Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur úthlutað 140 milljóna króna styrkjum til 13 verkefna sem ætlað er að efla byggðir landsins. Alls bárust 19 umsóknir fyrir um 437 m.kr. en heildarkostnaður verkefnanna var rúmlega 800 milljónir króna.
Stærsta einstaka styrkinn, 16 milljónir, fékk Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum vegna byggðaþróunar og eflingar samfélags í Grindavík og nærliggjandi svæða. Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi vestra fá 15 milljónir vegna endurnýjunar hluta stofnlagnar frá borholu Hitaveitu Öxarfjarðarhéraðs við Skógalón.
Rúmar 14 milljónir renna til Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi vegna svonefnds samvinnuhúss á Vopnafirði, ásamt því að kortleggja sambærilegt úrræði fyrir Austurland, þ.e. sameiginlegt atvinnuhúsnæði og aðstöðu fyrir óstaðbundin störf.
Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi fá 13,5 milljónir til að byggja Auðarstofu í Dalabyggð, nýsköpunar- og þekkingarsetur. Litlu minna, eða 13,4, verður varið til uppbyggingar gamla bæjarhlutans á Blönduósi, en styrkþegi er Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.
Markmiðið með aðgerðinni er að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna.