Bryntröll Þýskir orrustuskriðdrekar af gerðinni Leopard 2 sjást hér í framleiðslustöð Rheinmetall.
Bryntröll Þýskir orrustuskriðdrekar af gerðinni Leopard 2 sjást hér í framleiðslustöð Rheinmetall. — AFP/Fabian Bimmer
Leiðtogi kristilegra demókrata og næsti Þýskalandskanslari, Friedrich Merz, segir Þýskaland nú vera snúið aftur. Öll áhersla verði lögð á varnir landsins og Evrópu um leið. Framleidd verða ný vopnakerfi, allt frá árásardrónum yfir í brynvarin ökutæki og orrustuþotur

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Leiðtogi kristilegra demókrata og næsti Þýskalandskanslari, Friedrich Merz, segir Þýskaland nú vera snúið aftur. Öll áhersla verði lögð á varnir landsins og Evrópu um leið. Framleidd verða ný vopnakerfi, allt frá árásardrónum yfir í brynvarin ökutæki og orrustuþotur. Eftirlits- og njósnakerfi verður eflt til muna og skotfæraframleiðsla stóraukin. Ekkert þak verður sett á útgjöld tengd varnarmálum.

Þýska sambandsþingið hefur þegar samþykkt stjórnarskrárbreytingu sem heimilar þessar aðgerðir og fleiri til. Ástæðan er rík, að sögn Merz: Rússland á í stríði gegn Evrópu og óljóst er hvort Bandaríkin muni standa við skuldbindingar sínar þegar kemur að því að tryggja öryggi Evrópu. Álfan verður því að standa á eigin fótum.

Árleg skýrsla um stöðu þýska heraflans var afhent þinginu fyrir fáeinum dögum. Þar kemur m.a. fram að frá upphafi árásarstríðs Rússlands inn í Úkraínu árið 2022 hefur hermönnum fækkað verulega og aldur þeirra samhliða hækkað. Skortur sé á nær öllum sviðum, allt frá einföldum búnaði einstakra hermanna yfir í hátæknivopnakerfi. Og þetta er niðurstaðan þrátt fyrir aukin útgjöld til varnarmála undanfarin ár. Snúa verði þessari þróun við án tafar, segir þar. „Ástandið er grafalvarlegt. Við erum hvergi nærri settu markmiði og enn er mikið verk eftir óunnið.“

Fá tæki og hækkandi aldur

Mikil áhersla hefur verið á nýliðun í þýska hernum, Bundeswehr. Áðurnefnd skýrsla sýnir hins vegar hve illa hefur gengið í þeim efnum. Stjórnvöld höfðu sett sér að fjölga hermönnum upp í 203 þúsund fyrir árið 2031. Raunveruleikinn er hins vegar fækkun, um 340 hermenn á milli ára og stendur talan nú í 181.174 hermönnum. Þetta hefur einnig leitt af sér hækkandi aldur hermanna og er meðalaldur nú 34 ár. Til samanburðar er meðalaldur hermanna í Bandaríkjaher 28 ár.

Niðurstaða úttektar á tækjabúnaði þýska heraflans var heldur ekki ástæða til bjartsýni. Staðan þar er afar slæm heilt yfir litið. Segja skýrsluhöfundar Bundeswehr ekki hafa þau tæki og tól sem nauðsynleg eru til að stunda nútímahernað. Geta hersins á vígvellinum sé takmörkuð vegna úreltra vopna og skorts á sjálfsögðum búnaði. Brýnt sé að ráðast í þróun og framleiðslu á nýjum vopnakerfum, brynvörðum tækjum, árásardrónum og herskipum, -þotum og -þyrlum svo fátt eitt sé nefnt. Þá eru skotfæri sérstakt vandamál, en þau skortir átakanlega, ekki síst í ljósi þess hve mikið magn af skotfærum og sprengjum hefur endað á vígvöllum Úkraínu síðastliðin þrjú ár. Framleiðsla á þessum hergögnum heldur engan veginn í við notkun þeirra. „Bundeswehr á einfaldlega of lítið til af öllu.“

Láti ekki af stuðningi

Stjórnvöld í Bandaríkjunum stöðvuðu um stund alla hernaðaraðstoð við Úkraínu og bönnuðu bandamönnum sínum í Evrópu að deila njósnaneti sínu með Úkraínuher. Þótt aðgerð þessi varaði stutt hafði hún áhrif á frammistöðu Úkraínuhers. Forseti landsins kallar eftir frekari stuðningi og varar við loforðum Moskvuvaldsins um frið. Þau séu blekking.

Höf.: Kristján H. Johannessen