Fjarðabyggð Höfnin á Mjóeyri.
Fjarðabyggð Höfnin á Mjóeyri. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Meta ætti að nýju hagkvæmni olíuleitar á Drekasvæðinu í ljósi þess að orkuskipti ganga hægar en gert var ráð fyrir. Þetta segir bæjarráð Fjarðabyggðar sem gerði bókun um þetta á fundi sínum fyrr í vikunni

Meta ætti að nýju hagkvæmni olíuleitar á Drekasvæðinu í ljósi þess að orkuskipti ganga hægar en gert var ráð fyrir. Þetta segir bæjarráð Fjarðabyggðar sem gerði bókun um þetta á fundi sínum fyrr í vikunni. Tiltekið er að breytt heimsmynd kalli á endurskoðun fyrri ákvarðana með tilliti til orku- og þjóðaröryggis. Birtist þetta ekki síst í því meðal annars að Noregur sé að auka olíu- og gasvinnslu og horfa til nýrra vinnslusvæða.

Áframhaldandi rannsóknir gætu, að mati bæjarráðs Fjarðabyggðar, skilað miklum ávinningi fyrir landið allt. Sérstaklega beri þó að horfa til þess að þetta yrði mikilvægt skref í að tryggja orkuöryggi landsins til framtíðar meðan lokið er við orkuskipti. Rafeldsneyti muni svo koma inn síðar sem nýr orkugjafi sem geri Ísland óháð öðrum ríkjum um eldsneytisframleiðslu.

Meirihluta bæjarráðs í Fjarðabyggð skipa fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Í minnihluta er Fjarðalistinn og sat fulltrúi hans hjá við afgreiðslu tillögunnar. „Mikilvægt er að Ísland tryggi orkuöryggi til framtíðar með stefnumótun sem tekur mið af sjálfbærum lausnum, orkuskiptum og langtímahagsmunum,“ sagði Stefán Þór Eysteinsson bæjarfulltrúi listans í bókun sinni.