Ármót Stórt og glæsilegt hrossabú í Rangárþingi ytra, rétt sunnan við Þverá. Tindfjöllin og hinn svipmikli Eyjafjallajökull eru hér í bakgrunni.
Ármót Stórt og glæsilegt hrossabú í Rangárþingi ytra, rétt sunnan við Þverá. Tindfjöllin og hinn svipmikli Eyjafjallajökull eru hér í bakgrunni. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Austur í Rangárþingi hefur verið fjárfest fyrir milljarða króna á undanförnum árum við jarðakaup og uppbyggingu hrossabúgarða, reiðhalla, tamningastöðva og annars slíks. Sterk hefð frá gamalli tíð er fyrir hestamennsku í héraðinu, sem nú er orðin þar mikilvæg atvinnugrein

Baksvið

Óskar Bergsson

Sigurður Bogi Sævarsson

Austur í Rangárþingi hefur verið fjárfest fyrir milljarða króna á undanförnum árum við jarðakaup og uppbyggingu hrossabúgarða, reiðhalla, tamningastöðva og annars slíks. Sterk hefð frá gamalli tíð er fyrir hestamennsku í héraðinu, sem nú er orðin þar mikilvæg atvinnugrein. Hefðbundinn landbúnaður, svo sem mjólkurframleiðsla, er áfram víða stundaður á svæðinu en allt sem hrossunum viðvíkur er mjög vaxandi. Margar jarðir hafa verið seldar, í heild eða að hluta, fyrir hrossabúskap og slíkt hefur hækkað verð samkvæmt alþekktum lögmálum. Svo leiðir eitt af öðru.

Rýmkað regluverk kom málum á hreyfingu

Regluverk um jarðasölu varð rýmkað nærri aldamótum og segja má að það hafi komið málum á hreyfingu. Á síðustu tuttugu árum eða svo hefur fjöldi jarða þarna í sveitunum skipt um eigendur, sem þá láta til sín taka. Farið hefur verið í uppbyggingu, stundum með atfylgi fjárfesta í öðrum atvinnugreinum, sem stundum eru sjálfir í stafni. Þetta hefur meðan á framkvæmdum stendur skapað mikla vinnu fyrir iðnaðarmenn og verktaka í héraði.

Nýjar byggingar hafa víða verið reistar en stundum er gömlum útihúsum, til dæmis fjósum, breytt til annarra nota en var. Því fylgir svo að við bæina er komið upp reiðvöllum, skeiðbrautum og slíku. Stundum eru líka byggð íbúðarhús og jafnvel gistiaðstaða. Ferðaþjónustan og hestamennskan fylgjast að. Á búgörðunum, sem eru vissulega eins ólíkir og þeir eru margir, eru oft tugir hesta á járnum; klárar sem notaðir eru til útreiða eða eru í tamningu eða ræktun. Og sumt eru einfaldlega keppnishross, enda eru margir af fremstu knöpum landsins Rangæingar.

„Já, hér á svæðinu er þetta orðið atvinnuvegur sem hefur mjög mikið að segja. Í einhverjum skilningi gæti þetta talist stóriðja,“ segir Guðmundur Viðarsson, bóndi í Skálakoti undir Eyjafjöllum. Hann þekkir vel til þessara mála, svo sem af vettvangi sveitarstjórnar, auk þess sem hann er sjálfur hrossabóndi. Fyrir allmörgum árum reisti hann hesthús og reiðskemmu á jörð sinni og er þar með tamningar, ræktun og hestaferðir. Glæsilegt hótel var reist síðar. Þessa starfsemi segir Guðmundur hafa gengið prýðilega og rentað sig með ágætum. Stóðhesturinn Skýr frá Skálakoti hafi þá skilað sínu í folatolli. Slíkt með öðru hafi skapað tækifæri til að færa út kvíarnar. Einmitt nú er Guðmundur svo að að reisa á landareign sinni stöð þar sem tekið verður sæði úr stóðhestum sem sett verður í frystingu og síðar selt. Slík starfsemi er nýmæli á Íslandi.

Nálægðin við höfuðborgarsvæðið og þar með markað ræður nokkru um hve margir hestamenn hafa fest sér land í Rangárþingi. Kunnugir benda þarna á að uppsveitir Árnessýslu séu í raun fullsetnar af ferðaþjónustu og hefðbundnum búskap. Svigrúm fyrir hrossabúskap sé helst austan Þjórsár. Erlendir kaupendur íslenskra hesta séu svæðinu ágætlega kunnugir og þurfi ekki að fara langt séu þeir í gæðingaleit. Þetta hafi með öðru gert Rangárþing að hjarta íslenskrar hestamennsku en sá tiltill hefur þó löngum fylgt Skagafirði.

Rangárþing er lifandi svæði

„Við getum sagt að Rangárþing allt sé afskaplega lifandi svæði. Hér eru mikil umsvif á ýmsum sviðum. Einn þátturinn eflir hinn,“ segir Sigurður Ágúst Guðjónsson verktaki. Hann býr í Miðhúsum skammt frá Hvolsvelli og gerir þaðan út atvinnurekstur sinn; jarðýtu og skruðgröfu. Áður var hann í húsasmíði – oft við þriðja mann – og kom þá að mörgum verkefnum á hrossabúum.

„Ég er að vinna víða hér um sveitir; alveg utan úr Holtum og austur undir Eyjafjöll. Verkefnin eru mörg og ég hef verið heppinn með viðskiptavini, sem gjarnan eru með hrossabúskap. Sjálfur hef ég látið þetta sport að mestu eiga sig, enda þótt fólk mér tengt sé með hesta heima í Miðhúsum. Þar erum við með nokkrar kindur í frístundabúskap, sem er líka nokkuð algengur hér,“ segir Sigurður.

Í Rangárþingi er haglendi gott og víðfeðmt og það eru aðstæður sem hrossabúskapur þarf. Upp til landsins eru holt og hæðir en niðri á láglendinu óendanlegar sléttur og þar blasir fallegur fjallahringurinn við; Hekla, Þríhyrningur, Tindfjöll, Eyjafjallajökull og Vestmannaeyjar. Ævintýri að spretta úr spori á góðum hesti. Sléttan dunar. „Menn og hestar á hásumardegi, í hóp á þráðbeinum skínandi vegi,“ yrkir Einar Benediktsson í ljóðinu Fákum.

Járningar, dýralækningar og verslun

„Hestamennskan verður sífellt stærri þáttur í öllu hér um slóðir,“ segir Erlendur Árnason á Skíðbakka í Austur-Landeyjum. Sjálfur sinnir hann til dæmis járningum og ræktun. Hann fer víða um og neglir skeifur á hófa. Sara Pesenacker kona hans hefur talsvert sinnt tamningum og þjálfun hrossa.

„Járningar, tamningar, dýralækningar og fleira; hestamennskan skapar fjölda fólks atvinnu. Á Hvolsvelli eru þrjár verslanir sem selja vörur tengdar hrossum. Á Hellu er verið að reisa nýtt hesthúsahverfi og svona gæti ég haldið áfram. Hér er hestamennskan í stóru hlutverki,“ segir Erlendur, sem hefur – heima og erlendis – starfað talsvert með afreksfólki í hestaíþróttum. Margt af því er afar sigursælt; samanber að fimm Rangæingar unnu heimsmeistaratitla á HM íslenska hestsins í Oirschot í Hollandi árið 2023. Miðað við höfðatölur, svo sem íbúafjölda í Rangárvallasýslu, er árangurinn einstakur. Árangur fólks úr héraði á landsmóti í Víðidal síðasta sumar var sömuleiðis mjög góður enda er metnaðurinn mikill í þessu kjörlendi íslenska hestsins.

Sveitirnar hafa fengið nýjan svip

Samtals 7.360 hross á svæðinu

Hingað til hefur ekki verið gerð sérstök greining á efnahagslegum umsvifum og áhrifum hestamennsku í Rangárvallasýslu. „Nei, uppbygging á hrossabúum hefur ekki verið mæld né greind sérstaklega,“ segir Stefán Friðrik Friðiksson, byggðaþróunarfulltrúi Rangárþings og starfsmaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.

„Vissulega vitum við að hestamennska og allt því tengt er umfangsmikið á svæðinu, hvort sem það er ræktun, afreksstarf eða þjónusta svo sem sérverslanir, dýralæknar og slíkt. Sennilega er ómögulegt að finna út þann fjölda sem hefur tekjur af hestamennsku, sem margir sinna meðfram öðru.“

Nýlega tók Rannsóknarmiðstöð landbúnaðarins saman áætlaðar tölur um fjölda hrossa á því svæði sem er undir í samantekt þessari. Þar kom fram að 735 hross eru á 26 búum í Ásahreppi sem liggur að austanverðri Þjórsá. Í Rangárþingi ytra, sem nær yfir Þykkvabæ, Holt, Landsveit, og Rangárvelli, eru hrossin 2.620 á 71 búi eða hjá því fólki sem á hross, misjafnlega mörg, og stundar hestamennsku sem áhugamál. Í Rangárþingi eystra, sem spannar Hvolsvöll og nærliggjandi svæði, Fljótshlíð, Landeyjar og Eyjafjöll, eru hrossin 4.005 og búin 82. Summa þessa eru 7.360 hross.

„Hrossabúskapur hefur gefið þessum sveitum hér alveg nýjan svip. Atvinnuhættir eru allt aðrir en var,“ segir Ásta Berghildur Ólafsdóttir í Viðarási í Ásahreppi.

„Við fjölskyldan fluttum hingað á svæðið árið 1992 og vorum með þáverandi eigendum Leirubakka á Landi að reisa þar reiðskemmu. Slíkt var þá algjör nýlunda í sveitum hér. Nú eru slík hús á mörgum bæjum, enda þykir tamningafólki mikilvægt að hafa inniaðstöðu við þjálfun hrossanna. Ferðaþjónusta eins og við þekkjum hana í dag var ekki til fyrir ýkja mörgum árum,“ tiltekur Ásta. Gististaðir voru opnir frá vori til hausts, enda fáir ferðamenn utan þess tíma.

„Hestamennska og þjónusta við ferðafólk helst í hendur og eru undirstaða hér á svæðinu,“ segir viðmælandi, Ásta Begga, eins og hún er jafnan kölluð. Hún er kona sem lætur víða til sín taka.

Höf.: Óskar Bergsson