Kominn á toppinn Stefán Ragnar tekur við stöðu fyrsta flautuleikara í Fílharmóníusveit Berlínar í haust.
Kominn á toppinn Stefán Ragnar tekur við stöðu fyrsta flautuleikara í Fílharmóníusveit Berlínar í haust.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það má segja að þetta sé eins og að vera kominn á toppinn á Everest. Þetta er einn sá mesti heiður sem hægt er að fá í tónlistarheiminum í dag,“ segir flautuleikarinn Stefán Ragnar Höskuldsson sem á dögunum var valinn í stöðu fyrsta flautuleikara í Fílharmóníusveit Berlínar

Viðtal

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Það má segja að þetta sé eins og að vera kominn á toppinn á Everest. Þetta er einn sá mesti heiður sem hægt er að fá í tónlistarheiminum í dag,“ segir flautuleikarinn Stefán Ragnar Höskuldsson sem á dögunum var valinn í stöðu fyrsta flautuleikara í Fílharmóníusveit Berlínar. Er hann jafnframt fyrsti Íslendingurinn sem hlotnast sá heiður að vera ráðinn í hljómsveitina, sem er talin ein sú virtasta í heimi. „Þessi hljómsveit á sér sérstakan sess því það miðast allt við Berlínarfílharmóníuna. Kúltúrinn og gæðin, þetta er það besta sem hægt er að fá,“ segir hann uppnuminn.

Trúir þessu varla sjálfur

Að sögn Stefáns Ragnars var ferlið í kringum prufuspilið mjög taugatrekkjandi enda margir um hituna og samkeppnin því hörð.

„Þetta er eitt erfiðasta prufuspil sem hægt er að fara í en þar er farið í alla sauma. Þetta er það erfiðasta sem ég hef tekið þátt í á ævinni en það voru tugir flautuleikara í undanúrslitaumferðinni sem var á fimmtudegi. Það þurftu allir að standast ákveðin hæfniviðmið til að komast í lokaumferðina sem var daginn eftir en hópur fólks komst áfram í hana. Á þeim degi voru svo haldnar nokkrar umferðir sem fækkaði alltaf í en á þessum degi prufuspilaði ég samtals í sex klukkustundir. Þetta var geysilega hörð og erfið keppni svo þetta var alls ekki sjálfgefið. En ég komst í gegnum þetta allt saman og þetta var ótrúleg tilfinning. Ég trúi þessu varla sjálfur,“ segir hann og hlær.

Í prufuspilinu þurfti Stefán Ragnar að spila fyrir framan hljómsveitina sjálfa, sem telur 80-100 manns, en valið á sigurvegaranum fór þannig fram að allir félagar hljómsveitarinnar þurftu að vera sammála um hver hreppti stöðuna.

„Ég held að þetta hafi þurft að vera einróma kosning en að spila svona fyrir framan hljómsveitina var svolítið eins og að spila á tónleikum,“ segir hann til útskýringar. Sjálfur flutti Stefán Ragnar flautukonserta eftir Mozart og Reinecke auk búta úr hljómsveitarverkum hljómsveitarinnar en allir þátttakendur fengu nokkra konserta til að velja úr.

Langur og farsæll ferill

Stefán Ragnar á að baki langan og glæstan feril en hann hefur búið og starfað í Bandaríkjunum í um 20 ár. Þá gegndi hann stöðu sólóflautuleikara hjá Metropolitan-óperunni á árunum 2008 til 2016 en hefur síðustu ár starfað sem fyrsti flautuleikari Chicago-sinfóníunnar. Hyggst hann ljúka starfsárinu þar með hljómsveitinni áður en hann flyst búferlum til Berlínar með fjölskyldu sinni. Inntur í framhaldinu eftir því hver sé leiðin að slíkum árangri segir hann dugnað, elju og áhuga hafa skilað sér á þann stað sem hann sé kominn á í dag.

„Ég fékk ótrúlegan stuðning sem barn og unglingur í mínu námi. Foreldrar mínir studdu mig rosalega mikið og við pabbi ferðuðumst til að mynda frá Austfjörðum til Reykjavíkur í hverjum mánuði í nokkur ár, frá því ég var níu ára og þar til ég varð 16 ára og fluttist suður. Ég bjó á Reyðarfirði en er fæddur og að mestu uppalinn í Neskaupstað og fyrir austan var ekki boðið upp á sambærilega kennslu og í Reykjavík. Pabbi kom mér því að í tímum hjá Bernharði Wilkinsyni sem var þá í Sinfóníuhljómsveit Íslands en hann var minn lærifaðir,“ segir hann og bætir við að á þessum tíma hafi hann lært að standa á eigin fótum.

„Ég þurfti að leggja hart að mér en samt kom þetta á einhvern hátt svo náttúrulega til mín. Mér fannst alltaf svo gaman að læra og finnst það enn þann dag í dag.“

Væntanlegur til Íslands

Þó kemur Stefán Ragnar ekki til með að vera einn um stöðu fyrsta flautuleikara því hann deilir starfsárinu með svissneska flautuleikaranum Emmanuel Pahud, sem kom einmitt hingað til lands í september árið 2023 og spilaði konsertþrennu með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Eldborgarsal Hörpu. Segir Stefán Ragnar þetta fyrirkomulag hjá Berlínarfílharmóníunni veita sér ákveðið frelsi til að sinna eigin einleikaraferli en starf hljómsveitarinnar sé einmitt þannig uppbyggt að einleikarar geti spilað um allan heim.

Spurður í framhaldinu hvort við Íslendingar megum þá eiga von á því að hann komi fljótlega til landsins til að halda tónleika segir hann svo vera, en um átta ár eru síðan hann hélt síðast tónleika hér á landi.

„Það eru verkefni í gangi sem ég mun koma heim með mjög fljótlega,“ segir hann kíminn.

Stórt skref fyrir fjölskylduna

Stefán Ragnar er kvæntur fagottleikaranum Natalie Pilla og eiga þau tvö börn, fimm og átta ára. Segir hann flutningana fram undan stórt skref fyrir fjölskylduna en hann fái mikinn stuðning frá konunni sinni. „Hún er mjög spennt fyrir mína hönd og ég býst við að við flytjum í haust til Berlínar. Fyrstu viðbrögð barnanna minna voru að þau myndu sakna vina sinna en þau eru á þeim aldri að það verður eflaust ekkert mál fyrir þau að kynnast og læra á nýtt umhverfi svo ég held að þetta muni bara reddast af sjálfu sér,“ segir hann og hlær.

Inntur eftir því hvort það hafi kannski verið á dagskránni í einhvern tíma að skipta um umhverfi og flytja frá Bandaríkjunum viðurkennir Stefán Ragnar að hann hafi haft augastað á Berlínarfílharmóníunni í þó nokkurn tíma. „Þetta var búið að blunda í mér svolítið lengi en ég vissi þó ekki alveg út í hvað ég var að fara þegar ég sótti um að fara í prufuspilið. Ég spilaði reyndar sem gestaeinleikari með Berlínarfílharmóníunni um miðjan febrúar og það gekk rosalega vel. Ég fékk því mikla hvatningu til að koma í prufuspilið og ákvað að láta verða af því. Ég hef aldrei upplifað aðra eins tilfinningu og þegar ég spilaði með hljómsveitinni í þessum tónleikasal, sem er að mínu mati sá besti í heimi. Þetta var ótrúleg upplifun svo ég sagði við sjálfan mig að prufuspilið væri tækifæri sem ég gæti ekki látið fram hjá mér fara,“ segir hann og bætir við að það sé í raun og veru súrrealískt að vera svo allt í einu búinn að fá stöðu fyrsta flautuleikara hljómsveitarinnar.

Stoðir vestrænnar menningar

Þegar talið berst að muninum á rekstrarumhverfinu í kringum listastofnanir eins og sinfóníuhljómsveitir í Bandaríkjunum og Evrópu, þá sér í lagi í Þýskalandi, segir Stefán Ragnar hann einna helst liggja í stuðningi frá yfirvöldum.

„Menning og listir eru númer eitt, tvö og þrjú í landi eins og Þýskalandi. Ég veit að menning og listir eiga undir högg að sækja alls staðar um heiminn en þegar við tölum um stofnanir eins og Berlínarfílharmóníuna og fleiri lykilstofnanir í Evrópu, þessar stofnanir sem eru stoðir vestrænnar menningar, þá eru þær bæði vel metnar og í hávegum hafðar af þjóðfélaginu og ríkisstjórninni. Þannig umhverfi og andrúmsloft er einmitt eins og við viljum hafa það. Það á að styðja á þennan hátt við tónlistarmenn og listafólk sem á að fá þessa hvatningu frá þjóðfélaginu og sínum ríkisstjórnum. Listir og menning eru þjóðfélagið og fólkið. Ef ekki væri fyrir menningu og listir væri heimurinn bara plast,“ segir hann að lokum.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir