Ingólfur Þór Árnason fæddist 24. febrúar 1976 í Reykjavík. Hann lést í Lissabon í Portúgal 22. febrúar 2025.

Foreldrar Ingólfs Þórs eru Signý Ingibjörg Hjartardóttir og Árni Ingólfsson.

Alsystir: Eyrún Huld, f. 23. janúar 1978 í Amsterdam, maki Björn Z. Flohr, börn þeirra eru Saga Karitas, Ingibjörg Eva og Jóhanna Lísa.

Tvær systur sammæðra, faðir Svanur Guðmundsson: Berglind, f. 23. janúar 1984, maki James Davis, börn þeirra eru Jón Henry og Kristófer Ryan. Hrönn, f. 17. janúar 1988, maki Ingibjörg Ruth Gulin.

Tvö systkini samfeðra, móðir Sigríður Elliðadóttir: Margrét S., f. 20. júlí 1992, maki Ulrik Langvandsbraten, dóttir þeirra er Ada. Hróbjartur Trausti, f. 10. júní 1994, dóttir hans er Daría.

Ingólfur Þór átti tvær dætur og eitt barnabarn. 1) Ylfa Rós, f. 2. maí 1997, móðir Margrét Valdimarsdóttir Richter, barn Ylfu Rósar er Ísak Leon. 2) Matthildur Nína, f. 27. september 2010, móðir Sigrún Guðmundsdóttir.

Fyrsta ár ævinnar bjó Ingólfur í Reykjavík og í Amsterdam í Hollandi en flutti með móður sinni og Eyrúnu systur til Hafnar í Hornafirði þegar hann var fimm ára. Ólst þar upp til 16 ára aldurs, þá flutti fjölskyldan til Reykjavíkur. Ingólfur Þór var í Nesjaskóla alla sína barnaskólagöngu.

Hann var tvö ár í Iðnskólanum í Reykjavík en lauk ekki námi þaðan. Flutti til London og bjó og vann þar næstu þrjú árin og bjó meðal annars þar með Oddi Rúnarssyni skólabróður sínum frá Eiðum.

Ingólfur vann ýmis störf, málaði hús með pabba sínum, en hann var lengst af á sjó á frystitogurum.

Tónlist og myndlist skipaði stóran sess í lífi hans alla tíð. Eftir hann liggur fjöldinn allur af lögum sem hafa verið gefin út: Hann og Vala Gestsdóttir voru hljómsveitin Indigó, Halldór Björnsson hljóðritaði og samdi með honum fjölda laga. Indigó tók þátt í Airwaves og hélt tónleika víða, meðal annars í New York. Hann spilaði líka með ýmsum öðrum tónlistarmönnum.

Útför hans fer fram í Kópavogskirkju í dag, 20. mars 2025, klukkan 13.

Útförinni verður streymt:

https://mbl.is/andlat

Elsku pabbi, nú er þinn tími kominn og komið að kveðjustund en þótt þú sért farinn þá veit ég að þú ert ekki langt í burtu og byrjaður að standa vaktina sem verndarengillinn okkar. Þrátt fyrir erfiðan tíma veit ég líka að þú ert frjáls og hefur fundið þinn frið. Ætli þú sitjir ekki á ströndinni, sólsetrið yfir sjónum, með sígarettupakka, pípuhattinn, gítarinn og bókina við hönd, þar sem það er þín griðastund.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól

lýsa upp sorgmætt hjarta.

Hjá þér ég finn frið og skjól.

Láttu svo ljósið þitt bjarta

vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál

svala líknarhönd

og slökk þú hjartans harmabál

slít sundur dauðans bönd.

Svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Við elskum þig.

Ylfa Rós og Ísak Leon.

Elsku Ingó.

Þegar Ingibjörg mamma þín og Svanur pabbi minn hittust og ákváðu að vera saman þá fékk ég að upplifa það að eiga systkini í ykkur Eyrúnu. Ingibjörg passaði alltaf upp á að ég væri hluti af fjölskyldunni þannig að ferðir og bras á Lambleiksstöðum urðu sannkölluð ævintýri fyrir mig. Síðar bættust svo Berglind og Hrönn í hópinn og gleðin yfir því að eignast þær varð ekki minni. Ég man eftir mjög svo eftirminnilegu poppævintýri fyrir kósíkvöld sem endaði næstum með því að það þyrfti að skipta um eldhúsinnréttingu.

Við vorum óþreytandi í leikjum okkar í sveitinni og ævintýrin leyndust víða. Svo liðu árin og ég fékk að fylgjast með þér í fjarlægð í pabba- og afahlutverkinu.

Elsku Ingó, ég þakka þér fyrir allar dýrmætu minningarnar og fyrir að hafa ávallt tekið mér sem hluta af fjölskyldunni.

Þitt ljósa hár og bjarta bros birtir yfir þegar ég hugsa til æsku okkar. Guð gefi ástvinum þínum styrk til að takast á við sorgina og söknuðinn.

Hvíl í friði.

Rakel.

Elsku sonur.

Hugurinn reikar til þess þegar þú varst barn með ljósu krullurnar þínar, alltaf blíður og góður. Náðir öllum á þitt band með brosinu þínu. Þú varst mikill dýravinur, þeir voru ófáir hundarnir sem þú komst með heim. Náttúrubarn af Guðs náð, næmur og viðkvæmur en alltaf með nóg að leika og stússa. Þú tókst þátt í mörgum íþróttum, varst í fótbolta, snóker og hafðir gaman af því að veiða. Áttir góða og kærleiksríka æsku, umvafinn fjölskyldunni og vinum í þínu hverfi, Nesjahverfi, sem var nafli alheimsins að mati ykkar systkina.

Fyrsta alvarlega áfallið í lífi Ingólfs var þegar besti vinur hans Jóhann Þór lést í bílslysi, það áfall markaði djúp spor í líf hans.

Þú varst sjálflærður í tónlist og varst alltaf að spila og semja lög, gafst út fjölda af lögum með Indigó og Halldóri Björnssyni. Ef það var ekki hljóðfæri þér við hlið þá varstu með teikniblokkina eða myndavélina. Þú varst búinn að undirbúa myndlistarsýningu sem þú ætlaðir að halda í september síðastliðnum, en myndirnar eru nú til fyrir okkur að njóta.

Það er óendanlega sárt að kveðja þig núna því við vonuðum alltaf að þér tækist að snúa af rangri leið og nýta hæfileikana sem þú fékkst í vöggugjöf. Fíknin er harður húsbóndi og tekur allt frá fólki, ömurlegur sjúkdómur. Ég er þakklát fyrir hvað við áttum gott samband þrátt fyrir krefjandi tíma og alls konar áskoranir sem við þurftum að yfirstíga.

En ég ætla að varðveita minningu þína sem brosmildi ljúfi strákurinn minn sem elskaði lífið og fólkið í kringum sig. Ingólfur Þór átti tvær dætur: Ylfu Rós, sem á litla afastrákinn Ísak Leon og fengu þau góðan tíma saman og eiga nú góðar minningar. Sérstaklega skemmtilegt var að horfa á tenginguna sem myndaðist milli Ísaks og afa hans. Ísaki fannst þessi skeggjaði karl skemmtilegur á góðum degi. Því miður var Ingólfur of veikur til að tengjast hinni dóttur sinni, Matthildi Nínu, í eigin persónu en fylgdist alltaf með henni.

Þegar við kveðjum þig í hinsta sinn kemur svo vel í ljós allt fólkið sem þótti vænt um þig: Vinir þínir sjá um tónlistina, vinir og frændur bera kistuna þína og æskuvinkonur úr Nesjahverfi, frænkur og vinafólk úr Miðtúninu sjá um veitingarnar. Þakka ykkur innilega fyrir og vinum sem stóðu við bakið á okkur Ingó við erfiðar aðstæður, þið vitið hver þið eruð.

Elsku Ingólfur minn, versta útkoman er orðin að veruleika. Ég á eftir að sakna þín mikið.

Hvíldu í friði, ég elska þig.

Þín

mamma.

Elsku Ingó bróðir.

Það er svo margt sem mig langar að segja, en á sama tíma er svo mikið tóm. Það er erfitt að finna orð til að lýsa því sem mig langar að segja. Hver er hin hinsta kveðja? Hvernig kveður maður bróður sinn? Mig langar að reyna og deila nokkrum orðum frá mínu hjarta til þíns.

Það sem kemur fyrst upp í hugann eru minningar frá því við vorum að alast upp fyrir austan. Það var gott að eiga þig sem bróður. Þú varst ótrúlega skemmtilegur og góður við mig litlu systur þína og alltaf að bralla eitthvað og skapa. Þú varst alltaf að finna upp á einhverju; nýjum leikjum, nýjum leiðum til að fara, búa til torfærubraut, byggja kassabíl eða dúfnakofa.

Þú byrjaðir svo snemma að skapa. Þú gast ekki gert neitt venjulegt. Þú þurftir alltaf að breyta forminu. Það átti eiginlega við um allt og það varð allt mjög lifandi og listrænt í höndunum á þér. Svo þegar þú byrjaðir í tónlistinni þá fékk þessi sköpunarkraftur virkilega að njóta sín. Það var yndislegt að sjá.

Það var eins með myndlistina. Það var eins og þetta flæddi í gegnum þig. Þú tjáðir þig svo mikið í gegnum bæði myndlistina og tónlistina. Það var alltaf hægt að sjá hvernig þér leið í verkunum þínum. Þú varst alltaf sannur sjálfum þér og þóttist aldrei vera neitt annað. Þannig snertirðu hjörtu svo margra í gegnum líf þitt.

Þó að síðustu ár hafi verið mjög erfið og fíknin tekið völdin í þínu lífi þá glitti alltaf í þig, húmorinn, skaparann. Ég er ótrúlega þakklát fyrir tímann okkar saman. Bæði þegar við vorum að alast upp og síðustu ár. Við vorum gott teymi, studdum hvort annað og stóðum saman. Takk fyrir að passa upp á mig og forða mér frá alls konar vitleysu á unglingsárunum. Takk fyrir að leyfa mér alltaf að fljóta með og kynna fyrir mér alls konar tónlist. Takk fyrir tímann okkar í London. Takk fyrir að sýna mér út fyrir kassann. Takk fyrir allar þínar gjafir elsku bróðir. Ég elska þig og mun sakna þín meira en orð fá lýst. Ég óska þess að þjáningu síðustu ára sé lokið og að þú sért á góðum stað og það verði vel tekið á móti þér. Minningin þín mun lifa áfram í hjörtum okkar allra og í fallegu dætrum þínum Ylfu og Möttu og í afastráknum þínum Ísak. Hann er eins og míníútgáfa af þér og það var svo fallegt að fylgjast með ykkur og þessari sterku sálartengingu sem þið höfðuð. Við munum passa upp á þau og hvert annað.

Megi ljós þitt skína skært.

Þín systir,

Eyrún.

Þú varst og verður ávallt minn eini bróðir. Ég á margar góðar minningar með þér, það varst þú sem málaðir flestar myndirnar sem héngu í Miðtúninu góða og komst heim með ný og ný hljóðfæri. Sem þú spilaðir svo á, svo tímum skipti. Ég vildi óska að ég hefði lært á hljóðfæri eins og þú, hefði verið enn betra ef þú hefðir náð að kenna mér. Þú varst listamaður út í eitt, allt frá myndlist yfir í tónlist. Það varst þú sem fékkst mig til að hafa áhuga á ljóðum. Jólin 1996 eða 1997 gafstu mér bókina Ég sakna þín, eftir Peter Pohl & Kinnu Gieth. Ég var 12-13 ára og þessi bók var lesin oftar en einu sinni. Sorgleg en falleg bók, því inn á milli eru ýmis ljóð. Þú skrifaðir skilaboð til mín á fremstu síðuna. Ég man ennþá eftir þessu og ég hef geymt þessa bók öll þessi ár. Mér finnst því við hæfi að kveðja þig með smá ljóði úr bókinni, með smá breytingu frá mér:

En minningin um þig

lifir í hjarta mínu.

Þar á hún sérstakan stað

og þar verður hún alltaf.

Dýpstu tilfinningarnar

leynast innst

meðal ósagðra orða.

Ég sakna þín og mun halda áfram að sakna þín.

Kveð þig með þínum eigin orðum sem þú skrifaðir til mín: Þykir vænt um þig.

Þín systir,

Berglind.

Mínar fyrstu minningar um Ingó eru frá Tjarnarbrú á Höfn. Elsku Gunna amma var alltaf með fullt hús af barnabörnum og það var mjög gaman hjá okkur. Við Ingó mönuðum hvort annað upp í alls konar vitleysu. Hann var svo bjartur, hæfileikaríkur og skemmtilegur. Hann bræddi mörg hjörtu og var mjög vinsæll.

Ég leit mikið upp til hans. Vá, hvað við brölluðum mikið saman í gegnum árin. Hann var mín stoð og stytta.

Síðast þegar við hittumst var Lucia dóttir mín tveggja ára. Hún starði á frænda sinn og sagði: Afi? Hann svaraði ljúflega: Já, elskan. Kallaðu mig bara afa.

Þú þurftir að slást við þína djöfla og ég vona svo innilega að þú hafir fundið ljósið. Ég mun sakna þín. Elska þig ávallt.

Þín frænka,

Sigríður Ragna
Kristjánsdóttir (Sigga).

Ég kynntist Ingó á Sirkus upp úr aldamótum. Barsena Reykjavíkur var þá samofin félagslífi okkar listamannanna í hundrað og einum. Ingó var þó frábrugðinn okkur hinum. Hann var líka hörkuduglegur sjómaður. Hann var öfgamaður og það þótti mér sérlega áhugavert. Hann var með þeim líflegri og skemmtilegur með eindæmum. Það fór ekki fram hjá neinum þegar Ingó var í landi. Hann hreif alla með sér hvert sem hann fór. Hann vann stíft og skemmti sér stíft. Það þótti mikil dyggð í þá daga.

Leiðir okkar í tónlistinni lágu svo saman upp úr 2008. Hann var frábær söngvari, gítarleikari og lagahöfundur. Ég átti stúdíó og það var óhjákvæmilegt að Ingó yrði þar tíður gestur því hann var drifinn áfram af sköpunargleðinni. Fyrr en varði vorum við farnir að semja tónlist saman.

Það byrjaði með því að hann fékk mig til að taka upp sólóplötuna sína en þegar skapandi fólk hittist víkur hversdagsleikinn fljótt fyrir óravíddum listagyðjunnar. Það er ávanabindandi. Melódíurnar flæddu upp úr Ingó, eða Indigo eins og hann kallaði sig. Hann virtist ótæmandi lind. Hæfileikar hans voru með eindæmum og silkimjúk rödd hans smaug inn í hvers manns hjarta. Við sömdum tugi laga saman og fjögur þeirra rötuðu til dæmis inn á sólóplötu Stebba Jak, eða JAK, við texta Magnúsar Þórs Sigmundssonar.

Við kláruðum aldrei sólóplötu Indigo því Dýonýsos náði fljótt undirtökunum, en hann hefur fylgt listagyðjunni fast á hæla frá örófi alda.

Þegar ég minnist Ingós þá minnist ég kærs vinar og stórkostlegs listamanns. Hann var einstaklega hjartahreinn og barngóður. Sonur minn gleymir honum til dæmis aldrei. Börnin skynja oft meira en okkar fullorðnu hörðnuðu hjörtu.

Það er mikill missir að svo góður maður hafi fallið frá langt fyrir aldur fram.

Þökk sé listagyðjunni fyrir það að minning hans mun lifa okkur öll.

Halldór Ágúst Björnsson.

Sköpunargleðin hefur löngum einkennt okkar íslensku þjóð. Í fásinni fyrri alda glöddust forfeður okkar jafnan yfir litlu. Megnuðu að þreyja þorrann og góuna, njótandi andartaksins, uppátækja og hugmynda náungans. Þannig gekk þetta fyrir sig allt frá dögum Snorra Sturlusonar að tímum húslestrarins í torfbæjunum, frá kviðlingum og söngli langspilsvæddra kvæðamanna að rafvæddum söngvaseiðum söngvaskálda síðari tíma.

Að ekki sé minnst á alla þá listrænu hagleiksmenn og drátthögu myndlistarmenn sem gáfu grámanum lit og juku landsmönnum trú á fegurð lífsins. Er þá fátt eitt nefnt af birtingarmyndum sköpunargleðinnar, sem var svo einkennandi í lífi og störfum Ingólfs Þórs Árnasonar, tónlistar- og myndlistarmanns, sem við kveðjum í dag hinstu kveðju.

Hann bar gæfu til að eignast yndisleg börn og barnabörn sem vísast munu halda minningu hans á lofti um langa framtíð. Tónlistin og myndlistin sem hann skóp mun þó að líkindum lifa okkur öll. Angurvær fegurð og ró í lögunum hans kallaðist á við kraftmiklar og dramatískar strokur hans á striganum, þar sem frumlitirnir voru í fyrirrúmi og spegluðu stóra persónu sem ekki kaus að feta hefðbundnar slóðir. Því fór fjarri.

Hann valdi sér vini, lífsstíl og skapalón. Hlífði ekki sjálfum sér. Hörkunagli og hamhleypa til verka, ekki síst til sjós.

Hefðbundinn „sjóbisniss“ hæfði honum þó alls ekki.

Í landi kaus hann að rækta samband sitt við listagyðjuna undir radarnum.

Ingólfur var ekki framur maður en vinmargur vel og átti fjölda aðdáenda.

Undir stjórn Daníels Ágústs Haraldssonar hljóðritaði hann afar fagra tónlist úr eigin smiðju. Vala Gestsdóttir var honum og dýrmætur liðsmaður í tónlistinni, Halldór Ágúst Björnsson sömuleiðis og fjölmargir aðrir sem nú syrgja genginn hæfileikamann og eftirminnilegan vin, gæddan miklum persónutöfrum.

Móðurástin er að líkindum æðsta stig kærleikans. Ingólfur naut til hinsta dags einstaks ástríkis, hvatningar og atfylgis móður sinnar, Signýjar Ingibjargar Hjartardóttur. Lánsamir eru þeir sem eiga svo dýrmætt bakland í lífinu.

Börnum Ingólfs, barnabörnum, foreldrum, fjölskyldu og vinum votta ég innilega samúð um leið og ég þakka fyrir að hafa fengið að kynnast merkismanninum Ingólfi Þór Árnasyni, sem ég sannlega mat afar mikils.

Blessuð veri minning hans alla tíð.

Jakob Frímann Magnússon.

Ingólfur Þór hefur kvatt þessa jarðvist fyrir aldur fram.

Leiðir okkar lágu saman á unglingsárum og tókst með okkur kær vinskapur sem varði í tugi ára. Ingó var yndislegur í alla staði.

Honum var umhugað um aðra og hann gaf af sér mikla ást, kærleika og umhyggju sem snerti þá sem honum kynntust. Þó að hann sjálfur byggi oft í skugga lífsins, þá gat hann verið ljós fyrir aðra. Það virtist sem þessi skuggi hafi valið hann, frekar en hann skuggann.

Í dag kveð ég þig, kæri vinur, með ást og þakklæti. Ég varðveiti minningarnar um þig – þann hlýja, fallega, listræna, sposka og góða mann sem þú varst. Ef það er næsta líf vona ég að leiðir okkar liggi saman á ný vinur.

Ég votta allri fjölskyldu og vinum Ingólfs Þórs mína dýpstu samúð. Megi minning hans lifa og hvíldin umvefja hann friði.

Ást, kærleikur og friður til þín, elsku hjartans Ingó minn.

Hugur einn það veit,

er býr hjarta nær,

einn er hann sér of sefa.

Glaður og reifur

skyli gumna hver,

uns sinn bíður bana.

(Úr Hávamálum)

Þín

Guðrún Elsa.

Það voru þungar fréttir að heyra að þú værir búinn að kveðja okkur, elsku vinur.

Ég vil byrja á að senda Ylfu, Matthildi og fjölskyldunni þinni mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Við eigum langa sögu saman, allt frá því að við vorum ungir strákar á Hornafirði. Leiðir okkar hafa í gegnum tíðina legið saman og í sundur, en alltaf var vináttan jafn sterk. Tvisvar bjuggum við saman, og þær stundir eru mér dýrmætar minningar.

Að búa með þér var bæði lærdómsríkt og skemmtilegt. Heimilið okkar var aldrei venjulegt – það var fullt af lífi, hlátri og stundum ansi mikilli óreiðu, en einhvern veginn var það alltaf heimilislegt. Þú varst maður sem kunni að njóta augnabliksins, og ég man eftir mörgum kvöldum þar sem við sátum og spjölluðum fram á nótt um lífið, listina og heiminn. Þú gast rætt um allt á heiðarlegan og hispurslausan hátt, og ég lærði mikið af þér.

Þú kenndir mér að lífið er ekki bara excel-skjal – það er ekki alltaf hægt að skipuleggja allt og setja það í töflur. Þú lifðir eftir þinni eigin reglu, og það var einmitt það sem gerði þig einstakan. Heimilið okkar var oft eins og listaverk í sjálfu sér, þar sem hugmyndir þínar og sköpunargáfa fengu að blómstra. Það var aldrei lognmolla í kringum þig, alltaf eitthvað nýtt í gangi, alltaf einhverjar hugmyndir að fæðast.

Það var þó ekki alltaf auðvelt fyrir þig að fóta þig í þessum heimi, sem oft vill setja fólk í ramma sem þér fannst ekki passa við þig. En þegar þú varst á sjónum, þegar þú stundaðir togarasjómennskuna, þá fannst mér þú vera á þínum stað. Þar áttuðu sig allir á því hversu traustur, vinnusamur og góður maður þú varst, og þú hafðir mjög góðan orðstír þar.

Ég veit að það er beðið eftir þér í sumarlandinu. Vonandi munt þú finna ró þar og nægan tíma til að sinna listinni þinni.

Minning þín mun lifa áfram í gegnum dætur þínar, listina og tónlistina og ekki minnst í hjörtum okkar sem þú snertir.

Þangað til við hittumst næst.

Þinn vinur,

Sveinn Gunnar
(Svenni).