„Ég er með fiðring fyrir stóran fótboltaleik. Þetta er keppnisleikur og mitt fyrsta verkefni,“ sagði Arnar Gunnlaugsson þjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu á fréttamannafundi skömmu eftir að liðið kom til Pristínu í Kósóvó síðdegis í gær.
„Ég er ánægður með dagana sem við höfum átt saman á Spáni. Við erum búnir að funda og æfa vel, og erum að fikra okkur áfram. Við erum að hefja nýja vegferð en viljjum líka halda í það sem var vel gert áður. Þetta mun taka einhvern tíma en við þurfum úrslit í báðum leikjunum. Kósóvómenn eru með góða leikmenn sem kunna fótbolta og geta refsað okkur,“ sagði Arnar.
Valgeir Lunddal Friðriksson mun ekki taka þátt í leiknum í kvöld, að sögn Arnars, og áður lá fyrir að Mikael Anderson myndi missa af báðum leikjunum vegna meiðsla. Arnar kvaðst ekki eiga von á að bæta manni í hópinn fyrir leikinn í kvöld. johanningi@mbl.is