Sjávarútvegur Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska sjávarklasans, segir sífellt fleiri erlendis aðhyllast hugmyndafræði um fullnýtingu sjávarafurða.
Sjávarútvegur Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska sjávarklasans, segir sífellt fleiri erlendis aðhyllast hugmyndafræði um fullnýtingu sjávarafurða. — Morgunblaðið/Eggert
Donna Fordyce, framkvæmdastjóri sjávarfangsráðs Skotlands (Seafood Scotland), tilkynnti nýverið að hafin væri vinna við að leita fjármögnunar fyrir stofnun nýsköpunarseturs að íslenskri fyrirmynd, svokallaðs sjávarklasa

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Donna Fordyce, framkvæmdastjóri sjávarfangsráðs Skotlands (Seafood Scotland), tilkynnti nýverið að hafin væri vinna við að leita fjármögnunar fyrir stofnun nýsköpunarseturs að íslenskri fyrirmynd, svokallaðs sjávarklasa. Fordyce sagði í ávarpi á málþingi um nýsköpun slíkan klasa stuðla að aukinni nýtingu sjávarafurða og geta allt að þrefaldað veltu greinarinnar, en hún er í dag um 1,3 milljarðar sterlingspunda sem er jafnvirði 226 milljarða íslenskra króna.

„Með því að vinna saman þvert á fyrirtæki í greininni getum við aukið fæðuöryggi, hvatt til nýsköpunar og mikillar verðmætasköpunar, stuðlað að sjálfbærni í umhverfismálum og laðað að fjármagn og fjárfestingar til að stuðla að efnahagslegri þróun í Skotlandi,“ sagði hún í ræðu sinni.

Mikil tækifæri

„Áhersla okkar á betri nýtingu hefur orðið helsta kveikjan að auknum áhuga á stofnun klasa víða um heim. Nú getum við sýnt fram á að „100% Fish“-verkefni sem við tengjumst í nokkrum heimshlutum eru að skila meiri nýtingu, auknum tekjum og nýjum tækifærum. Klasarnir hvetja til þess að fólk með ólíkan bakgrunn, sem hingað til hefur ekki tengst, vinni verðmæti úr hliðarafurðum,“ segir Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska sjávarklasans, sem var sá fyrsti sinnar tegundar á heimsvísu.

Hann heldur áfram: „Einmitt þess vegna eru Skotar að undirbúa stofnun sjávarklasa. Nýleg skýrsla frá Zero Waste Scotland upplýsir að núverandi markaðsvirði 166.000 tonna af fiskúrgangi í Skotlandi er næstum 22 milljónir punda. Þetta er það sem Donna Fordyce, forstjóri Seafood Scotland, er ákveðin í að takast á við. Fordyce hefur hvatt sjávarútveg í Skotlandi til að koma með í Scottish Ocean Cluster, og stefna að því að þrefalda virði sjávarútvegs landsins.“

Helsta framlag Íslands

Þór kveðst sannfærður um að „100% Fish“-verkefnið – er snýr að fullnýtingu þess hráefnis sem fæst úr sjó – stefni í að verða eitt stærsta framlag Íslands til umhverfismála í heiminum. „Tækifærið er stórt en talið er að 10-20 milljónir tonna fari til spillis í vinnsluferlinu í heiminum,“ segir hann.

„Nú eru systurklasar að verða til í nær öllum heimsálfum og ætlun okkar er að nýta þetta net til að koma einhverjum hluta þeirra 10-20 milljóna tonna af fiskafurðum sem er hent í heiminum í verð. Þennan kraft sem orðinn er í útrásinni hjá okkur vil ég fyrst og fremst þakka Alexöndru Leeper framkvæmdastjóra Sjávarklasans og teyminu okkar. Þá hefur reynst okkur mikilvægt að hafa í landinu öflug fyrirtæki eins og Matís og Marel sem hafa reynst afar mikilvæg á þessari vegferð.

Ég hef aldrei verið eins sannfærður um að Ísland geti orðið enn frekar „sílikondalur sjávarútvegs“ í heiminum. Við eigum að kynna okkar sérstöðu og segja okkar sögu með miklu ákveðnari hætti en við höfum gert. Að eiga tæplega 100 fyrirtæki og sprota sem eru að hanna og selja tækni fyrir sjávarútveg og tengdar greinar eða búa til vörur úr hliðarafurðum fisks er heimsmet sem við erum fyrst núna að gera okkur grein fyrir að felast mikil verðmæti í. Við eigum að bjóða sprotum og frumkvöðlum frá öðrum löndum að hafa hér sínar höfuðstöðvar og laða til okkar erlenda sérfræðinga. Hér getum við búið til segul fyrir bláa frumkvöðla,“ fullyrðir Þór.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson