Fréttaflutningur af sjógangi var áberandi á dögunum og gekk mikið á. Tveir menn lentu í sjónum á Akranesi og víða varð eignatjón eins og fram hefur komið. Mesta sjávarflóð sem vitað er um við Íslandsstrendur mun vera Básendaflóðið svokallaða árið 1799

Baksvið

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Fréttaflutningur af sjógangi var áberandi á dögunum og gekk mikið á. Tveir menn lentu í sjónum á Akranesi og víða varð eignatjón eins og fram hefur komið. Mesta sjávarflóð sem vitað er um við Íslandsstrendur mun vera Básendaflóðið svokallaða árið 1799. Samkvæmt lýsingum urðu þá geysilega hamfarir.

Lægðirnar í janúar þekkjum við Íslendingar vel. Afar djúp og kröpp lægð gekk yfir landið og olli ofviðri á suður- og vesturhluta landsins aðfaranótt 9. janúar 1799. Loftþrýstingur var óvenju lágur og stórstreymt. Hækkaði sjávarstaða við landið fyrir áhrif þessara þátta. Mikil eyðilegging varð bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri. Tugir manna flúðu heimili sín, skepnur drápust, 27 bátar brotnuðu og tjón varð á meira en fimmtíu býlum. Heimildir eru til um skemmdir og eyðileggingu býsna víða. Hús fuku á Snæfellsnesi, í Dalasýslu, á Suðurnesjum og á Seltjarnarnesi svo eitthvað sé nefnt og þar af tvær kirkjur.

Hér er Básendaflóðið sérstaklega til upprifjunar en kaupstaðurinn á Básendum var sunnarlega á vestanverðu Miðnesi en á Reykjanesi varð mikið tjón. Þar varð einnig eina banaslysið í óveðrinu þegar Rannveig Þorgeirsdóttir drukknaði. Hún var 79 ára gömul og hafði ekki líkamlega burði til að bjarga sér úr þessum hrikalegu aðstæðum.

Áhrifamikil frásögn

Fróðleik er að finna í grein Lýðs Björnssonar sem aðgengileg er á netinu. Þar birtir hann lýsingu Hinriks Hansens á atburðunum á Básendum þessa nótt, úr bréfi sem Hinrik ritaði Sigurði Péturssyni sýslumanni. Hinrik var danskur og skrifaði á dönsku en talið er líklegast að Vigfús Guðmundsson hafi þýtt.

„Eptir að við öll (eg, kona, 4 börn og vinnukona) vorum háttuð, varð eg þess var um nóttina (á að gizka kl. 2) hversu veðrið af suðri til vesturs magnaðist, svo iðulega fór að braka í húsunum. Þar að auki fóru að heyrast skellir, hver aptir annan, eins og veggbrjótur væri að vinnu á hlið hússins og undirstöðu. Af þessu fór eg á fætur, til þess að líta eptir veðrinu og vita, hvað gengi á úti. Þrátt fyrir svart myrkrið lauk eg upp húsdyrum eldhúsmeginn, og þá þegar brauzt sjórinn inn á mig, með svo miklu afli og straum, að fyllti herbergin á lítilli stundu. Flúðum við þá í skyndi upp á húsloptið, hálfnakin upp úr rúmunum, því við óttuðumst, að við mundum farast í sjónum niðri, þar sem íbúðin var. Og í myrkrinu þorðum við ekki út úr húsinu, bæði vegna æðandi brimaldanna og rjúkandi ofviðris; svo vissum við líka að allt umhverfis húsin var hulið sjó. Og megum víst þakka guði, að við gripum þá ekki það óyndis úrræði, því þá hefðum við öll farizt,“ skrifar Hinrik en þeim lengur stætt á að halda þar til.

„Ofviðrishrinurnar og brimið lamdi sífellt á húsinu, svo það var nú farið að brotna, mótstöðuafl þess rýrnaði og sjórinn streymdi út og inn. Hér um bil kl. 7 (að við héldum) treystumst við ekki lengur að geta bjargað lífinu þarna á loptinu. Braut eg því gluggann á norðurhliðinni. Þar smugum við öll út, eins og við stóðum (hálfnakin). Eg vóð með yngsta barnið á handleggnum, þar sem sjórinn flæddi yfir og skolaði með sér borðum, plönkum, fjármunum og búshlutum. Náðum þó fjósinu með mestu erfiðismunum og lífshættu. Fjósið stendur svolítið hærra og fjær sjónum en íbúðarhúsið. En tæplega höfðum við dvalið þar fjórðung stundar, þegar mæniásinn brast í fjósinu. Við urðum því að flýja þaðan aptur, og til hlöðunnar. Annar gaflinn var brotinn af henni, en í staðinn var þar kominn hlaði af trjáviðardóti, er við urðum að skríða yfir, með mikilli hættu, til að komast inn. Þarna stóðum við skjálfandi nokkurn tíma, unz veðrið fór með nokkuð af þakinu, en hinn hlutinn blaktaði fram og aptur, eins og blaðsnepill.“

Misstu allar eigur

Fólkinu tókst við illan leik að bjarga sér undan veðrinu og leita hjálpar. „Til þess enn að reyna að bjarga lífinu, gerðum við síðustu tilraun, yfirgáfum eyðilagða kaupstaðinn, leiddumst öll saman og héldum 3 áleiðis til bygða. Vóðum svo og skriðum í rokinu, unz við eptir miklar þrautir náðum að næstu hjáleigu, er nefnist Lodda (Loðvíksstofa), rétt hjá Stafnesi. Fátæki bóndinn þar, Jón Björnsson og kona hans, tóku á móti okkur – sem vorum nærri örmagna af kulda, áreynslu og hugsýki – með mestu alúð og hjartagæzku.“

Hinrik var kaupmaður en Básendar höfðu verið verslunarstaður í meira en þrjár aldir. Umsvif Hinriks voru mikil en hann og eiginkonan Sigríður Sigurðardóttir virðast hafa tapað svo gott sem öllum sínum veraldlegu eigum í óveðrinu og stóðu eftir í skuld við konung. Húsin voru ýmist gjörónýt eða stórskemmd sem og bátarnir samkvæmt lýsingum. Ekki var byggt aftur á staðnum.

Höf.: Kristján Jónsson