Sigfús Þór Elíasson
Sigfús Þór Elíasson
Súrir drykkir og sífellt nart skemma tennur. Góð tannhirða er lykillinn að heilbrigðum tönnum og skiptir máli fyrir lífsgæði og andlega vellíðan.

Sigfús Þór Elíasson

Í dag er tannverndardagur Heimssambands tannlækna, þar sem vakin er athygli á hvað góð tannheilsa skiptir miklu máli fyrir lífsgæði og andlega vellíðan.

Að viðhalda góðu tannheilbrigði alla ævi er að mestu undir okkur sjálfum komið, nema á rúmlega fyrsta áratugnum þegar foreldrar stjórna mataræði og eiga sjálfir að framkvæma tannhirðuna, og svo á síðasta hluta ævinnar þegar getan minnkar og við þurfum aftur hjálp við margt sem áður var auðvelt, þ.m.t. tannhirðu.

Glerungseyðing

Súrir gos-, orku- og koffíndrykkir sem hafa komist í tísku hér á landi, sérstaklega hjá ungu fólki, valda óbætanlegum skaða á tönnum. Sterk sýran leysir upp glerunginn sem þynnist smám saman, sérstaklega á tyggingarflötum og innan á efrigómsjöxlum og framtönnum. Þess vegna fellur bit saman og þynntir bitfletir framtanna molna og verða skörðóttir með tilheyrandi útlitslýti. Slitið veldur oft miklu kuli og sársauka. Eina leiðin til að forðast glerungseyðingu er að takmarka neyslu þessara súru drykkja. Vatnið okkar er best, og ókeypis!

Tannsýkla, tannskemmdir og munnvatn

Tannsýklan, hvíta skánin sem sest á tennurnar í okkur öllum, þykknar smátt og smátt og verður vel sýnileg ef við erum ekki dugleg að bursta tennurnar og nota tannþráð. Tannsýkla samanstendur aðallega af sýklum sem margir eru sýrumyndandi, og við þekkjum úr sögu Thorbjörns Egners sem skaðvaldana Karíus og Baktus. Slæmar matarvenjur, einkum ef sykurríkar fæðu, sælgætis og snakks er neytt með stuttu millibili, stuðla að tannskemmdum. Sýkluskánin gerjar sykurinn í fæðunni yfir í sterkar sýrur, sem leysa síðan glerunginn upp og mynda holur. Sýrurnar vinna eyðileggingarstarf sitt í um hálftíma eftir að sykurs er neytt. Líði nægilegur tími milli mála verður sýrumyndunin ekki stöðug og endurkölkun með steinefnum úr munnvatninu getur átt sér stað.

Munnvatnið hefur mikla þýðingu fyrir varnir líkamans gegn tannskemmdum. Ef munnvatnsrennsli er mikið og þunnt kemst það betur inn í sýkluna, þynnir og gerir sýrurnar fyrr óvirkar. Aftur á móti ef fólk er með munnþurrk og munnvatnið er þykkt eða lítið, sem er algengt hjá eldra fólki eða er vegna lyfja, verður hætta á tannskemmdum mun meiri, þar sem munnvatnið nær síður að komast inn í tannsýkluna og hlutleysa sýrurnar.

Tannsýkla og tannholdssjúkdómar

Tannsýklan veldur ekki einungis tannskemmdum heldur einnig tannholdsbólgu. Ástæðan er að munnsýklarnir mynda ekki einungis sýru heldur gefa líka frá sér eiturefni sem brjóta niður stoðvefina kringum tennurnar. Fyrsta stigið er tannholdsbólga, sem lýsir sér í blæðingum frá tannholdi, jafnvel við minnstu snertingu eins og tannburstun. Ef sjúkdómurinn er ekki stöðvaður á byrjunarstigi með réttri munnhirðu dreifist bólgan niður með tönnunum og endar með því að þær losna. Einnig hefur komið í ljós að ýmsir þættir eins og reykingar stuðla að tannholdssjúkdómum, sem eru langalgengasta orsök tannmissis meðal fullorðinna.

Á síðustu árum hafa rannsóknir bent til þess að slæm tannheilsa, einkum bólgur í tannholdi og í kjálkabeini, geti verið með-orsakavaldur ýmissa sjúkdóma, eins og hjarta- og æðasjúkdóma, krabbameins í munni, meltingarfærasjúkdóma, öndunarfærasýkinga og sykursýki.

Forvarnir og flúor

Í stóra samhenginu gilda sömu forvarnir gegn tannsýklusjúkdómum fyrir alla, börn, fullorðna og aldraða. Regluleg tannhirða gengur út á að fjarlægja tannsýkluna með tannburstun og svo notkun á tannþræði til að hreinsa á milli tanna. Flúor gegnir lykilhlutverki í að koma í veg fyrir tannskemmdir. Það er alls ekki nóg að segja: burstaðu tennurnar, krakki, og farðu svo að sofa! Foreldrar þurfa sjálfir að bursta þangað til barnið er 10 ára. Og margir aldraðir þurfa aðstoð og hjá þeim kemur rafmagnstannburstinn sterkur inn.

Hjá börnum á tannmyndunarskeiði þarf að gæta þess að nota lítið flúortannkrem. Hjá ungbörnum er gott að miða við magn þar sem dropinn af tannkremi miðast við ¼ af nögl litla fingurs barnsins eða stærð hrísgrjóns, því þau kyngja tannkreminu. Hjá leikskólabörnum má miða við hálfa nögl litla fingurs eða stærð baunar. Hjá grunnskólabörnum er hæfilegt magn hálfur sentímetri og fullorðnum einn sentímetri. Best er að bursta tennurnar með flúortannkremi í a.m.k. 2-3 mínútur, skyrpa síðan tannkreminu vel og borða ekkert eftir síðustu burstun á kvöldin. Með tannburstun næst ekki til flatanna á milli tanna. Því er nauðsynlegt að nota líka tannþráð og gott að gera það áður en burstað er a.m.k. einu sinni á dag. Ef matur situr í tönnunum er nauðsynlegt að nota fyrst tannþráð, bursta matarleifarnar burt og skola síðan vel með vatni. Síðan á að bursta vel allar tennurnar með flúortannkremi og svo bara skyrpa. Flúorinn binst fyrst laust við yfirborð glerungsins, en gengur síðan með tímanum fastar í efnasamband við glerunginn, þannig að hann verður torleystari. Ef flúortannkreminu er skolað í burt með vatni eftir burstun kemur flúorinn að miklu minna gagni.

Endilega skoðið fræðslu og myndbönd um tannhirðu og tannburstun á heilsuvera.is og látið börnin fylgjast með.

Höfundur er prófessor emeritus við tannlæknadeild HÍ.

Höf.: Sigfús Þór Elíasson