Rothschild hagnaðist í upplýsingaóreiðu í kringum orrustuna við Waterloo.
Rothschild hagnaðist í upplýsingaóreiðu í kringum orrustuna við Waterloo. — AFP/Thibaud Moritz
Fréttir eru tíðar af tollastríði Trumps forseta við hinar ýmsu þjóðir sem ýmist er að skella á eða frestast. Á sama tíma tekur forsetinn, ásamt hinum glaðhlakkalega varaforseta JD Vance, forseta Úkraínu bindislausan á teppið

Fréttir eru tíðar af tollastríði Trumps forseta við hinar ýmsu þjóðir sem ýmist er að skella á eða frestast. Á sama tíma tekur forsetinn, ásamt hinum glaðhlakkalega varaforseta JD Vance, forseta Úkraínu bindislausan á teppið. Trump mætir síðan í fjölmiðla og talar um nýja heimsstyrjöld sem ýmist er að byrja eða er mögulega þegar hafin.

Heimurinn stendur eðlilega á öndinni og áttar sig illa á stöðunni. Gallinn er mögulega sá að nánustu samstarfsmenn Trumps virðast ekki hafa hugmynd um hvað sé í gangi heldur. Markaðir lækka og sá í Bandaríkjunum ekki síst, ásamt gjaldmiðlinum.

Trump heldur hins vegar áfram og virðist frekar rólegur í þessu öllu enda er hann í golfi flestar helgar í Flórída. Heimurinn virðist á sama tíma vera í einhverjum hliðarveruleika. Er nú upp orðið niður, norður nú suður? Er kannski gott að markaðirnir séu að lækka, er gott að bandaríkjadalur sé að lækka, er gott að Selenskí hafi verið niðurlægður? Er Pútín kannski orðinn góði gaurinn?

Það er erfitt að fóta sig í forsetatíð Trumps en aðgerðir hans hafa áhrif á allan heiminn. Hér á eyjunni hefur fólk einna helst áhyggjur af því að við þurfum að benda Bandaríkjamönnum á hvað við séum sérstök og þeir þurfi mikið á okkur að halda og því eigi ekki skýrar kröfur um kostnað í varnarsamstarfi við um okkur. Kannski er betra að segja ekkert, fela sig frekar í miðju hafinu á meðan stormurinn gengur yfir?

Við sem þjóð, með nýja ríkisstjórn, virðumst ekki hafa hugmynd um til hvers er ætlast til af okkur í varnarmálum. Við virðumst þó viss um að við verðum varin ef eitthvað myndi gerast og þá helst auðvitað af Bandaríkjunum. Er það svo einfalt miðað við núverandi áherslumun Bandaríkjanna og Evrópu og rof milli þessara fylkinga gagnvart Úkraínu?

Markaðirnir eru eins, þeir sterku lifa af og kannski sérstaklega þeir sem taka áhættu og brjótast úr meðalmennskunni. Það er hins vegar fátt vinalegt við tannhjól markaðarins, sem dæmi þá eru oft bestu kauptækifærin þegar markaðurinn er rauður og illa gengur. Það hlýtur þá að eiga við um markaðinn nú. Rothschild á að hafa sagt að best sé að kaupa þegar blóð rennur á götunum, jafnvel þótt það sé þitt eigið blóð. Sá hagnaðist meðal annars þegar menn féllu í snarpri orrustu við Waterloo þar sem barist var gegn Napoleon. Lykillinn þar var upplýsingagjöf, Rothschild fékk upplýsingar nokkrum dögum á undan flestum, jafnvel ríkisstjórnum. Það notaði hann sér til gagns á mörkuðum. Upplýsingaóreiðan nýttist honum því vel.

Það er líklega ekkert nýtt undir sólinni, hvorki í viðskiptum né í heimsmálunum. Upplýsingar skipta hins vegar öllu máli og óreiðan ber með sér tækifæri. Okkar samtímamenn bera önnur nöfn en áður en öflin eru í grunninn þau sömu.