Andrés Magnússon
Það hefur orðið talsverð viðhorfsbreyting til áfengis á Íslandi á umliðnum árum og að mestu til batnaðar, án þess að lítið skuli gert úr skaðsemi óhófs.
En auðnist mönnum að umgangast það sem lystisemd fremur en löst getur það verið góður bragðbætir í lífið og það er hluti menningar okkar.
Ég er reglulega gestur í Þjóðmálum, hlaðvarpi Gísla Freys Valdórssonar, sem eitt sinn var blaðamaður hér í sókninni. Stefán Einar Stefánsson er það líka og hann kemur iðulega með kampavín eða aðrar veigar, sem við smökkum og ræðum við ágætar undirtektir hlustenda. Góðar stundir.
Nýlega heyrði ég nýtt breskt hlaðvarp um vín, menningu og vínmenningu, sem heitir Intoxicating History eða Höfug mannkynssaga, í umsjá vínkerans Henry Jeffreys og matarrýnisins Tom Parker Bowles (sonar Kamillu drottningar).
Þetta er bæði skemmtilegt og einstaklega fróðlegt hlaðvarp, sem blandar saman mannkynssögu, menningarsögu og þætti ljúfra veiga.
Umsjónarmennirnir eru bæði fjölfróðir, skemmtilegir og bæta hvor annan mikið upp eins og góðum vinum á góðri stund sæmir.
Það er ekki úr vegi að fá sér tár við hlustunina, en alls ekki nauðsynlegt, til að læra meira um hið ljúfa líf. Allt í hófi nema hófið, sérstaklega í hófi.