Dagmál
Árni Matthíasson
arnim@mbl.is
Í nýjasta hefti tímaritsins Fléttur sem Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands gefur út er grein eftir Þorstein Vilhjálmsson sem hann nefnir „ Að lenda í þögninni: Hinseginleiki og óríentalismi í Taílandsþríleik Megasar“, en þar er vísað í plöturnar Loftmynd, Höfuðlausnir og Bláa drauma, sem komu út á árunum 1987 og 1988, en Megas átti þó ekki nema hálfa síðastnefndu plötuna, hinn helminginn átti Bubbi Morthens.
Í viðtali í Dagmálum leggur Þorsteinn áherslu á að hann sé að fjalla um Megas, en ekki um Magnús Þór Jónsson, sem er á bak við listamannsnafnið, en hann telur að hægt sé, og nauðsynlegt reyndar, að greina þar á milli.
„Til þess að nálgast hlutina fræðilega þarf maður að geta gert greinarmun á persónulegum skoðunum manns eða siðferðisdómum og hlutum sem eru til í menningunni. Í greininni er ég að tala um Megas sem er ákveðin framsetning listamanns sem samanstendur af bæði umfjöllun um listamanninn og hans eigin framsetningu á sjálfum sér. Þetta spilar saman og myndar ákveðna menningarlega orðræðu sem ég beini sjónum að. Maður verður að átta sig á því að það á sér stað ákveðið samspil milli samfélagsins og framsetningar listamannsins sem skapar okkar ímynd af Megasi sem síðan er oft ruglað saman við Magnús Þór Jónsson.“
Annað sem þarf að skilgreina er fyrirbærið óríentalismi, sem fræðimaðurinn Edward Said kom fram með í samnefndri bók 1978.
„Það hafa myndast mjög sterkar hefðir í vestrænni orðræðu um austrið, sem er í sjálfu sér fáránlegt, enda er verið að tala um svæði sem er allt austan við Pólland og alla leið að Kyrrahafi. Auðvitað er ekki hægt að ræða um það sem einhvern einn hlut. Það sem Said er að skoða í sinni frægu bók er hvaða áhrif þessi orðræða hefur haft á Vesturlönd, hvernig vestrið hefur skilgreint sig sjálft með austrið sem neikvæða mynd af sjálfu sér. Said talar um þetta sem fantasíu, orðræðu fantasíu, sem lýsir einna helst eða eingöngu þeim sem setja fantasíuna fram. Þetta er, held ég, mjög gagnlegt greiningartól til að skoða þessar ákveðnu plötur.“
Þá er það hinseginleikinn.
„Það er mjög mikilvægt að átta sig á því að í fræðum, alla vega innan hinsegin fræðanna, eru til tvær mismunandi skilgreiningar á orðinu hinsegin. Annars vegar er sú skilgreining sem er líka notuð í almennri orðræðu þar sem hinsegin er regnhlífarhugtak yfir ákveðinn sjálfsmyndarhugtök eins og hommi, lesbía, tvíkynhneigður og svo framvegis, sjálfsmyndarhugtök sem skilgreinast í andstöðu við gagnkynhneigðarhyggju.
Innan fræðanna, og þá sérstaklega innan hinsegin fræðanna, hefur risið upp önnur leið til að nota orðið hinsegin sem er ekki verufræðilegt, það er það lýsir ekki, svarar ekki hvað er x heldur snýst það frekar um ferilinn, það hvernig hlutirnir virka. Hinsegin í þessari merkingu er sem sagt sú aðferðafræði til að horfa öðruvísi á hlutina. Þegar þú horfir hinsegin á hlutina ertu að reyna að sjá mörkin milli hins eðlilega og hins óeðlilega, milli þess sem er hinsegin, þess sem ýtt er úr vegi til að búa til flokk hins eðlilega. Þetta er krítískt greiningarhugtak, ekki verufræðilegt hugtak; svarar ekki spurningunni ég er heldur hvernig gerðist þetta? Spurningin um hvort hinn raunverulegi maður, Magnús Þór Jónsson, sé hinsegin eða ekki í fyrri merkingunni, hinni verufræðilegu, er eitthvað sem ég hef engan áhuga á og er ekki tekið fyrir en hins vegar lít ég svo á að Taílandsþríleikurinn sé hinsegin list, list sem ögrar og opinberar hvernig við skilgreinum hið venjulega, hið eðlilega.“
Þegar tvær fyrstu plöturnar í þessum þríleik komu út vöktu þær ekkert sérstakt umtal og þóttu ekkert sérstaklega framandlegar eða skrýtnar.
„Ekki á opinberum vettvangi, sem er stórmerkilegt í sjálfu sér vegna þess að þessar plötur, Loftmynd frá áttatíu og sjö og Höfuðlausnir frá áttatíu og átta, eru gríðarlega ögrandi. Þeim er ætlað að vera ögrandi og ögrandi list er ætlað að vekja viðbrögð, en á opinberum vettvangi var þessum plötum neitað um þau viðbrögð. Það er þessi neitun sem mér finnst áhugaverð. Hvað var það sem gerði að verkum að ögruninni var hafnað eða ögrunin var látin geiga, hvað var það við ögrunina sem framkallaði þau viðbrögð?“
Viðbrögðin komu vissulega, en ekki strax.
„Það er rétt, því þegar kom að seinustu plötunni í Taílandsþríleiknum, sem er Bláir draumar, var þar náttúrlega hið fræga lag, Litlir sætir strákar, og sú ögrun var það mikil að það var erfitt að líta fram hjá henni. Einnig varð sú sögulega tilviljun, komst ég að, að mánuði áður en sú plata kom út var frumsýnd á Stöð tvö norsk heimildarmynd sem virðist hafa fyrst vakið almennilega orðræðu um misnotkun á börnum.
Á opinberum vettvangi hélt þó áfram að vera að mestu leyti þögn, en það er engu að síður líka greinilegt frá öðrum heimildum að á bak við tjöldin var eitthvað mjög mikið farið að gerast. Þá var farið að fordæma Megas nokkuð harkalega og ásaka hann um barnagirnd og sérstaklega í tengslum við það sem fólk vissi, eða taldi sig vita öllu heldur, um samband Megasar við ákveðinn taílenskan ungan mann sem var í umræðunni túlkaður sem drengur.“
Það líður svolítill tími þarna á milli en það sem þú ert þá að segja er það að ögrunin geigaði til að byrja með en síðan breyttist samfélagið.
„Já, það er eins og eitthvað hafi breyst. Það virðist hafa verið einhvers konar gerjun í gangi sem ég held að tengist þessum breyttu hugmyndum um alvarleika þess vandamáls sem er misnotkun á börnum. Ég held að það komi ýmsum á óvart hversu lítið alvarlegt það var talið á Íslandi lengst af miðað við það sem við teljum í dag. Ég held líka að þetta snúist einnig að einhverju leyti um óríentalisma sem er ein leið til að greina þessa þögn um samband Megasar við hinn unga taílenska mann, sem Megas kallaði Mú, vegna þess að óríentalisminn, eða austurlandahyggjan, fjarlægði þetta einhvern veginn frá raunveruleikanum, færði þetta í einhvers konar framandi fantasíuheim sem tengdist raun og veru ekki íslenskum veruleika þannig að það þurfti ekki að glíma við hann sem slíkan.“