Næstflest slys og óhöpp eru skráð á gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, 163 talsins á umræddu tímabili. Ef aðeins er horft til Reykjavíkur eru þriðju hættulegustu gatnamótin á mörkum Miklubrautar og Háaleitisbrautar. Þar voru skráð 126 slys og óhöpp á tímabilinu. Kostnaður við umferðarslys og óhöpp á þessum þrennum gatnamótum nemur alls tæpum þremur milljörðum á fimm árum. Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Morgunblaðið að flest óhöpp sem verði í umferðinni megi rekja til þess að ökumenn keyri of hratt, séu ekki með athygli við aksturinn eða að ökutæki séu vanbúin. Viðbúið sé að flest óhöpp verði þar sem mestur fjöldi ökutækja skeri leiðir hvert annars, þó að slík óhöpp séu aldrei ásættanleg. „Staðreyndin er sú að því miður er fólk að aka gegn rauðu ljósi. Ökumenn keyra líka oft og tíðum of hratt, ná ekki að hemla og keyra því aftan á næsta bíl,“ segir hann og bætir við að einnig sé algengt að ökumenn misreikni sig þegar þeir ætli að skipta um akrein.

Árni segir að vissulega séu dæmi um að aðstæður spili inn í, fólk missi stjórn á bílnum er það keyri ofan í holu eða gróður skyggi á akstursleiðina. „En heilt yfir, án þess að ég hafi neinar tölulegar rannsóknir þar um, tel ég að yfirgnæfandi fjöldi umferðaróhappa orsakist af mannlegum framkvæmdum.“

Hættuleg gatnamót

204 slys urðu á á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar 2019-2023. Kostnaður af þeim var 1.060 milljónir króna.

163 slys urðu á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Kostnaður var 1.182 milljónir.

126 slys urðu á mótum Miklubrautar/Háaleitisbrautar. Kostnaður nam 579 milljónum.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon