Sigtryggur Magnason var þar til nýlega aðstoðarmaður Sigurðar Inga Jóhannssonar, fyrst í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, síðan innviðaráðuneytinu og loks í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Sigurður Ingi er ekki eini ráðherrann sem Sigtryggur vann með, því árin 2009 til 2010 var hann aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Á árunum 2005-2018 hefur Sigtryggur starfað með stuttu hléi í auglýsingabransanum, stærstan hluta þess tíma á Íslensku auglýsingastofunni þar sem hann var meðal annars sköpunarstjóri. Þá hafði hann einnig viðkomu á Hvíta húsinu.
Eftir Sigtrygg liggja einnig nokkur leikrit sem hafa verið sýnd og gefin út bæði hér heima og erlendis. Sigtryggur stendur núna á tímamótum og mun hann á næstu vikum hefja aftur störf í auglýsingageiranum, hjá auglýsingastofunni Peel.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?
Auglýsingastofur eru eins og þekkt er viðkvæmar fyrir efnahagsástandi og vaxtaumhverfið hefur verið gríðarlega krefjandi. Við höfum á síðustu árum búið við óvenjulegar aðstæður í rekstri fyrirtækja, fyrst með heimsfaraldrinum og verðbólgu í kjölfarið.
Slíkar aðstæður bitna því miður oft á þeim fjármunum sem lagðir eru til markaðsmála.
Þau fyrirtæki sem líta á markaðsmál sem hluta af fjárfestingu frekar en kostnaði standa oft betur þegar á bjátar. Íslandsstofa og íslensk stjórnvöld nýttu sér til dæmis á klókan hátt, með hjálp Peel og samstarfsaðila stofunnar, SS+K og MC Saatchi, tímann þegar heimurinn var nær lamaður af heimsfaraldri.
Þá urðu til þær herferðir sem hafa fengið flest alþjóðleg verðlaun í sögu íslenskra auglýsinga, herferðir sem eiga drjúgan þátt í því hversu fljót ferðaþjónustan á Íslandi var að taka við sér eftir hörmungartímabil faraldursins. Auglýsingar snúast nefnilega oftar en ekki um tímasetningu.
Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?
Ég leita uppi viðtöl við áhugavert fólk frá ýmsum sviðum mannlífsins, helst viðskiptum og listum.
Þá á ég nokkra vini sem ég heyri reglulega í til að öðlast betri sýn yfir það sem er að gerast í samfélaginu. Oft kvikna við þau samtöl skemmtilegar hugmyndir sem nýtast í lífi og starfi.
Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?
Sú bók sem hefur haft einna mest áhrif á mig í lífi og starfi er bókin The Art of Dramatic Writing eftir Ungverjann Lajos Egri. Hún fjallar eins og nafnið gefur til kynna um leikhús og leikritun. Hún hefur gagnast mér vel enda fjallar hún um persónusköpun, samskipti og sögur, allt sem þarf þegar kemur að markaðsmálum, auglýsingum og miðlun.
Hvernig heldurðu
þekkingu þinni við?
Ég er forfallinn áhugamaður um stjórnmál og samfélag, sem er mikilvægur þáttur í markaðsmálum. Þeirri þekkingu viðheld ég með mikilli hlustun á alls kyns hlaðvörp, lestur, hlustun á greinum og bókum af ýmsu tagi.
Hugsarðu vel um heilsuna?
Mikilvægast fyrir heilsuna er að umgangast gott og skemmtilegt fólk. Þess utan hef ég gaman af því að fara í jóga og ræktina. Þá er fátt sem jafnast á við það að fara á hestbak, hvort sem það er í uppsveitum Kópavogs eða Gnúpverjahrepps.
Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýtt starf?
Draumastarfið er það starf sem ég sinni á hverjum tíma. Ég hef þá trú að öll störf geti verið draumastörfin. Þetta er alltaf spurning um hugarfar og viðhorf til daglegs lífs.
Hvað myndir þú læra ef
þú fengir að bæta við þig
nýrri gráðu?
Ég hef verið svo lánsamur að hafa starfað í ólíkum geirum samfélagsins, í blaðamennsku, leikhúsi, auglýsingum og pólitík og stjórnsýslu. Það sem heillar mig alltaf meira og meira er hvernig verðmæti verða til. Ef ég færi í frekara nám yrði sú gráða tengd verðmætasköpun.
Hvaða kosti og galla sérðu
við rekstrarumhverfið?
Við höfum búið við háa vexti síðustu misserin en nú sjáum við fram á bjartari tíma. Jákvæðum horfum í viðskiptum og hækkandi sól fylgir mikill sköpunarkraftur sem leiðir til spennandi og skemmtilegra verkefna.
Hvaða lögum myndirðu
breyta ef þú værir einráður
í einn dag?
Trú mín á lýðræði er mikil. Held að það væri ekki æskilegt að ég fengi völd einræðisherra. Þótt það yrði eflaust áhugavert fyrir mig og þá ekki síður þjóðina.
Hin hliðin
Menntun: BA-próf í íslensku frá Háskóla Íslands 1997.
Starfsferill: Blaðamaður á helgarblaði DV 2000-2003. Ritstjóri Dægurmálaútvarps Rásar 2, 2003-2005. Ritstjóri Sirkus Reykjavík, 2005-2008. Hugmyndasmiður á Íslensku auglýsingastofunni, 2009-2010. Aðstoðarmaður menntamálaráðherra, 2010-2016. Creative Director á Íslensku auglýsingastofunni, 2016-2017. Sjálfstæður auglýsingamaður í Berlín, 2017-2018. Stefnumótun/sköpun á Hvíta húsinu, 2018-2021. Aðstoðarmaður samgönguráðherra, 2021-2024. Aðstoðarmaður innviðaráðherra, 2024.
Áhugamál: Helstu áhugamálin eru leikhús og kvikmyndir, hestamennska, Liverpool þegar vel gengur og stúss með fjölskyldunni.
Fjölskylduhagir: Giftur Svandísi Dóru
Einarsdóttur og eigum saman fjögur börn.