Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Húsnæðið fyrst og svo allt hitt,“ segir Guðbjörg Eyjólfsdóttir. Hún var um síðustu helgi kjörin formaður Járngerðar, hollvinasamstaka uppbyggingar og framtíðar Grindavíkur. Nokkur aðdragandi var að stofnun samtakanna en það fólk sem yfirgefa þurfti bæinn sinn fyrir hálfu öðru ári hefur þótt vanta sameiginlegan vettvang til að vinna að sínum hagsmunamálum. Nú er slíkt félag komið og starf þess hafið. Í forystu eru fimm konur og einhvern tíma hefði þetta verið kölluð valkyrjustjórn!
939 eignir hafa verið keyptar
Samkvæmt lögum sem Alþingi setti tekur Þórkatla – fasteignafélag Grindavíkur yfir íbúðarhúsnæði í bænum og greiðir út 95% af brunabótavirði. Þetta er lausn sem talin er geta náð til um 1.000 fasteigna. Með framangreindri útfærslu hefur verið gengið frá kaupum Þórkötlu á alls 939 eignum. Þarna hafa stjórnvöld komið til móts við íbúa, sem með útborgun fyrir sína fyrri eign hafa möguleika til að skapa sér framtíð á nýjum stað; sbr. að til dæmis Reykjanesbær, Vogar á Vatnsleysuströnd, Álftanes, Smárinn í Kópavogi, Þorlákshöfn og Selfoss eru nú heimabæir margra Grindvíkinga
Í samningum um kaup Þórkötlu á eignum í Grindavík geta verið ákvæði um forleigu- eða forkaupsrétt fyrrverandi eigenda, vilji þeir snúa aftur í fyllingu tímans. Á þetta hefur enn ekki reynt. Þá er enn hætta á eldgosum á Reykjanesskaga þó að jarðvísindamenn telji líklegt að umbrotum ljúki senn.
„Mikilvægast í stöðunni nú er að þau sem vilja fái að minnsta kosti tækifæri til að dveljast um stundarsakir í gömlu húsunum sínum. Þannig gæti fólk prófað að minnsta kosti hvort það geti hugsað sér að snúa aftur, án þess að binda sig til langs tíma. Þetta verður okkar helsta baráttumál, við munum sækja á og höfum óskað eftir fundi með stjórnendum Þórkötlu. Vonandi gengur planið upp,“ segir Guðbjörg og heldur áfram:
Grindvíkingar hafa þurft að berjast fyrir sínu
„Grindvíkingar hafa löngum þurft að berjast fyrir sínu. Fyrrum voru sjóslys hér tíð og fórnirnar sem þeim fylgdu miklar. Slíkt var upphafið að stofnun björgunar- og slysavarnadeilda hér. Nú eru verkefni bænum til heilla önnur og þá gott að hafa í huga hve miklu samtakamáttur getur áorkað.“
Sú tilfinning að fara um auðar götur í Grindavík er sérstök. Hús í íbúðahverfum standa auð í hundraðatali og ekkert er um að vera þar sem áður var iðandi líf; börn á leið úr skóla eða á íþróttaæfingar, fólk við vinnu og hver að brasa í sínu. En þó leynist líf í bænum þó að í litlu sé. Búseta er í 50 húsum og þar dveljast um 100 manns að talið er. Guðbjörg og Óskar Sævarsson eigimaður hennar búa vestast og syðst í bænum við götuna Staðarvör. Þar eru fjórtán hús og búseta í þremur. Raunar er þessi hluti bæjarins í nokkuð góðu standi.
Mörg fyrirtæki með starfsemi
„Ég er ósammála því að afskrifa megi Grindavík. Staðurinn á sér von og framtíð, samanber að miklu hefur verið kostað til við að reisa varnargarða sem nú umlykja bæinn. Þá er atvinnulífið í gangi; afla er landað úr skipum og bátum, nokkur fiskvinnslufyrirtæki eru með starfsemi svo og vélsmiðjan, sjoppan og fleiri. Þá er hægt að komast í sund tvisvar í viku. Við vitum að margir vilja snúa aftur og að skapa skilyrði til þess verður inntak starfs okkar í Járngerði. Er möguleiki á því að fólk geti komið aftur og kveikt ljós í húsunum sínum, sem nú standa auð. Þetta ætti að vera auðsótt,“ segir Guðbjörg.
Spár gera ráð fyrir að í lok þessa árs verði um 500 manns með fasta búsetu í Grindavík. Þær tölur segir Guðbjörg vel raunhæfar og sömuleiðis að eftir 2-3 ár verði 1.200-1.500 manns komin í bæinn að nýju; svo fremi sem náttúruhamförum linni.
„Ríkið hefur varið tugum milljarða króna til verkefna sem snúa að Grindavík. Mikilvægt er þá að sinna viðhaldi á húsum sem keypt voru út og til þess eru fyrri eigendur best fallnir. Með þessu væri ríkið, sem stendur að Þórkötlu, að verja sínar eignir og fjármuni. Að fólk geti komið hingað í vor og verið í gömlu húsunum sínum fram á haust og sjá svo til. Vonandi næst slíkt í gegn,“ segir Guðbjörg að síðustu.