Magnea Gná Jóhannsdóttir
Nú bíða nokkur hundruð foreldrar í Reykjavík eftir dagvistun fyrir börn sín. Þá staðreynd tek ég alvarlega og vil leggja lóð á vogarskálarnar til þess að styðja við foreldra sem hafa lokið fæðingarorlofi og komast ekki út á vinnumarkaðinn vegna skorts á dagvistun. Við í Framsókn lögðum því fram tillögu í borgarstjórn um heimgreiðslur til foreldra sem bíða eftir dagvistun. Tillagan gerði ráð fyrir að greiðslurnar væru skilyrtar við virka umsókn um dagvistun og féllu niður um leið og dagvistunarplássi væri úthlutað.
Fjölgun leikskólaplássa er forgangsmál og þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi leikskólans fyrir menntun og þroska barna og fyrir tekjuöflun og jafnari atvinnuþátttöku foreldra. En staðreyndin er sú að jafnvel þótt það sé eitt af forgangsverkefnum sveitarfélaga að tryggja yngstu íbúunum leikskólavist verður að telja það óraunhæft að 12 mánaða börn komist í dagvistun í bráð. Því þótt við myndum bæta við nægjanlega mörgum byggingum undir starfsemi leikskóla og tryggja ávallt nægilegt rekstrarfé þarf að manna stöður leikskólakennara, sem eru ekki á hverju strái. Fjölgun einstaklinga í mikilvægri stétt leikskólakennara er verðugt markmið en það mun taka tíma og því þarf að leita annarra leiða og lausna til að mæta foreldrum sem eru í bráðum vanda og bíða eftir dagvistunarplássi. Það er bara ekki hægt að gera ekki neitt. Meirihlutinn kaus hins vegar gegn tillögunni með tvennum rökum.
Of kostnaðarsamt?
Í fyrsta lagi taldi meirihlutinn tillöguna of kostnaðarsama og hún gæti þar af leiðandi dregið úr uppbyggingu leikskólaplássa. Auðvitað kostar það að greiða fjölskyldum heim en það er okkar sem sitjum í sal borgarstjórnar að ákveða hvernig við verjum fjármunum borgarinnar. Við getum ákveðið að bæði uppbygging leikskóla og heimgreiðslur séu forgangsmál. Til að mæta kostnaðinum getum við hagrætt í rekstri borgarinnar – af nógu er að taka í þeim efnum. En ljóst er að meirihlutinn vill forgangsraða fjármagni í annað en stuðning við foreldra sem bíða eftir dagvistun. Foreldra sem bíða vegna þess að borgin hefur ekki staðið sig nægilega vel í því að fjölga leikskólaplássum þrátt fyrir ítrekuð loforð Samfylkingarinnar um pláss fyrir 12 mánaða börn.
Ógn við jafnrétti?
Í öðru lagi telur meirihlutinn að heimgreiðslur séu kvennagildra sem grafi undan jafnrétti kynjanna. Þau telja að greiðslurnar muni leiða til þess að konur séu lengur heima. Slík gagnrýni byggist á þeirri forsendu að fólk hafi val um að senda barn ekki í leikskóla og fái þess í stað greiðslur. Staðreyndin er þó sú að foreldrar eru hvort sem er heima vegna skorts á dagvistunarúrræðum – það er hin raunverulega „kvennagildra“. Greiðslurnar milda það tekjutap sem myndast á meðan beðið er eftir dagvistun og með því að skilyrða greiðslurnar við umsókn um dagvistun er dregið úr áhrifum kynjamisréttis. Mörg heimili standa frammi fyrir erfiðum aðstæðum að loknu fæðingarorlofi vegna skorts á dagvistun. Vandinn hefur vaxið í þrálátri verðbólgu, jafnvel þótt foreldrar sýni fyrirhyggju með því að dreifa fæðingarorlofinu eða spara fyrir tekjutapinu sem fylgir barneignum. Sér í lagi ef aðeins eitt foreldri getur aflað tekna á meðan beðið er eftir dagvistun. Spurningin er því: Hvort er betra að foreldrar séu heima án tekna eða fái greiðslur sem hjálpa til við að halda heimilisbókhaldinu réttum megin við núllið?
Þá hefur því verið haldið fram að það séu börnin sem mest þurfi á því að halda að fara í leikskóla sem séu heima vegna heimgreiðslna, t.d. börn innflytjenda sem þurfi að tileinka sér tungumál þess lands sem þau búa í. Án frekari málalenginga má sjá að áðurnefnd rök um skilyrtar heimgreiðslur eiga einnig við hér. Ljóst er þó að huga þarf sérstaklega að börnum sem eru ekki í leikskóla, greina hvers vegna svo er og hvort ástæða sé til að mæta því með einhverjum hætti.
Sama gamla uppskriftin
Fyrst og fremst snýst þetta um börn og foreldra þeirra, sem mörg hver eru í verulegum vanda með að brúa bilið og ná endum saman. Meirihlutinn virðist þó ekki vera tilbúinn að sýna það í verki að Reykjavík styðji við barnafjölskyldur. Ekki má horfa til fjölbreyttra lausna. Ekki má semja við vinnustaði um rekstur leikskóla og ekki er hægt að koma á fót heimgreiðslum, þrátt fyrir að Píratar, Flokkur fólksins og Sósíalistar, sem nú eru í meirihluta, hafi áður talað fyrir heimgreiðslum. Ríkisstjórnin virðist þá ekki heldur ætla að lengja fæðingarorlofið. Nei – enn og aftur á að reyna við sömu gömlu uppskriftina sem ekki hefur skilað nægjanlegum árangri.
Við eigum að hlusta á foreldra og taka óskir þeirra og ábendingar alvarlega. Þær eru ekki aukaatriði og stjórnmálin verða hverju sinni að ganga varlega þann veg að ákveða hvað sé fólki fyrir bestu. Við megum ekki gleyma því að börn og foreldrar lifa þennan raunveruleika í dag, á meðan rifist er yfir gömlum kreddum. Það er okkar verkefni að létta róðurinn með því að leggjast á árarnar og brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla og draga úr framfærslukvíða foreldra.
Höfundur er borgarfulltrúi Framsóknar.