Guðmundur Steinarr Gunnarsson frá Þorfinnsstöðum í Valþjófsdal fæddist 14. maí 1933 á Ytri-Völlum í Kirkjuhvammshreppi, V-Hún. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Hlíð, Akureyri, 14. febrúar 2025.

Foreldrar hans voru Gunnar Júlían Jón Daníelsson, f. 23.11. 1904, d. 22.12. 1991, og Jensína Jórunn Guðmundsdóttir, f. 19.9. 1912, d. 13.10. 1988. Bróðir Guðmundar var Þorvaldur Reynir Gunnarsson, f. 13.3. 1938, d. 1.5. 1990.

Guðmundur giftist 19.1.1957 Geiru Helgadóttur, f. 21.1. 1934, d. 29.1. 1999.

Börn Guðmundar og Geiru eru: 1) Gunnar Helgi, f. 12.10. 1956, maki Hrefna Bjarnadóttir, f. 30.10. 1964, d. 31.12. 2020. Börn hans eru Haukur, f. 3.11. 1981, Ásdís, f. 15.7. 1989, Katrín, f. 30.11. 1994. 2) Rögnvaldur, f. 16.12. 1957, maki Deborah Júlía Robinson, f. 11.1. 1962. Börn þeirra eru Alexandra, f. 7.7. 1989, Steinunn Júlía, f. 9.5. 1993, og Monika, f. 4.8. 1997. 3) Katrín, f. 31.1. 1961. Börn hennar eru Hulda, f. 3.9. 1983, og Erna Jensína, f. 7.3. 1996.

Guðmundur starfaði sem vörubifreiðastjóri, héraðslögreglumaður og rekstrarstjóri hjá Vegagerðinni á Ísafirði. Hann var einnig áhugaflugmaður, átti nokkrar flugvélar og hlut í fleirum um nokkurra áratuga skeið og einnig flugskýli á flugvellinum í Holti.

Guðmundur og Geira bjuggu lengst af á Flateyri við Eyrarveg 12, sem þau tóku þátt í að byggja. Síðar fluttu þau á Drafnargötu 15. Guðmundur og Geira fengu sumarbústaðarlóð í landi Þorfinnsstaða í Valþjófsdal. Þar komu þau sér upp myndarlegu sumarhúsi og unaðsreit. Voru þar öll sumur og nutu náttúrunnar. Árið 1996 fluttu þau í Hafraholt 8 á Ísafirði en eftir andlát Geiru flutti Guðmundur til Akureyrar, fyrst í Höfðahlíð 1 og síðar í Lindasíðu 4.

Kveðjuathöfn fór fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Elsku pabbi minn er farinn. Ég á eftir að sakna hans mikið, við töluðum saman tvisvar á dag og hann gaf mér alltaf góð ráð og var bestur í því enda klár maður.

Pabbi keypti Bedford-vörubíl þegar ég 4 ára þá vorum við flutt í nýtt hús á Eyrarvegi 12 á Flateyri þar sem pabbi og mamma byggðu húsið með Björgvini Þórðarsyni og Jónínu Önfjörð. Ég var í vegavinnunni með foreldrum mínum frá 4 ára til 22 ára. Ég var mikið með pabba á vörubílnum og það var hilla á bak við sætin og þar setti pabbi mig oft þegar ég var syfjuð sem barn, þar sofnaði ég oft þegar pabbi var að keyra. Mamma var ráðskona og eldaði fyrir mennina í Vegagerðinni ásamt annarri konu. Þetta var yndislegur tími á sumrin sem ég átti með foreldrum mínum. Bræður mínir fengu oft að vera með okkur í vegavinnunni, annars voru þeir í sveit á Þorfinnsstöðum í Valþjófsdal hjá Jensínu ömmu og Gunnari afa. Ég flaug oft með pabba eftir að hann varð einkaflugmaður, pabbi átti nokkrar flugvélar og þetta var hans áhugamál. Mamma mín fór einnig í margar flugferðir með honum.

Vorið sem ég fermdist fluttum við á Drafnargötu 15 á Flateyri í nýtt hús, þar átti ég margar góðar minningar með foreldrum mínum og bræðrum mínum. Pabbi lagði mikið upp úr því að við systkinin myndum ganga menntaveginn sem og við gerðum. Pabbi var vel upplýstur maður, hann var vel lesinn og átti gott bókasafn. Það var alltaf hægt að leita til pabba þegar ég var í námi o.fl. og barnabörnin leituðu mikið til hans þegar þau voru í námi. Við fjölskyldan byggðum bústað í landi Þorfinnsstaðar í Valþjófsdal og ræktuðum þar mikið landsvæði, það var yndislegur tími þar sem fjölskyldan kom saman. Mamma og pabbi voru mjög samstiga hjón og núna er pabbi kominn til mömmu, foreldra sinna og bróður. Blessuð sé minning hans elsku pabba míns.

Katrín Guðmundsdóttir.

Elsku Mummi afi minn er farinn í sumarlandið og kominn til Geiru ömmu, Jensínu nöfnu langömmu, Gunnars langafa, Dadda bróður síns og fleiri. Ég á margar góðar minningar með elsku Mumma afa mínum og það sem stendur upp úr hjá mér er að hann byrjaði að fylgjast með íslenska handboltalandsliðinu eftir að ég var að segja honum frá þeim þar sem ég hef haft mikinn áhuga á allskyns íþróttum. Hann hringdi yfirleitt alltaf í mig fyrir leiki á stórmótum hjá íslenska karlalandsliðinu og var að fara yfir hvernig leikurinn myndi fara og einnig alltaf í hálfleik og það þótti mér afskaplega vænt um. Við rökræddum oft og áttum margar góðar samræður um lífið og tilveruna.

Mummi afi var sterkur, klár maður og gaf mér alltaf góð ráð. Ég var mikið hjá honum þegar hann átti heima í Höfðahlíð á Akureyri og þar bjó fjölskylda við hliðina á honum sem var frá Hollandi og ég var oft að leika við stelpuna þeirra. Við Mummi afi keyrðum mikið saman og ég mun seint gleyma því þegar við vorum að keyra til Valda frænda inn á Hrafnagil og það kemur geitungur inn í bílinn og ég segi: Afi, það er geitungur á rúðunni hjá þér og afi sér geitunginn og kremur hann með lófanum sínum.

Við töluðum reglulega saman í síma og hann var alltaf að hvetja mig til að læra leikskólakennarann og ganga menntaveginn og hvað það væri mikilvægt að mennta sig og var alltaf tilbúinn að hjálpa ef mig vantaði eitthvað. Hann sagði einnig oft við mig hvað ég líktist móður hans Jensínu Jórunni sem persónu og sem ég er skírð eftir. Þegar við áttum heima á Patreksfirði kom afi í heimsókn til okkar og þá var hann á gráa Volvo-bílnum sínum sem var kallaður forsetabíllinn og hann leyfði mér að keyra fyrir utan bæinn á stórum bletti þar og það fannst mér ekki leiðinlegt.

Við áttum mörg og góð hjartnæm samtöl sem ég mun seint gleyma. Ég sakna hans meira en orð fá lýst og þykir svo óendanlega vænt um elsku besta Mumma afa minn. Ég datt í lukkupottinn með að eiga hann sem afa. Hvíldu í friði, elsku Mummi afi minn.

Erna Jensína
Guðmundsdóttir.

Mummi afi hefur nú kvatt þennan heim. Orð fá ekki lýst hversu mikið mér þótti vænt um hann enda einn af mínum bestu vinum. Fjölskyldan skipaði veigamikinn sess í lífi afa enda fylgdist hann grannt með barnabörnum og barnabarnabörnum sínum sem veittu honum gleði.

Á æskuárum mínum var ég mikið með Geiru ömmu og Mumma afa sem mótuðu mig sem einstakling og það mynduðust sterk tengsl milli okkar. Þegar ég varð eldri urðu tengsl okkar dýpri og í raun fannst mér hann vera afapabbi minn. Ég gat í raun rætt allt milli himins og jarðar við afa. Hann var sérstaklega fróðleiksfús og hafði gaman af því að spyrja ögrandi spurninga. Hann hafði sterkar skoðanir sem hann lá ekki á, var víðlesinn og hugur hans stöðugt á ferð. Afi sagði alltaf í lok samræðna okkar: „Mikið fannst mér gott að ræða við þig Hulda mín, þú komst mér í svo gott skap.“

Afi veitti mér góð ráð með umhyggju og skilningi. Samtalanna sakna ég gríðarlega mikið og þó hann sé fallinn frá þá finnst mér ég þurfa að hringja í hann eða þegar síminn hringir þá segi ég ennþá „þetta er afi“ af gömlum vana. Tómarúm hefur skapast í hjarta mér en tíminn læknar öll sár. Eitt sem afi sagði oft við mig var að Vestfirðingar væru harðir af sér og ég hef tileinkað mér það í lífinu að erfiðleikar eru til þess að ganga í gegnum þá og þeir veita manni styrk. Þegar ég greindist með alvarlegt krabbamein þá ákvað ég strax að tileinka mér jákvætt hugafar og að þetta væri reynsla sem myndi gera mig að sterkari einstaklingi. Afi sagði oft við mig að Geira amma heitin hafði einnig þetta hugarfar í sínum veikindum og við værum Pollýönnur.

Mér er þakklæti efst í huga þegar ég minnist afa og hvað hann sýndi því mikinn áhuga sem ég var að fást við hverju sinni. Ég er ekki síður þakklát fyrir að Katrín Eva dóttir mín fékk að kynnast langafa sínum.

Ég syrgi þig en góðu minningarnar og þakklætið eru sorginni yfirsterkari. Þú hefur markað líf mitt og fjölda annarra og sá sem auðgar líf annarra hefur vissulega lifað góðu þýðingarmiklu lífi.

Takk fyrir samveruna, skilninginn, gleðina og umhyggjuna.

Hulda Guðmundsdóttir.

Guðmundur var upprunninn í hinum víðáttumikla og grösuga Valþjófsdal í Önundarfirði. Frá náttúrunnar hendi er dalurinn fögur og blómleg byggð og hefur ræktun góðbænda aukið enn við prýði hans og nytjar.

Ungur var hann nemandi síra Eiríks J. Eiríkssonar, skólastjóra á Núpi. Fullorðinn var hann einn brautryðjenda í vestfirskri vegagerð. Hann vann lengi undir stjórn Lýðs Jónssonar, en varð seinna héraðs- og rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Vestfjörðum. Hann aflaði sér flugmannsréttinda og var þaulkunnugur flugvöllunum í héraðinu. Hann velti því fyrir sér, hvort flugvöllur á Sveinseyrarodda í Dýrafirði gæti komið íbúum á norðanverðum Vestfjörðum til góða, bæði í innan- og utanlandsflugi.

Guðmundur var bókamaður, vel máli farinn og áhugasamur um íslenska tungu. Ósjaldan færði hann í tal, hve mjög málfæri landa okkar væri tekið að hraka – og hann gat hlegið dátt að rollu eins og þessari, þótt undir niðri tregaði hann meðferðina á móðurmálinu:

„Heilt yfir hljóta jú lausnamiðaðir einstaklingar auðvitað líkt og að fókusera á þær gríðarlegu áskoranir, sem koma á þeirra borð á í-meilnum gagnvart innviðunum, sem eru jú auðvitað á pari við nýja vínkilinn á einni sviðsmyndinni í stóra samhenginu. En þá er bara ekki tekið mark á'ussu og ekkert hlustað á'etta, heldur er umræðan tekin á breiðum grundvelli hægri vinstri, eins og enginn sé morgundagurinn – við aðila sem á þessum level eru útsettir fyrir smit, en eru samt ekki að fatta mikilvægi sóttkvís, basically, svo það sé sagt, þú veist …“

Djúpt í hugarfylgsnum hans djarfaði fyrir þeim grun, að hann væri að langfeðgatali kominn af húgenottum, en svo nefndust franskir mótmælendur, kalvínstrúar, sem ofsóttir voru eftir að Loðvík 14. komst til valda í Frakklandi. Árið 1685 svipti konungur þá öllum réttindum og flýðu þeir þá til nálægra landa. Og nokkuð var það, að Guðmundur var ekki ólíkur sumum fransmönnum í útliti: svarthærður, dökkur á hörund og brúneygður.

Guðmundur var kvæntur manna best. Geira var einstök kona að manngæðum, glaðlynd, góðviljuð og vinföst, trúuð og kirkjurækin, vissi, að máttur bænarinnar er mikill og hún lýsti því einatt, hversu hún hefði hlotið blessun í guðsþjónustunni. Hún las oft í Biblíunni, sálmabókinni og Passíusálmunum og lét uppbyggjast af heilögu orði.

Við verðum alla ævi þakklát fyrir það, hve annt þau hjónin létu sér um okkur allt frá fyrstu dögunum vestra. Þegar leiðir allar heim til okkar voru á kafi í fönn, misjafnra veðra von og Hvilftarströndin stórvarasöm sakir flóðahættu, hringdi síminn og það var þá Guðmundur að bjóðast til þess að koma með til okkar, ef okkur vantaði úr búðinni hjá Laufeyju á Flateyri.

Þegar heilsu konu hans tók að hraka, komu í ljós nýjar hliðar á Guðmundi. Erfitt er að hugsa sér meiri ástúð og natni en hann sýndi Geiru síðustu árin. Hann sá um innkaupin, þreif, eldaði og bakaði meira að segja; snerist í kringum konu sína og hlúði að henni á alla lund.

Með miklum söknuði, þökk og bæn um blessun Guðs kveðjum við elskulegan tryggðavin. Við biðjum Guð um frið yfir legstað hans, og um blessun yfir endurfundi hans við ástvinina, sem á undan honum eru farnir af þessum heimi. Við felum Guðmund Steinar Gunnarsson orði Guðs náðar. Guð blessi hann og ástvini hans alla, bæði þessa heims og annars.

Gunnar Björnsson
pastor emeritus.