Bækur
Einar Falur
Ingólfsson
Það er merkilegt hvernig erlendar bókmenntir, sem lengi hafa verið aðgengilegar á frummáli, verða hluti af samtímabókmenntum í nýju landi fyrir tilstilli þýðinga. Vissulega þekkist það að gömul handrit finnist í gögnum látinna höfunda og séu gefin út í heimalandi þeirra að þeim látnum, svo eftirtekt veki, en það er ekki mjög algengt. Hins vegar gerist það oft að þýðendur og forlög kjósi að snara og gefa út bækur sem hafa fyrir löngu talist nýjar á frummálinu og lifa þar sem klassískar bókmenntir. En verða, ef þær ná flugi á nýju tungumáli, þá að samtímabókmenntum; verkum sem kunna að koma á óvart fyrir ýmissa hluta sakir, hrífa og jafnvel ögra. Og verða að kveikjum í sköpunarverkum annarra.
Það vakti þannig athygli þegar ritstjórn bókablaðs The New York Times valdi enska þýðingu svokallaðs Kaupmannahafnar-þríleiks danska rithöfundarins Tove Ditlevsen (1917-1976) sem eina af hundrað bestum bókum sem komið höfðu út á ensku á fyrsta fjórðungi aldarinnar. Og það þótt bækurnar þrjár væru í raun orðnar meira en hálfrar aldar gamlar, og næstum svo langur tími liðinn frá láti höfundarins. Fyrri tvær bækurnar, Barndom og Ungdom, sem báðar komu fyrst út 1967, höfðu reyndar verið þýddar á ensku fyrir löngu, en lokahlutinn, Gift (1971), var ný þýðing sem var steypt saman við hinar tvær undir heitinu Kaupmannahafnar-þríleikurinn, og sló í gegn. Og þessar áhrifaríku endurminningabækur Ditlevsens, sem eru fyrir löngu orðnar klassískar í dönskum bókmenntum og lesnar þar af hverri kynslóðinni á fætur annarri, eru nú loksins orðnar að samtímabókmenntum í hinum enskumælandi heimi.
Útgáfusaga minninga Ditlevsens á íslensku er ekkert svo frábrugðin þeirri á ensku. Gift kom út í íslenskri þýðingu Helga J. Halldórssonar hjá Iðunni árið 1971, þegar bókin var splunkuný á frummálinu, en hinar fyrri voru ekki þýddar þá. Gift mun hafa verið lesin í einhverjum menntaskólum og margir íslenskir lesendur þekkja til annarra skáldverka, ljóða og sagna höfundarins. En Gift kom síðan út í nýrri þýðingu Þórdísar Gísladóttur hjá Benedikt bókaútgáfu árið 2022, og vakti verðskuldaða athygli. Í kjölfarið þýddi Þórdís fyrsta hlutann, Bernsku, og loks kom þessi miðhluti þríleiksins út, Æska – og allar hafa undirtitilinn „Minningar“.
Formið sem Ditlevsen valdi minningum sínum má kalla margreynt og fyrirmyndirnar traustar. Þekktustu slíku þríleikirnir líklega þeir sem voru skrifaðir af tveimur rússneskum jöfrum. Fyrir rúmum áratug gaf Ugla út þann eldri, rómaðan minningabálk Leos Tolstoj (1928-1910), Bernsku, Æsku og Manndómsár, í þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur. Og það var miklu meira en heilli öld eftir að bækurnar komu fyrst út, sem var á árunum 1852-1856. Það er athyglisvert við minningar Tolstojs að hann skrifar þær mjög ungur, enn á þrítugsaldri, en þær ná allt að því goðsagnakenndum hæðum í fyrri bindunum tveimur. Hinn rússneski höfundurinn var Maksím Gorkíj (1868-1936) en minningar hans komu út á rússnesku á árunum 1913-1923. Í íslenskri þýðingu þeirra Kjartans Ólafssonar og Guðmundar Sigurðssonar komu Barnæska mín, Hjá vandalausum og Háskólar mínir út á árunum 1947 til 1951. Líklegt má telja að það séu þau verka Gorkíjs sem best lifa, enda hrífandi frásagnir, ekki síst fyrsta bindið. Gegnum árin hefur mikið og víða verið skrifað um minningar rússnesku jöfranna og lesendur áttað sig sífellt betur á því að betur fari á því að kalla þær skáldævisögur en „ómengaðar“ eða óritstýrðar minningar; það er í eðli mannsins og hugarins að móta sína sögu, að sía, aðgreina, þegja yfir eða upphefja, eins og hæfir.
Þríleikur Tove Ditlevsen kallast með athyglisverðum hætti á við fyrrnefnd verk rússneskra skáldbræðra hennar og er hrífandi þroskasaga; einlæg, hrá, afhjúpandi og fallega skrifuð, í stíl sem kalla má heiðarlega einfaldan. Og Þórdís þýðir látlausan en þó meitlaðan stílinn listavel, eins og sjá má af stikkprufum úr frummálinu. Í fyrsta hluta þríleiksins sagði af nöturlegri bernsku á fátæku æskuheimilinu á Vesturbrú í Kaupmannahöfn, hjá tilfinningaheftri móður og föður sem nýtur þess að lesa, en úr þeim harðneskjulega og bælda jarðvegi spratt Tove upp, sótti í bækur og fór að skrifa ljóð, sem þótti vitaskuld afar sérkennilegt. Þessi síðasta þýðing af þríleiknum, miðhlutinn Æska, fjallar um unglingsár höfundarins. Ekki fékk hún að láta þann draum rætast að fara í menntaskóla heldur varð að fara að vinna til að styðja við heimilið, þar sem faðirinn tolldi stutt í hverri vinnu og móðirin heimavinnandi; bróðirinn notaði fyrsta tækifæri til að stinga af og kvænast. Hér segir af fyrstu ævintýrum Tove á vinnumarkaði, þar sem hún staldrar stutt við á hverjum stað. Vinkonur og ungir menn koma við sögu; móðirin þrýstir á hana að gifta sig sem fyrst, og á kvöldin eru kossar og fyrsta kynlífsreynslan, og lífið heima fyrir vægast sagt þrúgandi. Og undir harkinu lifir draumurinn um skáldskap. Í einni vinnunni uppgötvar fólk að unglingurinn getur sett saman tækifærisvísur og texta við söngva og hún fær nóg að gera við slíkt, og öðlast skyndilega tilgang, eins og sjá má þegar samstarfsmaður spyr hvaðan hún hafi þann hæfileika og hryssingsleg samstarfskona útskýrir það:
„Þetta er meðfætt, svarar fröken Løngren, svona lagað fær fólk í vöggugjöf. Ég átti frænda sem gat líka ort svona. En það tók á hann. Það var líkt og allur kraftur væri úr honum þegar hann lauk við að semja kvæði. Þetta er svipað og að vera miðill, þeir eru líka alveg búnir eftir miðilsfundi. Eruð þér ekki þreyttar, fröken Ditlevsen? Nei, ég er ekkert þreytt og alls ekki orkulaus en ég myndi gjarnan vilja hafa einhvern stað þar sem ég gæti æft mig að skrifa alvöruljóð. Mið langar að eiga herbergi með fjórum veggjum og lokuðum dyrum. Herbergi með rúmi, borði og stól, með ritvél eða blokk og blýanti, engu öðru. Jú og dyrum sem ég gæti læst. Allt þetta get ég ekki fengið fyrr en ég er orðin átján ára og get flutt að heiman“ (66).
Hér má sjá stílbragð sem einkennir frásögnina, hvernig sagt er frá í belg og biðu, engin greinaskil nema á kaflamótum. Textinn flæðir, ein hugsun eða samtal tekur sífellt við af öðru, án hiks eða rofs, og mikil kúnst að láta það ganga upp, sem svo sannarlega tekst listavel. Myndin af hinni viðkvæmu en þó metnaðarfullu Tove skilar sér afar vel, og hvernig erfitt umhverfið ögrar henni og hótar að brjóta niður: „Það er erfitt að halda sjálfri sér heilli ef umhverfið er breytingum undirorpið,“ segir hún á einum stað (70). Persónusköpunin er afar áhrifarík, og meira að segja minnstu aukaleikarar eru dregnir sterkum dráttum, hvort sem það er frænka sem er flutt í rúmið til móðurinnar að deyja eða fyrsti leigusali Tove sem dýrkar Hitler og hlustar á hann í beinni útsendingu á kvöldin. En þrátt fyrir að samfélagið og umhverfið vilji skorða ungu konuna af í þröngum bás hefðbundins kynhlutverks konu af hennar stétt, þá dreymir hana um að koma ljóðum sínum á framfæri og tekst að kynnast eldri mönnum sem virða hana fyrir það hver hún er og styðja hana í að þroska sína rödd og fá verkin gefin út.
Í lokahluta þríleiksins, Gift, sem er líklega þekktastur, þá taka fullorðinsárin við, með skrifum, neyslu, ástarsamböndum og alls kyns árekstrum í lífinu. Tove Ditlevsen lést aðeins 58 ára gömul og hafði ekki farið vel með sig. En hún var frábær höfundur, eins og þessar minningabækur sýna svo vel. Bækur sem er fengur að í íslensku bókmenntalífi, þótt þær hafi upphaflega komið út fyrir meira en hálfri öld. Þannig lifa klassísk listaverk.