Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
Tíu vindorkuverkefni hafa verið til skoðunar hjá verkefnisstjórn 5. áfanga rammaáætlunar og hafa faghópar þegar lagt fram sín gögn. Þegar hafa tvö vindorkuverkefni verið samþykkt í nýtingarflokk í samþykktri rammaáætlun, Búrfellslundur og Blöndulundur, tíu eru í umsagnarferli og 27 önnur bíða mats.
Verkefnastjórn hefur lagt til að stjórnvöld ljúki stefnumótunarvinnu um virkjun vindorku í landinu, sem hófst árið 2022.
Hér verður farið yfir þá tíu virkjunarkosti sem eru núna í skoðun.
Alviðra
Hér er virkjunarkosturinn innan jarðanna Hafþórsstaða og Sigmundarstaða í Borgarbyggð og gert ráð fyrir 10-14 vindmyllum með heildarafl upp á 98 MW. Svæðið sem áætlað er fyrir þennan kost er 2,3 ferkílómetrar og talið að 0,5 km2 svæði raskist vegna framkvæmda. Félagið Hrjónur ehf. óskar eftir matinu.
Hrútavirkjun
Virkjunarkosturinn er innan jarðar Kjörseyrar í Húnaþingi vestra og gert ráð fyrir 12-15 vindmyllum með heildarafl um 75 MW. Landsvæðið er 6,57 km2. Félagið Zephyr Iceland ehf. óskar eftir matinu.
Garpsdalur
Hér er virkjunarkosturinn á Garpsdalsfjalli við Gilsfjörð í
Reykhólahreppi og er áætluð 21 vindmylla af 4,2 MW getu með heildarafl upp á 88 MW. Landsvæðið í heild er 3,67 km2 og er talið að 0,12 km2 svæði muni raskast vegna framkvæmda. Félagið EM Orka ehf. óskar eftir matinu.
Hnotasteinn
Virkjunarkosturinn er í Norðurþingi og gert ráð fyrir 30 vindmyllum með heildarafl 220 MW. Landsvæðið er 33,3 km2. Félagið Qair Iceland ehf. óskar eftir mati.
Mosfellsheiðarvirkjun I og II
Mosfellsheiðarvirkjun I er hugsuð á Mosfellsheiði í Grímsnes- og Grafningshreppi og gert ráð fyrir 12-15 vindmyllum með heildarafl um 75 MW. Landsvæðið er 5,45 km2. Mosfellsheiðarvirkjun II er á Mosfellsheiði í Ölfusi og gert ráð fyrir 12-15 vindmyllum með heildarafl um 75 MW. Landsvæðið er 7,61 ferkílómetri. Fjöldi vindmylla er háður frekari rannsóknum á báðum stöðum. Félagið Zephyr Iceland ehf. óskar eftir matinu.
Hrútmúlavirkjun
Virkjunarkosturinn er í Skáldabúðum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og hugmyndin að setja upp allt að 22 vindmyllur með heildarafl allt að 158 MW, en frekari rannsókna er þörf áður en fjöldi verður ákveðinn. Landsvæðið er 10-14 km2 og er áætlað að 0,3 km2 svæði muni raskast vegna framkvæmda. Félagið wpd Ísland ehf. óskar eftir matinu.
Reykjanesgarður
Rannsóknarsvæðin á Reykjanesi eru tvö, samtals 30 ferkílómetrar, en aðeins var hægt að meta annað svæðið. HS Orka óskar eftir matinu og áætlað heildarafl er 100 MW fyrir bæði svæðin.
Sólheimar
Virkjunarkosturinn er í Laxárdal í Dalabyggð og gert ráð fyrir 29 vindmyllum með heildarafl 209 MW, unnið í tveimur áföngum, fyrst 21 vindmylla með 151 MW getu og síðar 8 vindmyllur með 58 MW aflgetu á 32 km2 svæði. Félagið Qair Iceland ehf. óskar eftir matinu.
Vindheimavirkjun
Virkjunarkosturinn er í austanverðum Hörgárdal í Hörgársveit og gert ráð fyrir 8-12 vindmyllum með heildarafl um 30-40 MW, þó er fjöldi háður frekari rannsóknum. Landsvæðið er 8 km2 og er talið að 0,2 km2 svæði raskist vegna framkvæmda. Félagið Fallorka ehf. óskar eftir matinu.
Samráðsgátt stjórnvalda
Almenningur getur sent inn umsagnir í seinna umsagnarferli sem hófst 30. janúar sl. og stendur fram að miðnætti 24. apríl nk. í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Island.is. Í fyrra umsagnarferli frá því í desember 2024 til janúar 2025 bárust 117 umsagnir við drögin að flokkun tíu vindorkukostanna.
Í umsögnum almennings frá fyrra umsagnarferli kemur m.a. fram nokkur andstaða við vindorkuuppbyggingu og er þá helst talað um lýti í landslagi, neikvæð áhrif á fuglalíf og hávaðamengun og áhrif á flugumferð. Þá er einnig nefnt að aukin kynning þurfi að fara fram í nærumhverfi virkjunarkosta.