Sjúkraflutningar Aðgerðir gætu byrjað 7. apríl verði þær samþykktar.
Sjúkraflutningar Aðgerðir gætu byrjað 7. apríl verði þær samþykktar. — Morgunblaðið/Eggert
Kjararáð Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) ákvað í fyrradag að farið yrði í atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir sjúkraflutningamanna. Kynna átti aðgerðirnar fyrir félagsmönnum í gærkvöldi og var stefnt á að atkvæðagreiðslu…

Egill Aaron Ægisson

Ómar Friðriksson

Kjararáð Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) ákvað í fyrradag að farið yrði í atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir sjúkraflutningamanna. Kynna átti aðgerðirnar fyrir félagsmönnum í gærkvöldi og var stefnt á að atkvæðagreiðslu lyki fyrir hádegi á föstudag samkvæmt upplýsingum Bjarna Ingimarssonar formanns LSS.

Verði þær samþykktar munu verkfallsaðgerðir hefjast 7. apríl. Viðræður hafa strandað á milli sambandsins og samninganefndar ríkisins en hins vegar eru viðræður komnar í gang á milli LSS og sveitarfélaganna.

17 mál hjá ríkissáttasemjara

Alls voru 17 óleystar kjaradeilur á borði ríkissáttasemjara í byrjun þessarar viku. Í fyrrakvöld fækkaði þeim þó um eina þegar samningar náðust á tólfta tímanum á milli Félags íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum (FÍL) og Leikfélags Reykjavíkur (LR) um nýjan kjarasamning við leikara og dansara Borgarleikhússins. Var boðuðu verkfalli dansara og leikara aflýst.

Síðastliðinn þriðjudag kom í ljós að starfsmenn hjá Elkem Íslands felldu kjarasamning sem undirritaður var fyrr í þessum mánuði og er deilan því aftur komin inn á borð ríkissáttasemjara til úrlausnar.

Meðal annarra vísaðra mála sem eru í vinnslu hjá ríkissáttasemjara eru viðræður Sjómannafélags Íslands og samninganefndar ríkisins, Félags skipstjórnarmanna og SNR vegna Landhelgisgæslunnar, Lyfjafræðingafélags Íslands og SA og viðræður Flugvirkjafélags Íslands og SNR.

Höf.: Egill Aaron Ægisson