Lögreglan á Suðurlandi hefur til rannsóknar andlát karlmanns sem lést snemma í gærmorgun.
Heimildir Morgunblaðsins herma að karlmaðurinn hafi fundist við göngustíg í Gufunesi í Grafarvogi og benda áverkar til þess að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.
Lögreglan naut liðsinnis sérsveitar ríkislögreglustjóra við lögregluaðgerð í Þorlákshöfn aðfaranótt þriðjudags sem tengist rannsókninni á andláti mannsins, samkvæmt heimildum blaðsins.
Sex hafa verið handteknir í tengslum við málið. Sá sjötti fannst þegar afskipti voru höfð af bíl við umferðareftirlit í Lindahverfi í gær. Stöðvunarmerkjum lögreglu var ekki sinnt og hóf lögregla því eftirför. Kom þá í ljós að bíllinn tengdist málinu, segir Heimir Ríkarðsson, stöðvarstjóri lögreglu í Kópavogi,
Eftirförinni lauk við gatnamót í Kópavogi þegar karl og kona hlupu út úr bílnum og reyndu að komast undan á fæti. Karlmaðurinn náðist á hlaupum en konan komst undan. Hún fannst í Austurbæ Reykjavíkur í gærkvöldi.