Ebenezer Bárðarson var fæddur í Reykjavík 9. apríl 1953. Hann lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi 8. mars 2025.
Foreldrar hans voru Bárður Sveinsson, f. 23.8. 1909, d. 29.3. 1982, og Vigdís Kristín Ebenezersdóttir, f. 28.2. 1915, d. 16.4. 1999. Systkini hans eru Jóna, f. 27.2. 1939, d. 10.4. 2004, Björk, f. 15.5. 1940, Reynir, f. 8.9. 1941, Sveinn, f. 13.7. 1944, Guðný, f. 19.5. 1945, Helga, f. 27.8. 1949, Halldór, f. 23.2. 1954, og Björn, f. 16.12.,1958.
Fyrrverandi eiginkona er Auður Árnadóttir, f. 17.8. 1954, börn þeirra eru Vigdís Kristín, f. 16.12. 1975, og Eva Þórdís, f. 5.1. 1982, gift Alexander Harðarsyni, f. 5.10. 1985, og dóttir þeirra er Ebba Ragnheiður, f. 30.10. 2023. Giftur Dagbjörtu Guðmundsdóttur, f. 4.6. 1950, börn hennar eru Guðmunda, f. 22.4. 1967, Lárus, f. 9.4. 1969, Heimir Sigurður, f. 4.10. 1976, og Lilja Björk, f. 9.9. 1985.
Ebbi var bifvélavirki og stýrimaður að mennt, þúsundþjala- og trérennismiður. Hann vann ýmis störf um ævina og kynntist og vingaðist við fólk alls staðar þar sem hann kom. Hann var mikill mannvinur og þótti fátt skemmtilegra en að kynnast nýju fólki. Þegar Ebbi kynntist Dagbjörtu þá fékk hann fullt af börnum, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum í kaupbæti.
Hann verður jarðsunginn frá Langholtskirkju í Reykjavík í dag, 20. mars 2025, klukkan 13.
Broskarlinn með hattinn er fallinn, þessi ljúfi og greiðvikni maður, hann Ebenezer Bárðarson er allur.
Aðdragandinn var langur og á tíma virtist baráttan við meinið sigruð. Meinið tók sig upp en okkar maður lifði áfram í gleði og tók því sem verða vildi af æðruleysi – var tilbúinn að mæta skapara sínum.
Það var mér mikill happafengur að eignast vináttu Ebba, en við hittumst fyrst í þeim eðla selskap Félagi trérennismiða á Íslandi.
Þó Ebbi væri ekki alltaf frískur lét hann ekki á því bera heldur bar með sér gleði og góðan anda hvort sem var í tveggja manna tali eða fjölmenni. Hrókur alls fagnaðar á fundum, á ferðalögum og kynningarferðum félagsins okkar út um land og einnig fræðsluferðum til útlanda.
Sem ungur maður sigldi stýrimaðurinn Ebbi um öll heimsins höf, enda náði hann að sigla umhverfis jörðina á m.s. Helgafelli sem þá hafði verið selt til Asíu. Ebbi lét ekki til staðar numið eftir heimsreisuna heldur hélt með mótorhjólið sitt til Portúgal og ferðaðist um Íberíuskagann næstu mánuði.
Kominn heim úr þessum miklu reisum tóku við önnur störf og í frístundunum varð handverkið fljótt eitt af hans áhugamálum. Hann renndi ekki bara skálar og bikara, hann vann við allskonar handverk og meðal annars lærði hann til þjóðbúningasaum og saumaði sér veglegan búning.
Ég gæti skrifað langan bálk um vin minn Ebba en vil með þessum orðum mínum þakka honum þá dýrmæta vináttu sem við eignuðumst í hvor öðrum.
Dagbjört og fjölskylda, mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Engilbert Gíslason.