Stórt Anna vinnur nú að umfangsmiklu vegglistaverki í höfuðstöðvum Alvotech, sem er um 170 fm að stærð.
Stórt Anna vinnur nú að umfangsmiklu vegglistaverki í höfuðstöðvum Alvotech, sem er um 170 fm að stærð. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Marie Sigmond Gudmundsdottir er íslensk-norsk listakona sem býr og starfar í Noregi. Þar hefur hún notið mikillar velgengni en verk hennar hafa verið sýnd um allan heim auk þess sem hún hefur unnið að fjölda listaverka í opinberu rými eins og…

Viðtal

María Margrét Jóhannsdóttir

mariamargret@mbl.is

Anna Marie Sigmond Gudmundsdottir er íslensk-norsk listakona sem býr og starfar í Noregi. Þar hefur hún notið mikillar velgengni en verk hennar hafa verið sýnd um allan heim auk þess sem hún hefur unnið að fjölda listaverka í opinberu rými eins og til dæmis vegglistaverk fyrir höfuðstöðvar DNB banka í Bjørvika og Háskólann í Stavanger. Nú vinnur hún að afar stóru vegglistaverki í höfuðstöðvum Alvotech í Vatnsmýrinni.

Anna fæddist á Íslandi. Faðir hennar var íslenskur og móðir hennar er norsk en bæði voru eldfjallafræðingar. Fimm ára flutti hún til Noregs með mömmu sinni en varði þó öllum sumrum á Íslandi sem barn. Anna sem útskrifaðist frá Listakademíunni í Bergen árið 2000 vinnur oft með rými á stórum skala, þar sem myndheimur hennar getur minnt á innsetningu eða veggmynd sem umlykur áhorfandann. Veggurinn í Alvotech er um 170 fermetrar að stærð, 25 metrar að lengd og tíu metrar á hæð, en fermetrafjöldinn minnkar þar sem tröppur taka frá veggplássinu.

Anna segist hafa leiðst út í gerð stórra vegglistaverka strax í náminu. „Mér hefur alltaf fundist striginn vera of takmarkandi, of lítill. Þá heillar það mig sérstaklega þegar listin getur orðið hluti af arkitektúrnum og samfélaginu. Vissulega er safnaumhverfið áhugavert út af fyrir sig en það getur á sama tíma virkað sem of sérhæft og lokað, eins og box.

Sumir reka upp stór augu þegar þeir komast að því að kona vinni svona stór og umfangsmikil verk en ég hef aldrei pælt í því sérstaklega. Ég hef bara alltaf gert þetta,“ segir Anna.

List á tímum gervigreindar

„Þetta er mikil vinna en á sama tíma mjög gefandi og ég elska hana. Það er gaman að vera umkringd mörgu fólki því það skapar meiri núning í því hvernig maður hugsar þegar maður er í beinum tengslum við fólkið sem mun koma til með að horfa á verkið alla daga. Þetta er því líka spurning um samtal og samskipti.

Eins er mjög gefandi að vinna í rýmum þar sem fleiri geta notið verkanna en bara þeir sem sækja söfn og gallerí.

List í almannarýmum er afar mikilvæg og sérstaklega nú á tímum gervigreindar. Það er brýnt að fyrir augum okkar sé eitthvað sem fólk hefur skapað með berum höndum og eigin hugviti. Að fólk geti séð að enn eru til hlutir sem gervigreind getur ekki framleitt.“

Anna segir að verkið minni um margt á vatn og fossa en á sama tíma sé mikilvægt að túlkun verksins sé opin og að fólk geti lagt eigin merkingar í verkið.

„Ég reyni að gera verk mín þannig að þau hafi margræða merkingu og að ekki sé augljóst hvað fyrir augu ber. Ég lít á hvert verk sem verkfæri fyrir huga þess sem á horfir. Ég vil að verk mín séu eins konar hljóðfæri sem allir geta leikið á og í raun má segja að ég hugsi meira um það hvernig verkið virkar heldur en hvernig það kemur til með að líta út. Lýsa má verkinu sem blöndu af málverki og teikningu sem ég hef ekki séð mikið gert áður, en ég nota mikið handmálaðar línur í verkum mínum,“ segir Anna.

Margt frábrugðið Noregi

Blaðamanni leikur forvitni á að vita hversu frábrugðið líf listamannsins sé í Noregi samanborið við Ísland. „Það er margt mjög ólíkt með löndunum. Bæði hvað varðar persónuleika Norðmanna og Íslendinga og svo hvernig stutt er við menningu. Íslendingar eru öruggari með sig og óhræddir við að láta slag standa. Norðmenn eru hins vegar stífari og þurfa að hafa allt í föstum skorðum. Enda Íslendingar komnir af þeim víkingum sem þoldu ekki kerfið í Noregi, gerðu uppreisn og komu sér burt.

List hefur alltaf verið mikilvæg á Íslandi og þá sérstaklega þegar kemur að bókmenntum en í Noregi er öflugra styrkjakerfi fyrir listamenn. Ég er t.d. með tíu ára styrk sem er ekki hár en hann gerir mér þó kleift að geta varið allt að heilu ári í að rannsaka eitthvað fyrir ákveðin verkefni. Það getur verið mjög hamlandi fyrir sköpunina ef maður þarf stöðugt að vera að skapa tekjur alla daga. Þó að það sé vissulega mikilvægt þá þarf maður líka að geta tekið tímabil á milli verkefna sem fara í rannsóknir. Það sem ég hef heyrt af umhverfinu hér á Íslandi er að allir séu með aðra vinnu eða vinnur og það þykir eðlilegt. Þá virðast allir vera að hjálpa hver öðrum meira hér sem er jákvætt en í Noregi er samkeppnin harðari.“

Mörg verkefni fram undan

Það er margt fram undan hjá Önnu. „Ég vildi óska að ég gæti sagt að ég væri með fyrirætlanir um sýningu hér á Íslandi en það bíður betri tíma. Í augnablikinu er ég með þó nokkur spennandi verkefni og sýningar fram undan. Þegar ég sný aftur til Noregs mun ég byrja á verki í nýbyggðum skóla í Bergen. Meðfram þeirri vinnu sinni ég ýmsum verkefnum fyrir Harpefoss Art Arena sem ég rek ásamt eiginmanni mínum, Eivind Slettemeås. Þá mun ég einnig halda sýningu í Berlín í september. Eitt metnaðarfyllsta verkefni sem er á döfinni er brú sem nær yfir 30 metra djúpt gil en ég og íslenskur arkitekt, Dagur Eggertsson, vinnum að því saman en Dagur er búsettur í Noregi og hefur rekið arkitektastofuna Rintala Eggertsson Arkitektar frá árinu 2007 með Sami Rintala og Vibeke Jenssen. Þetta er langtímaverkefni en lofar mjög góðu og ég trúi því að útkoman verði einstök,“ segir Anna að lokum.

Höf.: María Margrét Jóhannsdóttir