Lilja Guðrún Eiríksdóttir fæddist 29. ágúst 1926. Hún lést 17. febrúar 2025.

Útför Lilju Guðrúnar fór fram 28. febrúar 2025.

Elsku amma hefur nú yfirgefið þennan heim en hún varð 98 ára gömul. Það er erfitt að trúa því að stundin sé komin að kveðja og það er ótrúlega sárt. Einhvern veginn höldum við alltaf að við höfum lengri tíma saman. Aldrei eru þau orð sannari en að lífið er núna.

Amma var einstaklega fróð og var með allt á hreinu á líðandi stundu. Hún hringdi alltaf á afmælisdaginn okkar og óskaði til hamingju og við áttum gott spjall í leiðinni. Það var einnig mjög gaman þegar hún var að segja okkur frá lífinu í gamla daga, hernáminu og lífinu á Dröngum.

Við eigum svo margar góðar minningar um hana. Uppáhaldsminningarnar eru þegar Bjarney stóð á eldhúsbekknum á Þinghólsbrautinni og horfði á ömmu baka kleinur eða elda matinn og hún söng á meðan t.d. Abba labba lá og svo þegar hún var að reyna að kenna Lilju að hekla. Þegar við komum í heimsókn til hennar voru ævinlega pönnukökur á boðstólum og allir voru sammála um að hún gerði bestu pönnukökur í heimi.

Við eigum góðar minningar um jólin. Ein af eftirlætisminningunum er jólaundirbúningurinn á aðventu þegar við vorum að skera út laufabrauð saman.

Einnig heimsóttum við hana alltaf á aðfangadag og skiptumst á gjöfum og góðu knúsi. Það verður skrítið um næstu jól að koma ekki við hjá ömmu.

Það er svo margt sem amma hefur kennt okkur og hún var fyrirmynd í svo mörgu. Amma var lífsglöð og dugleg og hún var líka einstök hannyrða- og listakona og átti alltaf áhugamál. Það sem okkur finnst sýna það best og vera svo eftirtektarvert og til eftirbreytni er að hún byrjaði aftur að mála 93 ára, eftir áratugahlé og hún málaði fram á síðasta dag. Hún málaði fugla og heimahagana og gaf börnum og barnabörnum myndir eftir sig, sem í dag eru alger fjársjóður.

Við kveðjum þig með sömu orðum og þú sagðir alltaf við okkur elsku amma guð blessi þig og varðveiti.

Með kærleikskveðju

Bjarney, Lilja og barnabörn.