Upprennandi Það verður gaman að sjá hvaða stjörnur verða til á sviði Músiktilrauna 27.-30. mars.
Upprennandi Það verður gaman að sjá hvaða stjörnur verða til á sviði Músiktilrauna 27.-30. mars. — Morgunblaðið/Þórður Arnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vorið er handan við hornið en síðustu helgar marsmánaðarins bjóða upp á fjölbreytta viðburði um allt land. Hvort sem þú ert í leit að líflegum tónleikum, spennandi menningarviðburðum eða notalegri fjölskyldustund, þá er nóg úr að velja

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Vorið er handan við hornið en síðustu helgar marsmánaðarins bjóða upp á fjölbreytta viðburði um allt land. Hvort sem þú ert í leit að líflegum tónleikum, spennandi menningarviðburðum eða notalegri fjölskyldustund, þá er nóg úr að velja. K100 tók saman það helsta sem er í gangi um komandi helgar, 22.-23. mars og 28.-30. mars – tónleikar, leiksýningar, markaðir og fjölskylduvænt skemmtiefni. Að lokum eru nokkrar einfaldar hugmyndir að páskaföndri fyrir alla fjölskylduna en páskadagur en eftir mánuð, 20. apríl. Kíktu á listann og skipuleggðu draumahelgina!

Tónleikar og tónlist

Taylor Swift Tribute Show Aðdáendur Taylor Swift fá einstakt tækifæri 29. mars kl. 15:00 í Eldborgarsal Hörpu, þar sem söngkonan Xenna flytur öll helstu lög hennar. Miðaverð frá 3.894 kr., 35% afsláttur fyrir börn 12 ára og yngri.

Músíktilraunir 2025 Ungar hljómsveitir keppa í Norðurljósasal Hörpu 27.-30. mars kl. 19:30. Hver veit nema næsta stórstjarna Íslands verði uppgötvuð? Miðaverð 2.200 kr.

DIMMA á Græna hattinum á Akureyri Rokkhljómsveitin DIMMA mun koma fram á Græna hattinum föstudaginn 21. mars 2025 kl. 21:00. Miðaverð er 6.990 kr.

Leikhús og menningarviðburðir

Mjallhvít – Sambíóin Umdeild endurgerð Disney-myndarinnar verður frumsýnd 20. mars í Sambíóunum og víðar.

Söngleikurinn Stormur í Þjóðleikhúsinu Nýr íslenskur söngleikur eftir Unu Torfa og Unni Ósk. Sýningin fjallar um ungt fólk á Íslandi í dag. Sýningar um helgar kl. 20:00. Miðaverð 9.950 kr.

Bókmenntahátíð á Flateyri Litríkur bókmenntaviðburður 27.-30. mars, þar sem rithöfundar og lesendur koma saman á hinni afskekktu Flateyri. Hátíðin er ókeypis.

Saknaðarilmur í Samkomuhúsinu á Akureyri Leikfélag Akureyrar sýnir verkið Saknaðarilm 27.-29. mars kl. 20:00. Verðlaunasýning Grímunnar 2024. Miðaverð 7.750 kr.

Glanni Glæpur í Latabæ í Frumleikhúsinu í Keflavík Fjölskyldusýning í Menningarhúsinu 29.-30. mars. Miðaverð 3.000-4.000 kr.

Fjölskylduvænt skemmtiefni

Blómapottasmiðja í Höfuðstöðinni Laugardaginn 22. mars kl. 11:00–16:00 verður boðið upp á skapandi blómapottasmiðju fyrir alla aldurshópa í Höfuðstöðinni í Elliðaárdalnum. Pottarnir eru málaðir með málningarpennum og skreyttir með límmiðum og steinum. Verð fyrir hvern pott er 1.690-1.890 kr. Skráning er óþörf og allir eru velkomnir. Á staðnum eru einnig kaffihús, útisvæði og sýningin Chromo Sapiens eftir Hrafnhildi Arnardóttur (Shoplifter). Opið virka daga kl. 12:00-18:00 og um helgar kl. 11:00-17:00.

Hvalasafnið í Reykjavík Opið alla daga kl. 10:00-17:00 þar sem hægt er að skoða og fræðast um hvali og sjá líkön af þessum stórkostlegu dýrum í raunstærð. Fullorðnir 4.300 kr., börn 7-15 ára 2.150 kr., frítt fyrir yngri börn.

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn í Laugardal Nú er tekið að hlýna og margir spenntir fyrir útiveru í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Opið alla daga kl. 10:00-17:00. Aðgangseyrir 1.650 kr. fullorðnir, 1.150 kr. börn 6-12 ára, frítt fyrir 0-5 ára.

Fjölskyldudagur í Snooker & Pool Sunnudaginn 30. mars verður frítt fyrir alla í fylgd með barni undir 18 ára og aðgangur að Playstation 5 og blöðrur og spil fyrir þau yngstu.

Skopp trampólíngarðurinn í Kópavogi Skopp er trampólíngarður á Dalvegi 10-14 í Kópavogi og þar er mikið fjör um helgar. Á föstudögum frá kl. 19:00-21:00 er boðið upp á sérstakt Skopp After Dark, þar sem er hægt að fá andlitsmálningu sem lýsir í myrkri og taka þátt í ljósastemningu.

Laugardaga og sunnudaga er opið frá kl. 10:00-18:00, en frá kl. 10:00-12:00 eru sérstakir krakkatímar fyrir börn 0-5 ára. Verð fyrir almennt skopp er 2.500 kr. fyrir klukkustund og 3.500 kr. fyrir tvær klukkustundir. Skopp After Dark kostar 3.500 kr. (2 klst.). Skopp-sokkar með góðu gripi nauðsynlegir og fást á 550 kr.

Skautahöllin í Laugardal Opið svell fyrir alla. Það er alltaf gaman að skella sér á skauta. Almenningstímar föstudaga kl. 20:00-22:00, laugardaga og sunnudaga kl. 13:00-15:00. Aðgangseyrir fullorðnir 1.750 kr., börn 950 kr., skautaleiga 950 kr.

Keila í Keiluhöllinni Keiluhöllin í Egilshöll og Keiluhöllin í Kópavogi bjóða upp á keilu fyrir alla aldurshópa. Miðaverð 600-800 kr. á mann eftir tíma dags. Skór innifaldir.

Markaðir, matur og páskastemning

Kolaportið í Tryggvagötu 19 Flóamarkaður opinn um helgar kl. 11:00-17:00.

Það getur verið mikið ævintýri að kíkja með fjölskylduna í Kolaportið. Þar er ýmislegt í boði, meðal annars flöskur af broddmjólk, retro-tölvuleikir, gamlar bækur, leikföng og allskonar fjársjóðir.

Páskastemning á kaffihúsum Veitingastaðir og kaffihús eru að detta inn í páskastemninguna. Te & Kaffi býður meðal annars upp á ljúffengan páskafrappó.

Páskaföndur og heimilisstemning

Málaðu hænuegg í skærum litum Einföld föndurhugmynd fyrir alla fjölskylduna sem verður að fallegu páskaskrauti.

Gerðu páskahéra úr gömlum sokk

Notaðu hrísgrjón og gamlan sokk til að búa til krúttlega kanínu.

Vorspiladagur með fjölskyldunni Það er alltaf gaman að safna fjölskyldunni saman í spil og njóta samverunnar. Fjölmörg spil henta breiðum aldurshópum, en við mælum sérstaklega með Dixit, þar sem ímyndunaraflið fær að ráða för þar til ein kanína ber sigur úr býtum.

Spilavinir og Bókasöfn Fyrir þá sem vilja prófa ný spil er hægt að heimsækja kjallara Spilavina um helgar (athugið að pláss er takmarkað). Verð: Fullorðnir 1.250 kr og börn (6-15 ára): 750 kr. Einnig bjóða Borgarbókasafnið og önnur bókasöfn upp á fjölbreytt úrval af spilum, auk búninga og leikfanga fyrir börn.

Höf.: Rósa Margrét Tryggvadóttir