Sigurður Guðmundsson (1942) Hommage à Grieg, 1971 Svarthvít ljósmynd á pappír, 110 x 80 cm
Sigurður Guðmundsson (1942) Hommage à Grieg, 1971 Svarthvít ljósmynd á pappír, 110 x 80 cm
Sigurður Guðmundsson hóf listrænan feril sinn á sjöunda áratugnum. Hann var meðlimur í SÚM-hópnum sem var stofnaður árið 1965 og hélt sína fyrstu einkasýningu í Gallerí SÚM árið 1969. Sigurður hefur lengst af starfað í Hollandi og Kína

Sigurður Guðmundsson hóf listrænan feril sinn á sjöunda áratugnum. Hann var meðlimur í SÚM-hópnum sem var stofnaður árið 1965 og hélt sína fyrstu einkasýningu í Gallerí SÚM árið 1969.

Sigurður hefur lengst af starfað í Hollandi og Kína. Hann vinnur í fjölda miðla, ljósmyndir, höggmyndir, teikningar, grafík og gjörninga, auk þess sem hann hefur samið tónverk og skrifað bækur. Tungumálið og tengsl ritaðs máls og myndmáls er mikilvægur þáttur í list hans, með áherslu á hið skáldlega og heimspekilega.

Í ljósmyndaverkum frá upphafi áttunda áratugarins skoðar hann samsvörun tungumáls og hlutveruleika út frá frásagnarmöguleikum ljósmyndarinnar.

Ljósmyndaverkið Hommage à Grieg frá 1971 er dæmigert verk fyrir þau skáldlegu frásagnartilþrif sem einkenndu verk hans á áttunda áratugnum. Listamaðurinn stendur við borð úti í náttúrunni sem á er ferðaplötuspilari, og beinir spenntum boga með ör í átt til himins.

Myndinni fylgdi skýringartextinn While I listened to music by Edvard Grieg I shot ten arrows into the sky, eins og til að undirstrika takmarkaða frásagnarmöguleika ljósmyndarinnar sjálfrar. Hér er inntak verksins samtvinnað framsetningu þess, ólíkt því sem var í fyrri verkum þar sem ekkert mátti skyggja á sjálft innihaldið.

Sigurður, sem er einn þekktasti fulltrúi hugmyndalistarinnar á Íslandi, hefur lag á að vinda ofan af hinu augljósa eins og til dæmis þegar hann er spurður að því hvaða hugmynd liggi að baki verkum hans, svarar hann: „Það er engin hugmynd á bak við listaverkið – ég reyni að vinna ekki með hugmyndir.“

Sigurður er einn af kunnustu listamönnum Íslands á alþjóðavettvangi og list hans er víða að finna í söfnum og í almannarými bæði hér á landi og erlendis. Hann býr og starfar á Djúpavogi, í Reykjavík, Amsterdam og í Xiamen í Kína.