Körfubolti
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Jónína Þórdís Karlsdóttir, fyrirliði kvennaliðs Ármanns í körfubolta, er ein þeirra sem komu að því að endurvekja kvennalið félagsins árið 2020.
Félagið tryggði sér sæti í efstu deild á dögunum með sigri gegn b-liði Stjörnunnar í 1. deildinni, 102:57, þann 7. mars í Laugardalshöllinni þegar tveimur umferðum var ólokið í deildinni.
Sigurinn var sögulegur því Ármenningar léku síðast í efstu deild árið 1960, þegar félagið varð Íslandsmeistari, en Ármann er með fullt hús stiga eða 32 stig í efsta sæti 1. deildarinnar og hefur ekki tapað leik í vetur.
„Þetta hefur verið löng vegferð,“ sagði Jónína Þórdís í samtali við Morgunblaðið.
„Við vorum nokkrar sem komum að því að endurvekja kvennaliðið á sínum tíma. Markmiðið var að sjálfsögðu að koma liðinu aftur í efstu deild sem tókst og tilfinningin, að ná þessu markmiði loksins, er algjörlega ólýsanleg.
Við höfum verið bæði nálægt þessu og ekki nálægt þessu. Við urðum deildarmeistarar tímabilið 2021-22 en þá fór bara eitt lið upp um deild og við töpuðum fyrir ÍR í oddaleik í úrslitum umspilsins. Síðustu tvö ár höfum við verið um miðja deild en við vorum allar staðráðnar í því fyrir tímabilið að þetta yrði árið okkar,“ sagði Jónína.
Mikilvægt fyrir yngri iðkendur
Ármann endaði í 6. sæti 1. deildarinnar tímabilið 2022-23 og í 5. sætinu tímabilið 2023-24. Hvað breyttist hjá liðinu í sumar?
„Þó að við höfum endað um miðja deild fannst mér við samt alltaf hafa alla burði til þess að enda ofar og vinna deildina en það gekk því miður ekki upp. Við fengum til okkar mjög sterka leikmenn fyrir tímabilið og markmiðin voru skýr frá fyrsta degi. Það skiptir ofboðslega miklu máli fyrir félagið í heild sinni að eiga lið í efstu deild.
Það er mjög mikilvægt að yngri iðkendur hafi einhverja til þess að líta upp til og eitthvað til að stefna að. Ég er uppalin í Ármanni en þurfti sjálf að leita annað þegar ég náði ákveðnum aldri því það var enginn meistaraflokkur í félaginu. Ein af ástæðum þess að ég tók þátt í því að endurvekja kvennaliðið var sú að ég vildi gefa til baka og ég vildi ekki að yngri iðkendur myndu lenda í því sama og ég.“
Allir með sín hlutverk
Hvernig var tilfinningin þegar dómarinn flautaði til leiksloka gegn Stjörnunni?
„Þetta var gæsahúðaraugnablik. Það voru margir Ármenningar í stúkunni sem mættu til þess að styðja við bakið á okkur. Við stelpurnar í liðinu erum allar mjög góðar vinkonur og erum búnar að vera lengi saman í þessu. Þrátt fyrir að leikurinn hafi verið frekar ójafn þá var mjög skemmtilegt að spila þennan leik.
Allir leikmenn liðsins fengu tækifæri og náðu að setja sitt mark á leikinn. Við höfum unnið nokkra leiki í vetur frekar stórt en það hafa allir fengið að leggja sitt lóð á vogarskálarnar og hver einn og einasti leikmaður liðsins á stóran þátt í þessu afreki. Stemningin í hópnum hefur því verið mjög góð allt tímabilið og það eru allir með sín hlutverk á hreinu.“
Rétti tímapunkturinn
Jónína er bjartsýn fyrir komandi tímum og telur að Ármenningar muni pluma sig vel í efstu deild á næstu leiktíð.
„Við erum aðeins farin að huga að næsta tímabili og markmiðið er að halda okkar lykilmönnum og leikmannakjarna innan félagsins. Við munum styrkja okkur eitthvað líka og það eru nokkrar stelpur sem ég myndi vilja sjá í Ármanni á næstu leiktíð. Þær vita hverjar þær eru og þetta eru allt leikmenn sem myndu styrkja okkur.
Þetta er rétti tímapunkturinn til þess að fara upp um deild því við erum tilbúnar í það. Maður hefur séð lið fara upp um deild, falla og svo nánast þurrkast út. Við höfðum mjög gott af þessum árum í 1. deildinni, starfið hefur vaxið mikið og yngriflokkastarfið er gríðarlega öflugt. Þegar ég horfi til baka er ég mjög sátt við að við fórum ekki upp fyrir þremur árum, þótt það hafi verið svekkjandi á þeim tíma.“
Líður vel í uppeldisfélaginu
Jónína Þórdís hefur tvívegis verið valin besti leikmaður 1. deildarinnar undanfarin ár, ásamt því að eiga fast sæti í úrvalsliði ársins í deildinni, og hún hefur einnig verið eftirsótt af liðunum í úrvalsdeildinni.
„Pabbi minn, Karl Guðlaugsson, er formaður körfuknattleiksdeildar Ármanns, og hann er einn af þeim sem tóku þátt í að endurvekja körfuboltann innan félagsins um aldamótin. Við erum búin að vera saman í þessu núna í langan tíma og ég hef viljað halda tryggð við bæði félagið og pabba. Hann hefur sjálfur fengið nokkur skilaboðin í gegnum tíðina.
Flestar spurningarnar sem pabbi hefur fengið snúa að því hvort Ármann verði með lið á næstu leiktíð og hann svarar því alltaf játandi. Þá hafa nú flestir bakkað út úr viðræðunum en þeir allra djörfustu, sem eru ekki hræddir við pabba, hafa stundum sent beint á mig og spurt mig út í stöðuna. Þú svíkur ekki pabba þinn og mér hefur liðið mjög vel með bæði honum og hjá félaginu. Þetta er mitt félag.“
Eftirsóknarvert í Höllinni
Ármenningar léku heimaleiki sína í Laugardalshöllinni í vetur en félagið hefur þurft að glíma við ákveðið aðstöðuleysi á undanförnum árum, sér í lagi yngri flokkarnir.
„Það er bagalegt að ein af stærstu körfuboltadeildum landsins hafi ekki verið með hús út af fyrir sig en við höfum tæklað það vel. Við lékum heimaleikina okkar í vetur í Laugardalshöllinni og ég held að ein af ástæðum þess að okkur gekk svona vel hafi klárlega verið þessi stöðugleiki í aðstöðumálunum.
Við erum alltaf með aðstöðu líka í Kennaraháskólanum og höfum æft og spilað þar líka í gegnum tíðina en í ár hefur Laugardalshöllin verið okkar heimavöllur. Það fylgir því ákveðin stemning að spila í Laugardalshöllinni, okkar þjóðarhöll, og leikmönnum finnst það eftirsóknarvert líka. Framtíðardraumurinn er svo auðvitað að Ármann eignist sitt eigið húsnæði sem þar allir flokkar koma saman, æfa og spila.“
Ármann stefnir hátt
Jónína Þórdís er mjög spennt fyrir komandi tímum og hlakkar til að takast á við samkeppnina í efstu deild.
„Ég hætti í körfubolta þegar ég var sautján ára gömul og spilaði ekki í þrjú ár. Ég sneri svo aftur á völlinn til þess að endurvekja kvennaliðið. Síðustu ár hafa verið krefjandi þar sem ég hef verið að læra lögfræði í HÍ, í vinnu með því líka og svo að æfa og spila með Ármanni. Ég íhugaði það alveg að kalla þetta gott eftir síðasta tímabil, á fullu í meistaranámi, en sem betur fer ákvað ég að taka slaginn áfram.
Það skemmtilegasta sem ég geri er að mæta á æfingar með mínum bestu vinkonum. Þessi árangur okkar í ár hefur mikla þýðingu fyrir mig þegar ég horfi til baka og það sem á undan er gengið. Ég kláraði námið mitt síðasta vor og sætið í úrvalsdeildinni gerir allt erfiðið síðustu ár þess virði. Ég get ekki beðið eftir því að taka slaginn í úrvalsdeildinni með mínu félagi og mínum vinkonum og við ætlum okkur stóra hluti í framtíðinni,“ bætti Jónína Þórdís við í samtali við Morgunblaðið.