Ekki er séð hvernig ríkisstjórnin ætlar að tryggja 48 daga strandveiðar því ekki er gert ráð fyrir auknum kvóta eða tilfærslu innan gildandi stjórnkerfis um fiskveiðar. Núverandi kerfi tryggir sjálfbærni, hagkvæmni og tekjur til þjóðarbúsins með veiðigjöldum

Ekki er séð hvernig ríkisstjórnin ætlar að tryggja 48 daga strandveiðar því ekki er gert ráð fyrir auknum kvóta eða tilfærslu innan gildandi stjórnkerfis um fiskveiðar. Núverandi kerfi tryggir sjálfbærni, hagkvæmni og tekjur til þjóðarbúsins með veiðigjöldum. Þetta segir byggðaráð Skagafjarðar, sem í vikunni fjallaði um drög að breytingum á reglugerð. Þær lúta sem kunnugt er að verulegri fjölgun þeirra daga sem strandveiðisjómönnum verði heimilt að stunda veiðar.

Í bókun byggðarráðs Skagafjarðar er minnt á að launahlutfall sé verulega lægra í strandveiðum en í annarri sjósókn. Þetta hafi áhrif á afkomu sveitarfélaga, sérstaklega ef sjómenn búa ekki árið um kring á viðkomandi stað og hafa ekki lögheimili þar. Því styðji ráðið ekki aukið vægi strandveiða á kostnað fyrirtækja sem stunda veiðar og vinnslu og skapa störf og tekjur í heimabyggð, árið um kring.