Halla Tómasdóttir
Halla Tómasdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Halla Tómasdóttir forseti Íslands hefur þegið boð um ríkisheimsóknir til Noregs og Svíþjóðar í vor. Markmið beggja heimsókna er að styrkja enn frekar söguleg tengsl þjóðanna og vinna að sameiginlegum hagsmunum, segir í tilkynningu frá embætti forseta

Halla Tómasdóttir forseti Íslands hefur þegið boð um ríkisheimsóknir til Noregs og Svíþjóðar í vor. Markmið beggja heimsókna er að styrkja enn frekar söguleg tengsl þjóðanna og vinna að sameiginlegum hagsmunum, segir í tilkynningu frá embætti forseta. Með í för verða Björn Skúlason forsetamaki, opinber sendinefnd og sérstök viðskiptasendinefnd.

Hefð er fyrir því að norrænir þjóðhöfðingjar fari sínar fyrstu ríkisheimsóknir eftir embættistöku milli Norðurlanda enda náið samstarf meðal þjóðanna.

Ósló og Þrándheimur

Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning bjóða forsetahjónum til heimsóknar dagana 8. til 10. apríl og verður farið bæði til Óslóar og til Þrándheims, en Hákon krónprins fylgir forsetahjónum þangað.

Í Noregi verður horft til sameiginlegrar menningarsögu þjóðanna með áherslu á bókmenntir. Auk þess verða skoðuð tækifæri til aukins samstarfs bæði í græna hagkerfinu og bláa hagkerfinu, þ.e. á sviði orkumála og sjávarútvegs. Öryggis- og varnarmál verða til umræðu en einnig verður lögð áhersla á leiðir til að stuðla að bættri andlegri heilsu í samfélaginu.

Stokkhólmur

Karl XVI. Gústaf Svíakonungur og Silvía drottning bjóða forsetahjónum til Stokkhólms dagana 6.-8. maí. Í heimsókninni verða meðal annars skoðuð tækifæri til frekara samstarfs á sviði líftækni og heilbrigðisþjónustu.

Þá verður litið til þess að dýpka samskipti Íslands og Svíþjóðar á sviði skapandi greina með áherslu á sjónvarps- og kvikmyndagerð.

Öryggis- og varnarmál verða einnig til umræðu, einkum með hliðsjón af nýlegri aðild Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu og viðnámsþoli þjóðanna andspænis fjölþáttaógnum.