Dagþór Haraldsson
Dagþór Haraldsson
Ekki láta okkur verða vitni að því að þið eyðið óhóflegum tíma í umræðu um plasttappa eins og var 20. febrúar. Látið verkin tala.

Dagþór Haraldsson

Hinn 5. desember 2022 var haldin glærusýning undir fyrirsögninni „Gott að eldast“ á Hótel Hilton með tilþrifum að sögn RÚV. Þar voru ráðherrarnir Guðmundur Ingi og Willum Þór að verki og þeir voru snillingar, því að þessi áætlun þeirra átti að taka fjögur ár. Algjör snilld að þurfa ekki að taka ábyrgð á málinu, enda er hvorugur ráðherra í dag og ekki einu sinni á þingi. Mér er ekki kunnugt um hve margir starfsmenn ef nokkur var ráðinn til verksins. En allavega er mér ekki kunnugt um að eitt einasta atriði hafi komið út úr þessu verkefni. Allt situr við hið sama og engar breytingar og það þrátt fyrir digurbarkaleg loforð „góðu flokkanna“ fyrir kosningarnar í nóvember. Væntanlega skýla þau sér á bak við fjárlögin. En þau eru nú ekki heilagri en það að nýlega afhenti einn ráðherrann Ukraínu 2,1 milljarð ISK.

Allar skerðingarnar eru enn óbreyttar og meira að segja skerðing atvinnutekna umfram 2,4 milljónir á ári. Þessa skerðingu hefði ný ríkisstjórn átt að afnema umsvifalaust. Og af hverju? Einfaldlega að afnám þessarar skerðingar hefði bætt stöðu ríkissjóðs, vegna skatttekna umfram skerðingarmörkin. Rétt er þó að geta þess að skerðingar mörk annarra tekna hefur verið hækkað úr 25 þúsundum í 36 þúsund, en það er í raun engin hækkun, heldur er þetta einungis það sem vísitalan hefur hækkað frá 1. janúar 2017.

Hinn 26. febrúar síðastliðinn var stærðar fyrirsögn á forsíðu Moggans: „Myndarleg aukning eigna lífeyrissjóða“. Hugsanlegt er að einhverjir muni vænta hækkunar á ellilífeyri frá þeim. En vegna skerðingarmarkanna munu þeir sem mestallt lífið hafa unnið á almenna markaðnum og eru með léleg lífeyrisréttindi (oft konur) eða í sjóðum sem fóru illa í hruninu fá undarlega lítið í vasann, þ.e. ef svo skyldi fara að einhver hækkun muni eiga sér stað. Ég set hér upp tilbúið dæmi hjá aðila sem er í 38% í skattþrepi. Verði hækkun upp á 10 þúsund byrjar kuldaboli (ríkið) að taka 3.800 kr. í sinn vasa. Svo kemur kuldaboli aftur undir merkjum TR og skerðir ellilífeyrinn um 4.500 kr. Að teknu tillits til skatts af þessum 4.500 kr. á lífeyrisþeginn eftir 3.410 kr. í sínum vasa og ríkið tekur til sín 6.590 kr. Þetta dæmi á að sjálfsögðu ekki við um þá sem eru hjá sterkum og/eða ríkistryggðum lífeyrissjóðum og fá þar af leiðandi engan ellilífeyri frá TR. Þeir borga einfaldlega 3.800 kr. í skatt og eiga 6.200 kr. eftir í vasanum. En hverjir fjármagna ríkistrygginguna?

Hinn 28. febrúar var viðtal við Runólf forstjóra Landspítalans í morgunútvarpi RÚV í tilefni að því að fimm ár voru liðin frá fyrsta covid-smitinu á Íslandi. Þar kom skýrt fram að legurúm á Íslandi eru færri miðað við mannfjölda en í nágrannalöndum okkar. Að auki er enn þessi margumtalaði „fráflæðisvandi“ Landspítalans. Ég hef á tilfinningunni að ég sé búinn að heyra talað um fráflæðisvandann í að minnsta kosti 15 ár. Allir vita að það vantar fleiri hjúkrunarheimili. Ég leyfi mér að afrita hér að neðan úr þætti á Spursmálum þar sem Stefán blaðamaður á mbl.is (3. nóv.) tekur viðtal við Svandísi Svavarsdóttur m.a. um lóðina auðu við Mosaveg.

„Þetta er Mosavegur í Grafarvogi. Árið 2021 undirritaður þú samning við Dag B. Eggertsson um að reisa hjúkrunarheimili á þessari lóð. Þú varst þá heilbrigðisráðherra og búin að vera í fjögur ár. Þið sögðuð að framkvæmdir myndu hefjast þá þegar árið 2021 og að framkvæmdum myndi ljúka 2026 og þarna átti að rísa 140 rýma hjúkrunarheimili.“

Lóðin er ennþá auð! Er ekkert að marka þetta fólk, sem hefur verið kosið til að bæta samfélagið okkar? Ég vek athygli á að í Heimildinni, blaði #87, er viðtal við íslenskan lækni, sem hefur unnið bæði á Íslandi og í Noregi. Ég vitna í útdráttinn, sem fylgdi greininni en fyrst er tilvitnun í flæðistjóra Landspítalans: „fráflæðisvandi Landspítalans í nýjum hæðum á síðasta ári“, síðan er tilvitnun í Íslenska lækninn og hann vitnar í Noreg: „Þar þykir alvarlegt ef sjúklingur er lengur en 4 tíma á bráðamóttöku. Ég lenti aldrei í því að við gætum ekki útskrifað sjúkling“.

Það tengist því að eldast að þurfa oftar á aðstoð læknis að halda. Biðin eftir viðtali hér er orðin óviðunandi. Að vísu skal viðurkennt að á alvarlegustu tilfellunum virðist tekið tafarlaust. Hvað eru alvarleg tilfelli? Þau gætu verið lífshættuleg. Síðastliðið haust var ég í hópferð í Kasakstan. Upp kom alvarleg magakveisa. Flestir sluppu vel en tveir veiktust heiftarlega. Þetta varð ljóst að morgni dags. Ferðaskrifstofan gerði strax ráðstafanir og rétt upp úr hádeginu þennan sama dag komu læknir og hjúkrunarfræðingur í heimsókn á hótelið til þessa tveggja sjúklinga. Þeir voru skoðaðir allítarlega að eigin sögn og einungis nokkrum klukkutímum síðar voru þessir sjúklingar komnir með lyf. Vel gert.

Nú, og reyndar mikið fyrr, er kominn tími til að stjórnvöld forgangsraði málum. Ekki láta okkur verða vitni að því að þið eyðið óhóflegum tíma í umræðu um plasttappa eins og var 20. febrúar. Látið verkin tala.

Höfundur er eldri borgari og leiðsögumaður með erlenda ferðamenn.

Höf.: Dagþór Haraldsson