Tindastóll vann góðan sigur á Grindavík, 88:85, í framlengdum leik í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik á Sauðárkróki í gærkvöldi.
Tindastóll er í efsta sæti neðri hluta deildarinnar með 18 stig og fer í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn. Grindavík er í næstneðsta sæti með 14 stig og á enn möguleika á að komast í úrslitakeppnina. Randi Brown og Edyta Falenczyk voru stigahæstar hjá Tindastóli með 22 stig hvor. Falenczyk tók auk þess átta fráköst. Stigahæst í leiknum var Daisha Bradford með 28 stig og sjö fráköst fyrir Grindavík.
Stjarnan gerði þá góða ferð í Breiðholtið og lagði botnlið Aþenu, 85:72. Stjarnan er í öðru sæti neðri hlutans með 18 stig og fer einnig í úrslitakeppnina. Aþena er þegar fallin niður í 1. deild. Denia Davis-Stewart skoraði 29 stig fyrir Stjörnuna og tók 18 fráköst. Diljá Ögn Lárusdóttir bætti við 21 stigi og stal boltanum sjö sinnum.