Börn Vigdísar Sólveig og Hlynur Þorsteinsbörn.
Börn Vigdísar Sólveig og Hlynur Þorsteinsbörn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vigdís Hauksdóttir er fædd 20. mars 1965 á Selfossi en er sveitastelpa í húð og hár og ólst upp á Stóru-Reykjum í fyrrum Hraungerðishreppi í Árnessýslu. „Ég naut þess að alast upp í sveit og var úti um allar koppagrundir að gera gagn, hvort…

Vigdís Hauksdóttir er fædd 20. mars 1965 á Selfossi en er sveitastelpa í húð og hár og ólst upp á Stóru-Reykjum í fyrrum Hraungerðishreppi í Árnessýslu.

„Ég naut þess að alast upp í sveit og var úti um allar koppagrundir að gera gagn, hvort sem það var að vera kúasmali, vakta sauðburð eða taka þátt í heyskap. Haldnar voru íþróttaæfingar á sumrin fyrir okkur krakkana í Einbúa sem Ungmennafélagið Baldur átti. Þá var ekkert um skutl eins og tíðkast í dag og var alltaf farið ríðandi á æfingarnar.

Á þessum tíma voru sjónvarpslausir fimmtudagar og notaði faðir minn þá m.a. til að kenna mér skák. Ég á medalíur heima fyrir skákferil minn í æsku, en hef því miður lítið viðhaldið þeirri þekkingu, en ég sat samt í skáksveit Alþingis og grip af og til í skákina þegar ég sé taflborð.“

Vigdís gekk í Þingborgarskóla sem var barnaskóli sveitarinnar, síðan Gagnfræðaskólann á Selfossi. „Fyrsta vinnan mín utan æskuheimilis var verknám í garðyrkju á Böðmóðsstöðum í Laugardal, hjá Árna Guðmundssyni, en þá var ég 16 ára. Aðrir verknámsstaðir voru hjá Emil Gunnlaugssyni á Flúðum og hjá Hannesi Kristmundssyni í Hveragerði. Árið 1984 flutti ég til Reykjavíkur, þá nýútskrifaður garðyrkjufræðingur, og hóf störf í Blómavali í Sigtúni, hjá Bjarna og Kolbeini Finnssonum.

Blómavalstíminn var góður grunnur fyrir framtíð mína og voru mér falin trúnaðarstörf þrátt fyrir ungan aldur. 22 ára var ég orðin deildarstjóri.

Á þessum árum lá leið mín til Danmerkur í blómaskreytinganám í Beder Gartnerskole, sem er rétt fyrir utan Árósa. Er heim kom fékkst ég við ýmiss konar blómaskreytingastörf og var m.a. fengin til að skipuleggja nám og stofna blómaskreytingarbraut við Garðyrkjuskólann á Reykjum í Ölfusi. Blómaskreytingarferill minn leiddi mig í að ég varð fyrsti Íslandsmeistarinn í blómaskreytingum. Ég keppti tvisvar fyrir Íslands hönd í blómaskreytingum í Kaupmannahöfn, landaði ekki verðlaunum en kom heim reynslunni ríkari. Ég eignaðist börnin mín á „blómatímanum“ 1993 og 1998.

Eftir skilnað 2002 urðu miklar breytingar á lífi mínu og barnanna. Ég ákvað að venda mínu kvæði í kross og hóf nám í Háskólanum á Bifröst, fyrst í frumgreinadeild, síðan viðskiptadeild sem mér fannst ekki nægilega krefjandi, svo að ég skipti yfir í viðskiptalögfræði áramótin 2004-2005. Var það mikið gæfuspor og lauk ég síðan ML-námi mínu 2008. Lögfræðin hefur nýst mér einstaklega vel í lífinu og kom sér vel að vera lögfræðingur þegar ég settist á þing. Í raun voru Bifrastarárin minn blómatími og hugsa ég til þeirra með miklum hlýhug.

Ég ákvað að fara í skiptinám á haustönn 2006 við University of Manitoba, m.a. vegna brennandi áhuga míns á öllu sem viðkemur Vestur-Íslendingum. Börnin fóru með mér og fóru í sitt hvorn skólann þarna úti. Með í för var systurdóttir mín, Snædís Karlsdóttir, til að hjálpa mér með heimilið og börnin. Þessi tími var ævintýri líkastur og börnin urðu fljúgandi í ensku á örfáum vikum. Það var töff að gera þetta en svolítið líkt mér því ég er óhrædd við að hoppa í djúpu laugina.“

Vigdís var alþingismaður 2009-2016 og sat í allsherjarnefnd, kjörbréfanefnd, umhverfisnefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og fjárlaganefnd. „Örlögin höguðu því þannig að ég leiddi lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður í alþingiskosningunum 2009 og hlaut kjör. Hugur minn stefndi á þessum tíma að því að fara að vinna á lögmannsstofu en í stað þess var ég orðin alþingismaður.

Tíminn á Alþingi var mjög lærdómsríkur og gefandi þrátt fyrir mikla erfiðleika í samfélaginu svo skömmu eftir bankahrunið. Vinstristjórn var mynduð og einkenndist fyrra kjörtímabil mitt á þingi af miklum átökum. Keyra átti mörg stór mál í gegn, s.s. Icesave, ESB-umsókn og umbyltingu á stjórnarskránni. Seinna kjörtímabil mitt var með allt öðrum hætti og meira gefandi. Þá var ég formaður fjárlaganefndar og vann meirihluti nefndarinnar saman sem einn maður. Náðum við hallalausum fjárlögum í fyrsta sinn eftir hrun eftir mikinn niðurskurð.

Ég er stofnfélagi Miðflokksins og gekk úr Framsóknarflokknum eftir mikil undirmál gagnvart formanninum. Það er gefandi að taka þátt í að byggja upp nýjan flokk með fjölda annarra. Ég var síðan kosin í borgarstjórn 2018 fyrir Miðflokkinn fyrst allra.

Reynsla mín úr þinginu kom sér einstaklega vel í störfum mínum í borgarstjórn. Það var forvitnilegt að komast á bak við tjöldin í rekstri borgarinnar og eins og flestir vita var því afar illa tekið í máli eftir máli.“

Vigdís hefur gegnt ýmsum félagsstörfum fyrir utan þingmennsku og setu í borgarstjórn. Hún var m.a. formaður Félags blómaverslana 1992-1994, sat í stjórn Kaupmannasamtaka Íslands 1993-1997, í fræðsluráði Reykjavíkur 2002-2005 og í háskólaráði Háskólans á Bifröst 2003-2004.

„Ég ákvað að gefa ekki kost á mér til borgarstjórnar 2022. Mér hugnaðist ekki andrúmsloftið í Ráðhúsinu. Nú starfa ég á Málsvara lögmannsstofu og er loks farin að vinna við það sem ég útskrifaðist til árið 2008. Líf mitt hefur tekið margar óvæntar beygjur og hefur verið fullt af áskorunum eins og starfsferill minn og nám ber með sér. Ég tel að ég hafi gengið veginn til góðs.“

Fjölskylda

Börn Vigdísar með fv. eiginmanni, Þorsteini Erni Sigurfinnssyni, f. 5.7. 1964, d. 14.5. 2010, smið og rafvirkja, eru 1) Hlynur Þorsteinsson, f. 11.6. 1993, nemi í viðskiptafræði og starfsmaður CCP, maki: Guðrún Guðmundsdóttir, búsett í Reykjavík; og 2) Sólveig Þorsteinsdóttir, f. 1.3. 1998, BA í sálfræði, nú búsett í Kaupmannahöfn ásamt maka Sindra Má Fannarssyni.

Systkini Vigdísar eru María Ingibjörg Hauksdóttir, f. 16.5. 1953, bóndi í Geirakoti í Árborg og fv. stuðningsfulltrúi; Margrét Hauksdóttir, f. 3.4. 1955, húsmóðir, búsett í Reykjavík; Gerður Hauksdóttir, f. 23.10. 1958, skrifstofumaður, búsett í Reykjavík; Gísli Hauksson, f. 20.3. 1961, bóndi á Stóru-Reykjum, og Hróðný Hanna Hauksdóttir, f. 13.9. 1969, skrifstofumaður, búsett í Árborg.

Foreldrar Vigdísar voru hjónin Jón Haukur Gíslason, f. 23.12. 1920, d. 26.7. 2002, og Sigurbjörg Geirsdóttir, f. 10.7. 1932, d. 18.12. 2018, bændur á Stóru-Reykjum í Flóahreppi.