Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Stórt olíuskip, Navig8 MacAllister, sigldi inn Hvalfjörðinn á mánudagskvöldið og lagðist að bryggju við olíubirgðastöðina innst í firðinum, skammt frá hvalstöðinni.
Gísli Jóhann Hallsson yfirhafnsögumaður Faxaflóahafna lóðsaði skipið inn fjörðinn og dráttarbátarnir Magni og Haki fylgdu skipinu enda mikilvægt að ekkert færi úrskeiðis á siglingunni. Farmurinn var verðmætur og hætta gat skapast ef eitthvað færi úrskeiðis.
Olíuskipið Navig8 MacAllister er 35.120 brúttótonn, smíðað 2012 og skráð í Líberíu. Samkvæmt upplýsingum sem finna má á netinu lagði skipið úr höfn á Indlandi 7. febrúar sl.
Skipið var með nær fullfermi af íblöndunarefni í eldsneyti, á annað hundrað milljón lítra. Farminum er dælt í geyma stöðvarinnar þar sem eldsneytið er geymt til seinni tíma nota. Samkvæmt áætlun á skipið að láta úr höfn í dag, fimmtudag.
Bretar hernámu landið 10. maí árið 1940 og sendu hingað fjölmennt setulið. Bandaríkjamenn hófu að leysa þá af hólmi í júlí 1941. Hvalfjörðurinn þótti afar gott skipalægi fyrir herskip og voru reist þar mikil hernaðarmannvirki.
Bandaríkjamenn reistu eldsneytisbirgðastöð í landi Miðsands og Litlasands við Hvalfjörð norðanverðan auk birgðastöðvar vegna skipaviðgerða. Íslenska ríkið eignaðist þessar stöðvar en seldi aftur. Kaupandi var Olíudreifing ehf.
Olíubirgðastöðin í Hvalfirði er sett saman af níu geymum, jafnstórum, sem eru 14 metra háir. Þeir geta tekið við um 110 milljónum lítra. Hægt er að taka við allt að 50 þúsund brúttótonna skipum við bryggju í Hvalfirði.
Á undanförnum árum hefur olíustöðin verið notuð til að geyma olíubirgðir, t.d. í tengslum við spákaupmennsku.
Vorið 2020 var óvenjulegt ástand á olíumörkuðum heimsins vegna kórónuveirufaraldursins. Stórlega dró úr eftirspurn eftir olíu, verðið féll og olíubirgðir söfnuðust fyrir. Skyndilega varð mikil eftirspurn eftir geymslurými fyrir olíu um allan heim. Um þetta leyti komu nokkur stór olíuskip í Hvalfjörðinn með olíu til geymslu.
Síðast kom stórt olíuskip til Hvalfjarðar í ágúst 2021 og sótti olíufarm sem þar hafði verið geymdur.