Þorvaldur Guðmundsson sendi góða kveðju til þáttarins og sagðist hafa heyrt vísu Haraldar Hjálmarssonar frá Kambi þannig að fyrsta vísuorðið væri: „Brennivín er betra en matur“. Ég sé við eftirgrennslan að allur gangur er á því hvort sú…

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Þorvaldur Guðmundsson sendi góða kveðju til þáttarins og sagðist hafa heyrt vísu Haraldar Hjálmarssonar frá Kambi þannig að fyrsta vísuorðið væri: „Brennivín er betra en matur“. Ég sé við eftirgrennslan að allur gangur er á því hvort sú útgáfa af vísunni er notuð eða „Brennivín er bezti matur“. En í þeirri útgáfu er vísan svona:

Brennivín er betra en matur

bragðið góða svíkur eigi.

Eins og hundur fell ég flatur

fyrir því á hverjum degi.

Þorvaldur bætir við að til sé sú saga að kona, hverrar maður hét Valgarður, hafi skammað Harald fyrir drykkju, hann hafi svarað:

Veistu ekki að Valgarður

er vikulega á þambi.

Hann er verri en Haraldur

Hjálmarsson frá Kambi.

Allur er þó varinn góður, eins og Pétur Stefánsson bendir á:

Labbaðu hægt á lífsins slóð,

líttu til beggja handa.

Bakkus kóngur miklum móð

mörgum tekst að granda.

Friðrik Steingrímsson heyrði fregnir af eggjaskorti í Bandaríkjunum og sendi Trump kveðju úr Mývatnssveit.

Ert með bakið upp að vegg

þó af þér getir harkað,

setja skal ég úldin egg

á Ameríkumarkað.

Magnús Halldórsson prjónaði við það:

Þar flugur um sveitina sveima,

en svo frá því greina hlýt,

að eggin um aldir þeir geyma,

í ösku með kúluskít.

Steingrímur Baldvinsson í Nesi sendi vini sínum Agli Jónassyni á Húsavík hangikjötslæri og þessa vísu með:

Ég lýsi yfir og læt á blað

að lærið er á réttum stað

hjá þér, vinur, úr því að

ærin er hætt að nota það.

Egill þakkaði sendinguna með þessari vísu:

Á mér skartar lítillæti,

lífið bjart og fagurt er.

Efripart af afturfæti

öðlingshjartað sendi mér.

Ágústa Ósk Jónsdóttir var spurð af aðkomukonu hvort ekki væru eintómar kjaftakerlingar á Jökuldal. Hún svaraði:

Orð eru notuð alls staðar

álit til að sýna,

en ég held þú eigir þar

enga nöfnu þína.