Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Uppselt er að verða á Reykjavíkurskákmótið, Reykjavik Open, sem haldið verður í Hörpu dagana 9. til 15. apríl næstkomandi.
Í gærmorgun var búið að skrá 421 keppanda frá 50 löndum.
„Við miðum við 400 keppendur en reynslan kennir okkur að það fækkar alltaf keppendum í aðdraganda mótsins. Því leyfum við okkur að fara rétt yfir. Það styttist í að við lokum fyrir skráningu – mjög líklega um helgina,“ segir Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands.
Íslendingarnir eru nú 84 talsins, sem er býsna gott, segir Gunnar. Íslenskir keppendur eru því um 20%.
Alls eru 34 stórmeistarar karla skráðir til leiks. Stórmeistarar kvenna eru átta. Þátttaka sterkustu skákkvenna Evrópu líður fyrir að rekast á EM kvenna í Ródos. Vegna þess eru fáar sterkar evrópskar skákkonur með á mótinu að þessu sinni, segir Gunnar.
Skákmenn frá Þýskalandi eru 51 og 46 Bandaríkjamenn. Frakkar eru 35 og Englendingar 22. Grænlenskir keppendur verða sex.
Langstigahæstur keppenda er íranski stórmeistarinn Parham Maghsoodloo sem teflir í fyrsta skipti á Íslandi. Hann er með 2.677 skákstig. Mjög þekktur skákkappi sem náði um tíma nr. 12 í heiminum en er nú nr. 47 á heimslistanum, segir Gunnar. Kunnastur keppenda er Úkraínumaðurinn Vasyl Ivanchuk.
Heimavarnarliðið skipa meðal annars fimm stórmeistarar: Vignir Vatnar Stefánsson, Guðmundur Kjartansson, Hannes Hlífar Stefánsson, Þröstur Þórhallsson og Bragi Þorfinnsson. Lenka Ptácníková, stórmeistari kvenna, tekur einnig þátt í mótinu. Nánast allir bestu skákmenn landsins eru með, ungir sem aldnir.
Anna Cramling er þekktust „streymara“ en hún er afar vinsæl sem slík. Móðir hennar, Pia Cramling, lýsir skákum hennar á netinu. Anna hefur 1,5 milljónir fylgjenda á Youtube og um hálfa milljón á Twitch.
Mótið í ár er afmælismót Friðriks Ólafssonar, fyrsta stórmeistara Íslendinga.