Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, getur ekki tekið þátt í leik liðsins gegn Grikklandi í undankeppni EM 2026 í Chalkida í dag vegna meiðsla. Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari sagði í samtali við vefmiðilinn Handbolta.is í gær að Aron yrði ekki með þar sem hann væri tognaður á kálfa.
Knattspyrnumarkvörðurinn Íris Dögg Gunnarsdóttir hefur lagt hanskana á hilluna, 35 ára að aldri. Hún var varamarkvörður Vals á síðasta tímabili en lék áður með Þrótti R., Breiðabliki, Aftureldingu, Gróttu, Haukum, FH, Fylki og KR. Hún spilaði 204 deildaleiki, þar af 145 í efstu deild, og var í landsliðshópi Íslands á EM 2022.
Grótta hefur fengið til sín bandarísku knattspyrnukonuna Ryanne Molenaar. Hún er 24 ára gömul og lék síðast með Pinzgau Saalfelden í austurrísku B-deildinni og skoraði þar átta mörk í ellefu leikjum.
Knattspyrnumaðurinn Samúel Kári Friðjónsson, miðjumaður Stjörnunnar, var á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ í gær úrskurðaður í tveggja leikja bann fyrir beint rautt spjald sem hann fékk í leik gegn KR í A-deild deildabikarsins um helgina. Fór hann sjálfkrafa í eins leiks bann en einum leik var bætt við vegna „ofsalegrar framkomu“. Stjarnan hefur lokið leik í deildabikarnum í ár og tekur Samúel Kári því bannið út á næsta tímabili.
Knattspyrnukonan efnilega Ísabella Sara Tryggvadóttir hefur skrifað undir nýjan samning við Val sem gildir til næstu fjögurra ára, út tímabilið 2028. Ísabella Sara, sem er 18 ára gömul, hefur leikið 58 leiki í efstu deild fyrir Val og KR og skorað í þeim 11 mörk.
Gareth Taylor hefur verið vikið úr starfi knattspyrnustjóra kvennaliðs Manchester City. Taylor, sem er 52 ára gamall, hafði stýrt Man. City frá árinu 2020 og undir hans stjórn varð liðið bikarmeistari árið 2020 og deildabikarmeistari árið 2022.
Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir, landsliðskona í körfuknattleik úr Hamri/Þór, sleit krossband í hné í leik liðsins gegn Tindastóli á dögunum. Hún kom til liðsins í desember eftir að hafa leikið með háskólaliði Liberty-skólans í Bandaríkjunum. Emma, sem er tvítug og hefur leikið fjóra A-landsleiki, verður þar með væntanlega frá keppni út þetta ár.