Emmanuel Macron forseti Frakklands á sviðinu í Grand Palais-ráðstefnuhöllinni í miðborg Parísar.
Emmanuel Macron forseti Frakklands á sviðinu í Grand Palais-ráðstefnuhöllinni í miðborg Parísar. — Ljósmynd/Brynjólfur Borgar Jónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Brynjólfur Borgar Jónsson, stofnandi og framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Datalab, hélt fyrst að boð á nýafstöðnu gervigreindarráðstefnuna Sommet pour l'action sur l'IA í Grand Palais í miðborg Parísar hefði verið ruslpóstur

Brynjólfur Borgar Jónsson, stofnandi og framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Datalab, hélt fyrst að boð á nýafstöðnu gervigreindarráðstefnuna Sommet pour l'action sur l'IA í Grand Palais í miðborg Parísar hefði verið ruslpóstur. Á daginn kom að á ráðstefnuna mætti fólk í fremstu röð, hvort sem er í atvinnulífi eða pólitík, hvaðanæva úr heiminum. „Ég fékk boðið á ráðstefnuna í desember sl. Þá lá svo lítið fyrir um dagskrána að ég hélt að þetta væri eitthvert plat,“ segir Brynjólfur og hlær.

Hann ákvað þó að lokum að slá til og fara til Parísar ásamt fólki frá Miðeind og fulltrúum stjórnvalda, alls fimm manns.

Stórmenni að mæta

„Um miðjan janúar fór dagskráin að skýrast en dagana rétt áður en ráðstefnan átti að hefjast fóru að birtast fréttir um að hin og þessi stórmenni ætluðu að mæta, þar á meðal forseti Frakklands, Emmanuel Macron. Þá varð maður spenntari. Þegar ég sá að varaforseti Bandaríkjanna, J.D. Vance, og forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, höfðu bæst í hópinn sá maður að viðburðurinn yrði mikilvægur.“

Ráðstefnan stóð í tvo daga auk hliðarviðburða helgina á undan. „Þetta endaði á að vera nokkurra daga veisla í París. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer á gervigreindarráðstefnu þar sem ekki er endilega verið að kafa ofan í tæknina sjálfa heldur meira verið að fjalla um samfélagsleg málefni sem henni tengjast og samhengi hlutanna.“

Brynjólfur bætir við að sífellt sé að koma betur og betur í ljós hve öflug gervigreindartæknin er orðin og hversu víðtæk áhrif hún muni hafa á atvinnulíf, samfélag og stjórnmálin. Um það var fjallað í París.

Steig á hringlaga svið

Brynjólfur segir að Macron hafi stigið á hringlaga svið í miðju húsinu eftir að hafa látið bíða eftir sér í hálftíma. „Það var mikil spenna í loftinu. Hann var mjög flottur enda góður ræðumaður og flinkur stjórnmálamaður. Hann sagði að Frakkland ætlaði sér ekki að verða eftirbátur annarra þjóða í þróun gervigreindar og myndi fjárfesta í henni fyrir mjög háar fjárhæðir. Hann sagði að þeir vildu verða öðrum Evrópuþjóðum fyrirmynd og hvetja þær til dáða á sama tíma í samkeppninni við Bandaríkin og Kína.“

Brynjólfur segist hafa komist að því á ráðstefnunni að Evrópa eigi erfitt með að elta í blindni hina öru þróun gervigreindartækni í Bandaríkjunum í dag. „Evrópa veit ekki alveg á hvaða leið Bandaríkin eru í þessu. Hún er heldur ekki viss um að henni líki við stefnu Bandaríkjanna almennt. En Macron sagði að Evrópa hefði alla burði til að ná árangri enda væru frábærir háskólar í álfunni, stór markaður, frábær sprotasena og leiðandi fyrirtæki.“

Þannig hafi margir fremstu vísindamenn á sviði gervigreindar einmitt komið frá Evrópu. Þar megi nefna Frakkann Yann Lecun sem stýrir gervigreindarþróun hjá bandaríska samfélagsmiðlarisanum Meta og Bretinn Geoffrey Hinton sem hlaut nýlega Nóbelsverðlaunin fyrir framlag sitt til gervigreindar.

Brynjólfur segir að stóru skilaboð Macrons hafi verið að Evrópa þyrfti að taka ábyrgð á því að verða þátttakandi í fremstu röð í þessari þróun. „Ef Macron fær stóru Evrópuríkin með sér í þessa vegferð, Bretland, Þýskaland og aðra, þá er þetta klárlega gerlegt, en mögulega þarf að einfalda regluverkið í álfunni, enda hefur Evrópusambandið verið gagnrýnt fyrir sína tíðu reglugerðarsetningu um alla hluti, þar á meðal í þessu máli.“

Framkvæmdastjórinn sótti einnig fund norrænu ríkjanna og Eystrasaltsríkjanna í ágúst síðastliðnum. Þá voru skilaboðin svipuð. „Þangað mættu ráðherrar flestra ríkja og allir sögðu að nóg væri komið af reglum. Nú væri kominn tími á aðgerðir.“

Á nokkrum stöðum

Brynjólfur segir það niðurstöðu sína eftir ferðina á ráðstefnuna í París að í næstu framtíð muni gervigreindarþróunin mögulega fara fram samtímis á nokkrum stöðum í heiminum. „Bandaríkin, Kína, Evrópa og Indland fara hvert sína eigin leið tel ég. Þetta gæti brotnað upp með þessum hætti þar sem tæknin þarf að endurspegla og styðja við gildi, menningu og viðmið hvers heimshluta. Og nú virðist vera að opnast gjá á milli ráðandi viðmiða vestan og austan Atlantsála.“

Ýmsar stórstjörnur úr tækniheiminum voru mættar á ráðstefnuna eins og Yann LeCun, yfirmaður gervigreindar hjá Meta, sem rekur Facebook, WhatsApp og Instagram, Demis Hassabis sem stýrir málaflokknum hjá Google og Fei-Fei Li, einn áhrifamesti vísindamaður heims á sviðinu.

„Þegar ég var á röltinu um svæðið sá ég mann að tala úti á miðju gólfi í miklu mannhafi. Þegar ég kom nær sá ég að þar var mættur Sundar Pichai forstjóri Google. Það var mikil upplifun fyrir mig að komast nálægt þessu áhrifafólki sem maður hefur fylgst svo náið með í gegnum tíðina.“

Brynjólfur ítrekar mikilvægi þess að Íslendingar taki þátt í þróun gervigreindar í samstarfi við hin norrænu löndin. „Ég hef mætt á svona samkomur í yfir 15 ár en hingað til hafa þær mestmegnis verið hálfgerðar nördasamkomur. En núna hefur svona samkoma breiðari skírskotun. Tæknin hefur sprungið út eftir að hún náði jafn góðum tökum á tungumálum og raunin er, sem þýðir að venjulegt fólk getur átt samskipti við hana og hagnýtt í leik og starfi.“

Gífurlegum fjármunum er í dag varið í rannsóknir á sviði gervigreindar að sögn Brynjólfs. „Þess vegna er þróunin svona hröð og við eigum eftir að sjá mikla framþróun á næstu árum. Samfélögin eru að eldast og það verður því erfiðara og erfiðara að halda uppi hagvexti. Gervigreindin er svar við því. Auk þess er allt á fullu við að innleiða gervigreind í hernaði, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Þar þarftu að vera með betri tækni en óvinurinn. Svo má minnast á læknavísindin og lyfjaþróunina, heilbrigðiskerfið, menntakerfið og opinbera þjónustu í víðu samhengi. Gervigreindin á að vera svar við svo mörgu. Það eru sem sagt heilmikil tækifæri en líka stórar áskoranir sem varða öryggi tækninnar og sem mörgum fannst að fundurinn í París fjallaði ekki nægilega um.“

Vantar gervigreindarstofnun

Brynjólfur segir að Ísland þurfi að setja upp gervigreindarstofnun eins og búið er að gera í nágrannalöndunum. „Það yrði þá miðlægur aðili sem hægt yrði að leita til í alþjóðasamstarfi og vegna þróunar og hagnýtingar tækninnar hér heima. Við megum a.m.k. ekki dragast aftur úr og helst að hafa eitthvað fram að færa einnig. Við ættum að forðast að koma okkur í þá aðstöðu að vera algjörlega háð erlendum tæknirisum þegar þessi tækni er

annars vegar, það gæti dregið dilk á eftir sér. Tæknin þarf að endurspegla okkar sérstöku menningu og okkar gildi. Þess vegna er mikilvægt að við séum þátttakendur en ekki bara áhorfendur.“

Aðspurður segist Brynjólfur að lokum ekki munu hugsa sig um tvisvar næst þegar boð berst á gervigreindarráðstefnu. „Mögulega verður þessi ráðstefna í Indlandi næst, fyrst forseti Indlands fékk að halda hátíðarræðuna í París. Það gæti orðið áhugavert.“