Seltjarnarnes Sjór gekk yfir golfvöllinn á Seltjarnarnesi fyrr í mánuðinum og á laugardaginn hreinsuðu Seltirningar völlinn eftir sjóganginn.
Seltjarnarnes Sjór gekk yfir golfvöllinn á Seltjarnarnesi fyrr í mánuðinum og á laugardaginn hreinsuðu Seltirningar völlinn eftir sjóganginn. — Morgunblaðið/Ólafur Árdal
„Þetta er svolítið glannalega skrifað, en það er nú þannig samt,“ segir Trausti Jónsson veðurfræðingur, sem ritar á bloggsíðu sína að í sjávarflóðunum á dögunum sunnanlands hafi verið efni í mun meira flóð og tjón hefði getað orðið verra

„Þetta er svolítið glannalega skrifað, en það er nú þannig samt,“ segir Trausti Jónsson veðurfræðingur, sem ritar á bloggsíðu sína að í sjávarflóðunum á dögunum sunnanlands hafi verið efni í mun meira flóð og tjón hefði getað orðið verra. „Slíkt veður liggur víst og bíður síns tíma og óþægilegt að vita af því,“ skrifar Trausti, sem telur líklegt að tjón muni aukast vegna sjávarflóða.

„Í sjávarflóðunum núna í mars voru þetta fyrst og fremst þrír staðir. Á Grandanum hefur engin byggð verið til skamms tíma, en á Seltjarnarnesi og suður í Garði hefur flætt mjög oft áður í gegnum tíðina og hægt að búast við flóðum þar áfram,“ segir Trausti í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að veðrið hafi ekki verið það slæmt að nokkur hefði tekið eftir tjóni ef ekki væri byggð komin á þessi svæði. „En það er farið með hús og annað alveg ofan í flæðarmál í dag og þá eykst hættan á tjóni sökum sjávargangs.“

Verst skömmu fyrir jafndægur

Í flóðaveðrinu fyrr í mánuðinum var sjávarstaða mjög há, segir Trausti, en á sama tíma hafi veður ekki verið neitt sérstaklega slæmt og segja megi að við höfum sloppið með skrekkinn. „Loftþrýstingur var ekkert sérstaklega lágur, en hann hefur áhrif á sjávarstöðu, og þótt það hafi verið hvasst hefði það getað verið miklu verra,“ segir Trausti en bætir þó við að yfirleitt sé stórstreymi mest á þessum árstíma. „Það er stærra skömmu fyrir jafndægur og síðan aftur í höfuðdagsstraumnum á haustin. Ef þetta flóð hefði orðið í nóvember er ekki víst að nokkurt tjón hefði orðið.“

Sjávarflóðið 9. janúar 1990

Trausti les mikið af gömlum veðurfréttum. „Saga vandræða vegna sjávarflóða er óralöng á Íslandi og ef maður lítur aftur til áranna 1940-1960 var stöðugt tjón í höfnum af völdum sjávargangs.“

Trausti segir að í verstu sjávarflóðum geti flætt víða um land eins og gerðist 9. janúar 1990. „Þá flæddi á fjölmörgum stöðum um sunnan- og vestanvert landið og tjónið var gífurlegt, enda miklu verra veður en var núna. Það var mesta tjón á þessum tíma sem maður man eftir,“ segir Trausti. Í Morgunblaðinu 11. janúar 1990 stendur að kostnaður við tjónið hafi verið yfir 100 milljónir króna bara á Stokkseyri og Eyrarbakka, en einnig voru miklar skemmdir í Vestmannaeyjum, í Grindavík og víðar. doraosk@mbl.is