Sigurður Guðmundsson fæddist í Reykjavík 10. maí 1957. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans 10. mars 2025 eftir stutt en erfið veikindi.
Foreldrar Sigurðar voru Guðmundur Jónsson vélfræðingur, f. 27.4. 1932, d. 3.2. 2025, og Jóna Gróa Sigurðardóttir, fv. borgarfulltrúi í Reykjavík, f. 18.3. 1935, d. 17.9. 2015.
Systkini Sigurðar eru Ingunn Guðlaug, framkvæmdastjóri og rekstrarhagfræðingur, f. 9.8. 1954; Helga, fjölmiðlafræðingur og flugfreyja, f. 10.8. 1958; Auður Björk, MBA, ráðgjafi og stjórnarkona, f. 15.8. 1966. Hálfbróðir samfeðra er Ívar Gissurarson bókaútgefandi, f. 23.4. 1953.
Börn Sigurðar og Lovísu Geirsdóttur leikskólakennara eru: Ísak tölvunarfræðingur, f. 24.6. 1984, og Aldís Gróa hjúkrunarfræðinemi, f. 10.9. 1992. Eiginkona Ísaks er Edda Arnaldsdóttir f. 7.4. 1988, bókasafns- og upplýsingafræðingur, og eiga þau dæturnar Sögu, f. 1.3. 2015, Sylvíu, f. 1.11. 2017, og Emmu, f. 22.10. 2022. Börn Aldísar Gróu og sambýlismanns hennar, Einars Hildarsonar iðnnema, f. 2.3. 1990, eru Guðný Líf, f. 14.2. 2016, og tvíburarnir Telma Lovísa og Sigurður Leó, f. 24.4. 2020.
Sambýliskona Sigurðar síðustu tvo áratugina er Guðný G. Ívarsdóttir, f. 30.1. 1956, viðskiptafræðingur, fyrrverandi sveitarstjóri í Kjósarhreppi og bóndi í Flekkudal í Kjós, f. 30.1. 1956. Hún er alin upp í Flekkudal af fósturforeldrum sínum eða „ömmu og afa“ eins og hún kallaði þau systkinin Guðnýju Ólafsdóttur, f. 17.6. 1902, d. 20.3. 1994, og Guðna Ólafsson, f. 10.9. 1908, d. 8.5. 1987. Sonur Guðnýjar úr fyrra sambandi er Jóhannes Björnsson húsasmíðameistari, f. 17.6. 1979. Kona hans er Petra Marteinsdóttir, f. 28.12. 1979, rekstrarstjóri, og eiga þau soninn Björn Mikkael, f. 20.2. 2009, en tvíburar Petru úr fyrra sambandi eru Böðvar Ingi og Brynjar Þór Eiðssynir, f. 12.5. 1997. Barnabörn Sigurðar og Guðnýjar eru níu talsins auk eins barnabarnabarns.
Sigurður gekk í Laugalækjarskóla, Réttarholtsskóla, Verzlunarskóla Íslands og lauk síðar námi í lögfræði frá Háskóla Íslands. Meðfram námi vann hann ýmis störf, m.a. hjá Tollvörugeymslunni og sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Lengst af starfaði hann sem sjálfstætt starfandi lögmaður og bóndi í Flekkudal í Kjós þar sem þau Guðný stunduðu m.a. hrossarækt, sauðfjárrækt og geitarækt.
Sigurður tók að sér ýmis ábyrgðarhlutverk í gegnum tíðina. Hann var meðal annars formaður hestamannafélagsins Adams í Kjós til nokkurra ára. Hann var í stjórn hestamannafélagsins Harðar í Mosfellsbæ, tók að sér nefndarstörf fyrir Landssamband hestamanna og var um tíma í framtalsnefnd Reykjavíkurborgar.
Þau Guðný og Sigurður hafa bæði lagt sitt af mörkum til samfélagsins í Kjósinni, hvort sem er í gegnum félagsstörf, sveitarstjórn eða lögmennsku, auk þess að stunda hrossarækt með eftirtektarverðum árangri.
Útför Sigurðar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 20. mars 2025, klukkan 13.
Elsku pabbi okkar hefur kvatt okkur eftir stutt en erfið veikindi. Pabbi var góðhjartaður maður sem vildi allt það besta fyrir okkur. Það var alltaf gott að leita til hans enda var hann einstaklega klár, skynsamur og traustur maður. Tónlistin var honum mjög kær og hann hafði áhrif á okkur bæði hvað það varðar. Pabbi hafði gaman af því að spila uppáhaldslögin sín á píanó af mikilli tilfinningu fyrir okkur þegar við vorum yngri, en við heyrum enn óminn af spilinu hans í minningunum okkar.
Pabbi bjó í Reykjavík allt þar til fyrir tæpum 20 árum þegar hann flutti í Flekkudal í Kjós. Við fengum að kynnast sveitinni í gegnum hann, fylgjast með hinum ýmsu störfum sem hann tók að sér í sveitinni, og sjá hvað hann undi sér vel þar. Barnabörnunum þótti gaman að heimsækja afa sinn í sveitina og fá að sjá dýrin og eigum við margar dýrmætar minningar frá þeim stundum.
Pabbi hafði mikinn áhuga á hrossarækt og sinnti því af mikilli ástríðu og fundum við hversu stoltur hann var þegar gekk vel í þeirri iðkun. Hann hafði gott lag á því að tengja saman fegurðina í hestunum og fólkinu sínu, og áttu hrósin hans til okkar oft uppruna sinn í heimi hestanna, enda var pabbi oft á tíðum hnyttinn og stutt í spaugið.
Við hefðum óskað þess að eiga fleiri stundir með honum og að hann gæti séð barnabörnin vaxa og dafna, en erum hins vegar þakklát fyrir að hafa verið hjá honum síðustu stundirnar og hann hafi fengið að sjá flottu barnabörnin sín, sem hann gaf sín síðustu bros.
Ísak og Aldís.
Mikið tekur það mig sárt að kveðja Sigga bróður minn langt fyrir aldur fram. Þetta gerðist svo hratt; ekki óraði mig fyrir því að við myndum ekki fá lengri tíma með honum. Ég get vart fundið orð til að lýsa því hversu mikið ég mun sakna hans.
Ég hef alla tíð leitað mikið til Sigga, en þó aldrei eins mikið og á síðari árum. Við Siggi töluðum reglulega saman enda hringdi ég til hans óhikað ef einhverjar spurningar sem snúa að atvinnurekstri, lögfræðilegum málefnum eða öðru því tengdu komu upp í hugann. Siggi var fljótur að svara, hugsaði rökrétt, var réttsýnn og klár. Hann var fljótur að greina kjarnann frá hisminu og einblína á aðalatriðin í flóknum málum. Alltaf reyndist hann mér vel þegar ég leitaði til hans.
Siggi var einstaklega bóngóður og vildi allt fyrir alla gera. Hann hugsaði meira um hag annarra en sín sjálfs og átti oft erfitt með að innheimta laun fyrir vinnu sína. Hann rukkaði seint, oft lítið og stundum ekki – þannig vildi hann bara hafa það. Siggi var fær og góður lögmaður. Hann gerði hlutina af hugsjón og var ekki drifinn áfram af peningum og hagnaði.
Ég er svo óendanlega þakklát fyrir þær dýrmætu stundir sem við Siggi áttum saman síðastliðið haust í Laxá í Kjós. Siggi og Guðný buðu mér í bændaveiðina með öðrum landeigendum þar sem Haraldur Eiríksson, leigutaki árinnar, tók á móti okkur og veitti góða leiðsögn. Að veiða er eitt það skemmtilegasta sem ég geri. Þennan dag voru aðstæður þó ekki upp á marga fiska, það var skítakuldi og hellirigning. Eftir á að hyggja þá var það algjört aukaatriði hvort við veiddum fisk eða ekki. Það sem í raun skiptir máli var þessi samvera, Siggi bróðir minn og ég. Við áttum þarna dýrmætar og eftirminnilegar gæðastundir saman þar sem við spjölluðum ekki bara um veiðina heldur líka um lífið og tilveruna.
Siggi fór sínar eigin leiðir í lífinu. Gerði það sem hann langaði til, klæddist því sem honum fannst þægilegt að vera í og fékk sér það sem hann langaði í. Hann elskaði sveitina sína, Flekkudalinn og Kjósina, og hvergi leið honum betur en þar, með Guðnýju sinni, umkringdur hestum, dýrum og góðu fólki.
Stoltastur var Siggi af börnunum sínum, Ísaki og Aldísi Gróu, og öllum barnabörnum þeirra Guðnýjar en þau eru nú orðin níu talsins auk eins barnabarnabarns. Dýrin í Flekkudal voru honum einnig afar kær og er ég ekki frá því að stoltastur hafi hann verið af verðlaunahesti þeirra Guðnýjar, Sólbjarti frá Flekkudal. Hann gat endalaust talað um hann.
Siggi var mér svo afar kær. Það er mér ómetanlegt að hafa átt hann að. Takk fyrir allt og allt elsku bróðir minn. Minningin lifir í hjarta mér.
Þín systir,
Auður Björk
Guðmundsdóttir.
Elskulegur bróðir minn.
Mikið finnst mér vont að sitja hér og skrifa um þig minningarorð en minningarorð eiga að vera um þá sem eru fallnir frá í þessu lífi en það hefur einfaldlega ekki síast inn hjá mér og mun það taka sinn tíma að átta sig á að þú sért farinn í sumarlandið.
Við Siggi erum fædd hvort á sínu árinu og vorum því mikið saman sem börn og fylgdumst að í skólagöngu fram yfir stúdentspróf. Ekki get ég sagt að við höfum á unglingsárunum verið einstakir vinir en Sigga fannst ég horuð, frekar leiðinleg og með of stórar framtennur. Hann hafði ekki mikinn áhuga á samskiptum við mig en ég var árinu yngri en hann. Eftir því sem við urðum eldri breyttist viðmót okkar beggja úr stríðni og hrekkjalómahætti í meiri væntumþykju og umburðarlyndi.
Fyrstu búskaparárin birtist væntumþykja þín til mín í símhringingum á öllum tímum sólarhringsins þar sem þú tjáðir mér hversu vænt þér þætti um mig og hversu mikið þú elskaðir mig sem systur og reyndar alla fjölskyldu mína – ég elskaði þig líka mikið sem bróður en lagði ekki á mig að hringja í þig til að segja þér það sama – nú sé ég eftir því!
Kostir þínir, elsku bróðir minn, voru svo miklu fleiri en gallarnir, þú varst alltaf boðinn og búinn að aðstoða mig og mína með hvað sem var og aldrei vildir þú greiðslu fyrir og varð maður þá að finna einhverja aðra leið til að launa til baka. Þú varst einstakt ljúfmenni og góðmenni við dýr og menn.
Börn mín og barnabörn hafa lagt sína leið í Flekkudal til Sigga og Guðnýjar á hverju vori til að sjá nýju lömbin fæðast og ávallt var okkur tekið opnum örmum. Ávallt spurði Siggi um börnin mín og fylgdist sérstaklega með Aroni mínum í fótboltanum og var ákaflega stoltur af frænda sínum.
Hann elskaði Flekkudalinn og að vera bóndi með Guðnýju og sýsla með hesta, kindur, geitur og hænur; hann var kominn á þann stað sem hann langaði mest að vera á – hann var kominn heim. Hann lét okkur vita að þar myndi hann vilja hvíla – í sveitinni þeirra.
Hjartans elsku besti bróðir,
brosandi með þelið hlýja,
oft þú fórst um fjallaslóðir,
finna vildir staði nýja.
Nú í skjólin flest er fokið,
flæða úr augum heitu tárin,
fyrst að þinni leið er lokið,
lengi brenna hjartasárin.
Minning þín er mikils virði,
mun um síðir þrautir lina,
alltaf vildir bæta byrði,
bæði skyldmenna og vina.
Nú er ferð í hærri heima,
heldur burt úr jarðvist þinni,
þig við biðjum guð að geyma,
gæta þín í eilífðinni.
(Björn Þorsteinsson)
Elsku bróðir minn það er svo sárt að kveðja þig – andlát þitt var svo óvænt og erfitt að missa þig. Faðir okkar kvaddi fyrir rétt rúmum mánuði og þakka ég að hann hafi fengið hvíldina á undan þér, annað hefði orðið honum óbærilegt.
Elsku Guðný, Ísak, Aldís og fjölskyldur, missir ykkar er mikill og megi minning Sigga verða ljósið í lífi ykkar.
Þín systir,
Helga.
Það er ekki liðinn nema um einn og hálfur mánuður síðan Siggi bróðir minn hringdi í mig til að tilkynna mér lát föður okkar, sem við fylgdum svo til grafar þann 13. febrúar síðastliðinn. Í erfidrykkju að útför lokinni hvarflaði ekki að mér að þetta yrði í síðasta skipti sem ég hitti Sigga á lífi. Hann greindi mér að vísu frá því að hann hefði verið eitthvað slæmur til heilsunnar upp á síðkastið, en fór ekkert nánar út í það. Í símtali sem við áttum nokkrum dögum síðar tjáði hann mér að læknisrannsókn hefði ekki komið vel út. Nú væri bara að ná sér af veikindunum sem allra fyrst. Það var því eins og jafnan baráttuhugur í bróður mínum, sem bar sig alltaf vel, sama hvað á bjátaði. En örlaganornirnar höfðu spunnið sinn vef og óveðursskýin hrönnuðust upp. Alvarleiki veikindanna reyndist meiri en nokkurn hafði grunað og þann 10. mars féll hann frá.
Við bræðurnir nutum ekki æskuáranna saman. Ástæður þess verða ekki raktar hér en rétt faðerni mitt var mér með öllu hulið fram undir tvítugt. Það var þó ekki fyrr en allnokkrum árum síðar sem ég rakst fyrir tilviljun í fyrsta sinn á Sigga. Það er mér eftirminnileg stund og upp úr því hittumst við Siggi reglulega og vináttan styrktist jafnt og þétt. Svo leiddi eitt af öðru og kynni mín við föðurfjölskylduna hófust fyrir alvöru, einkum og sér í lagi fyrir tilstuðlan Sigga. Það var hann sem kom því til leiðar að ég kynntist föður mínum, hans góðu konu og þremur systrum, og fyrir það verð ég honum ævinlega þakklátur.
Að loknu laganámi við Háskóla Íslands hóf Siggi rekstur sem sjálfstætt starfandi lögmaður. Hann var afbragðs alhliða lögmaður. Leysti jafnan skjótt og vel úr vanda þeirra sem til hans leituðu og þótti góður málflytjandi. Það var helst við innheimtu sem honum fataðist flugið. Að verðleggja sjálfan sig rétt eða innheimta skuldir var ekki beint hans sterkasta hlið. Hann var allt of góðhjartaður til að ganga hart fram í slíkum málum. Samhliða lögfræðistörfunum sá hann svo einnig með miklum ágætum um skattaskil fyrir bæði fyrirtæki og einstaklinga.
Lítils háttar hestamennsku hafði Siggi stundað áður en hann tók saman við konu sína, Guðnýju Ívarsdóttur, og hóf búskap með henni í Flekkudal. Þá varð hestamennskan sífellt ríkari þáttur í lífi bróður míns auk margvíslegra bústarfa sem til féllu í Flekkudal. Þar var ekki aðeins búið með hesta, heldur einnig sauðfé og geitur. Það fór ekki á milli mála að Sigga leið vel í sveitinni og var hrein unun að spígspora með honum þarna í Kjósinni og heyra hann lýsa því sem fyrir augu bar á landareigninni og framtíðarverkefnum þar. Búskapurinn á þessum fagra stað við Meðalfellsvatn veitti honum greinilega ómælda lífsfyllingu.
Í dag er ég hryggur og hugsa til konu hans og barna sem hann elskaði svo heitt. Missir þeirra er mikill en megi góðar minningar gera söknuðinn léttbærari.
Hvíl í friði kæri bróðir og blessuð sé minning þín.
Ívar Gissurarson.
Sigurður bróðir minn féll frá 10. mars síðastliðinn eftir stutt en erfið veikindi. Það er sárt að kveðja „litla“ bróður sinn, sem mér finnst að hafi verið kominn á þann stað í lífinu að geta notið sælunnar í sveitinni sem honum þótti svo vænt um.
Sigurður fæddist þremur árum á eftir mér þann 10. maí 1957. Ég fékk fljótt það hlutverk að passa Sigga og systur mína Helgu (f. 1958) en yngsta systirin, Auður Björk, fæddist 1966. Foreldrar okkar eru Guðmundur Jónsson vélfræðingur og Jóna Gróa Sigurðardóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi í Reykjavík. Síðar eignuðumst við óvænt hálfbróður, Ívar Gissurarson (f. 1953), sem bættist í systkinahópinn.
Siggi var óvenju ljúfur og góður bróðir og fékk ég stóra systir oftast að stjórna leikjum og för. Siggi fékk að heimsækja mig í sveit á Leirulæk á Mýrum, en hann fór síðar á unglingsárum í sveit á Þúfu í Kjós. Á þúfu leið honum vel og talaði oft um þann draum sinnað verða bóndi í sveit. Sá draumur rættist þegar Siggi ásamt sambýliskonu sinni, Guðnýju Ívarsdóttur, eignaðist æskuheimili Guðnýjar Flekkudal í Kjós. Guðný var ábúandi á jörðinni og ræktaði m.a. sauðfé, geitur og hross. Siggi hafði óbilandi áhuga á hrossarækt og í Flekkudal var stunduð árangursrík hrossarækt sem hefur vakið verðskuldaða athygli.
Á unglingsárum ákvað hann að láta ekki „ofríki“ kvennahópsins á heimilinu stjórna sínu lífi og fór oft vel út fyrir þann ramma sem okkur hinum þótti við hæfi. Siggi reykti, þótti sopinn góður, og setti engin mörk á hvenær sólarhringsins honum þóknaðist að hringja … bara til að segja hvað honum þótti vænt um okkur. Siggi var vanur að fara sínar leiðir.
Siggi var vel lesinn, víðsýnn og greindur og hafði einstaklega góða eiginleika til að leggja mat á hluti og málefni, enda leituðu margir ráða hjá honum. Hann var lögmaður en vann á námsárum sínum við bókhald og uppgjör sem nýttist honum vel í þeim verkefnum sem hann vann við ásamt lögmannsstörfum.
Siggi hafði mikla ánægju af að tefla og spila brids. Ég man þegar þeir vinirnir í Fossvoginum voru í Búlandinu, æskuheimili okkar, og tefldu og spiluðu langt fram á nótt.
Eftir að ég flutti til Íslands eftir um 20 ára dvöl erlendis vildi Siggi ólmur fá mig með sér í hestamennsku. Hann gaf mér hestinn Ísar sem var undan Skugga fyrsta hestinum hans. Síðan gaf hann mér annan hest þegar ég varð fimmtug, Starra, sem var einnig úr hans ræktun. Saman vorum við í hesthúsi sem hann átti með öðrum í „Heimsenda“ og lærði ég heilmikið af honum og áttum við margar ógleymanlegar stundir saman í hestamennskunni.
Eftir að ég kynntist Magnúsi Andréssyni hestabónda og hóf sambúð með honum 2008 tókst með þeim Sigga traust vinátta og áttu þeir í nær daglegum samskiptum sem oft tengdust ástríðu þeirra fyrir íslenska hestinum.
Elsku bróðir minn, þín er sárt saknað, en minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð í hjörtum okkar fjölskyldunnar sem þótti óendanlega vænt um þig. Hugur okkar er hjá börnum þínum og barnabörnum.
Þín stóra systir,
Ingunn G. Guðmundsdóttir.
Siggi frændi okkar hefur ætíð verið máttarstólpinn í familíunni og allir hafa alltaf getað leitað til hans með sín mál þegar um er að ræða lögfræði-, endurskoðunar-, skattskýrslumál eða bara einfaldlega að tala um hesta eða fótbolta. Hann var okkur mikill og góður frændi og kveðjum við hann í dag og eigum eftir að sakna hans um ókomna tíð.
Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.
Drottinn minn faðir lífsins ljós
lát náð þína skína svo blíða.
Minn styrkur þú ert mín lífsins rós
tak burt minn myrka kvíða.
Þú vekur hann með sól að morgni.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)
Elsku Ísak, Aldís Gróa, Guðný og fjölskyldur, hjartans samúð til ykkar allra.
Svana, Heba, Aron og fjölskyldur.
Elsku Siggi mágur minn.
Það er þyngra en tárum taki að setjast niður og skrifa minningarorð til þín. Er við vorum að kveðja pabba þinn 13. febrúar sl. þá gerði maður sér engan veginn grein fyrir því hversu veikur þú varst orðinn og nú þurfum við að mæta því að kveðja þig. Hjarta mitt er brotið en það er líka fullt af ást og hlýju fyrir alla þá hjálp og aðstoð sem þú veittir mér og minni fjölskyldu.
Börnin okkar Helgu og barnabörn eiga margar góðar minningar af heimsóknum í Flekkudal til ykkar Guðnýjar til að sjá nýfædd lömb, geitur og folöld á hverju vori. Þau muna þær ferðir og tala enn um dýrin og traktorana sem þau fengu að sitja og þykjast keyra í sveitinni.
Þú varst ekki bara mágur minn heldur einnig vinur. Þú skilur eftir þig ógleymanlega minningu og hafðir áhrif á líf þeirra sem þig þekktu. Þú varst maður með stórt hjarta, gott skopskyn og ávallt til í að aðstoða og hjálpa. Þú verður í hjörtum okkar að eilífu og við munum alltaf minnast þín með ást, virðingu og þakklæti.
Elsku Guðný, Ísak, Aldís, systkini og fjölskyldur, megi Guð gefa ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.
Hvíl í friði Siggi mágur.
Jóhann Gíslason.
Siggi frændi, eins og hann var alltaf kallaður, góður vinur fjölskyldunnar, er fallinn frá allt of ungur eftir stutt en alvarleg veikindi.
Við Siggi frændi hittumst oft á árum áður því góður vinskapur og mikill samgangur var á milli fjölskyldna okkar þegar við vorum ungir. Hann var frændrækinn með afbrigðum og stoltur af sínu fólki. Þegar hann nefndi t.d. nafn systkina sinna bætti hann alltaf við systir mín eða bróðir minn. Hann hafði gaman af því að tala um gamla tíma. Rifjaði hann oft upp ferðir okkar í Sundhöllina. Þar kenndi ég honum að stinga sér af háa brettinu sem hann var mikið stoltur af að geta.
Árið 1987 hófum við báðir hestamennsku og skráðum okkur í Hestamannafélagið Fák. Markmið okkar var að komast út í náttúruna á sumrin í hestaferðir. Sumarið byrjaði með sleppitúrum úr Reykjavík austur í Rangárvallasýslu. Þá var eins gott að hafa þjálfað hestana yfir veturinn. Eftir brasið í hesthúsinu kom hann oft með heim til okkar í Garðabæ í kvöldmat og tókum við þá nokkrar skákir. Ákafinn var mikill í skákinni, báðir með mikið keppnisskap og tapsárir. Var það lélegt kvöld ef við tókum ekki 60 skáka einvígi á klukku. Sá sem tapaði hvatti til næsta einvígis til að jafna málin.
Siggi var menntaður lögfræðingur og góður á því sviði. Nutum við fjölskyldan oft leiðbeininga hans við ýmis verkefni. Var hann glöggur og snjall lögmaður. En hann var ekki síður bóndi í sér. Þegar hann kynnist Guðnýju sambýliskonu sinni í Flekkudal þá naut hann sín vel í sveitinni. Sveitalífið og dýrahald urðu hans stóra áhugamál og atvinna. Áttu þau mjög góða gæðinga og er Flekkudalur sterkt ræktunarbú.
Hann vildi vinna sveitarfélaginu sínu vel, var mikill félagsmálamaður og tók þátt í félagsstarfi þar. Það munaði um hann Sigga þar sem hann var í slíku starfi.
En augasteinarnir hans voru börnin hans, Ísak og Aldís, og barnabörnin. Hann var stoltur af þeim, sagði þau góðar manneskjur. Það var honum mikilvægt.
Við sendum þeim öllum og systkinum hans og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur á erfiðum tímum.
Siggi frændi var drengur góður. Minning hans lifir og margir munu sakna hans.
Hvíl í friði kæri frændi.
Matthías og Margrét.
Vinátta okkar Sigga hófst í lagadeild HÍ þar sem lögðum báðir stund á lögfræði. Það er svo löngu síðar að ég fer að rekast á Sigga í hestamennskunni í hesthúsahverfi sem er kennt við Heimsenda, þar sem við héldum báðir hesta á húsi um tíma. En vináttan tók stórt stökk þegar hann hóf sambúð með Guðnýju í Flekkudal og tók að sinna hestamennsku í Kjósinni. Hestakonuna Guðnýju hafði ég þekkt frá því ég var unglingur í Kjósinni. Það var mikill liðsstyrkur fyrir hestamenn í Kjósinni að fá Sigga í stjórn hestamannafélagsins Adams þar sem hann lét mikið til sín taka, bæði við reiðvegagerð, hrossarækt, folaldasýningar og fleira.
En Siggi hafði skilning á því að starfið í Adam þyrfti að vera skemmtilegt. Lögðu hann og Guðný mikið á sig í því sambandi og segja má að flestir skemmtireiðtúrar á vegum Adams hafi endað í Flekkudal, þar sem ávallt var slegið upp veislu. Til góðs vinar liggja gagnvegir segir í Hávamálum. Á hverju sumri nú um margra ára skeið hefur það verið fastur liður í sumarútreiðum okkar hjóna að sækja heim vini okkar Sigurð og Guðnýju í Flekkudal. Móttökur þar voru alltaf höfðinglegar og iðulega til brjóstbirta í gömlu hlöðunni þar sem gott var að koma hvort sem við vorum bara tvö á ferð eða í stærri hóp.
Heimsókn í Flekkudal síðasta sumar verður sérstaklega dýrmæt í minningunni. Þá vorum við hjónin að leggja upp í hestaferð í Borgarfjörð ásamt nokkrum vinum. Siggi tók ekki annað í mál en að við myndum koma við í Flekkudal og þiggja veitingar og þá meinti hann að við gæfum okkur góðan tíma og værum ekki að flýta okkur. Við komum í Flekkudal í blíðskaparveðri en þegar við höfðum sprett af hestunum gerði slíkt úrhelli að vart heyrðist mannsins mál í hlöðunni. Mundu menn ekki eftir öðru eins. Sigurður hafði hóað saman nokkrum sveitungum og Adamsfélögum af þessu tilefni og úr varð gleðifundur.
Það sem tengdi okkur Sigga öðru fremur saman var einlægur áhugi á hrossarækt og þá ekki síst hrossum út af stóðhestinum Adam frá Meðalfelli sem hestamannafélagið Adam er nefnt eftir. En heiðursverðlaunahryssan Pyttla frá Flekkudal var einmitt undan Adam og hafa Sigurður og Guðný ræktað mörg eftirtektarverð gæðingshross undan þeirri hryssu og afkomendum hennar.
Ótímabært fráfall Sigurðar er mikill missir fyrir hestamenn í Kjósinni. Sigurður hafði einstaklega góða og þægilega nærveru. Við minnumst margra ánægjustunda að sitja með Sigga og spjalla um lífið og tilveruna í gömlu hlöðunni í Flekkudal eða á öðrum samverustundum. Síðustu samskiptin við Sigga voru símtal frá Auði systur hans þar sem hann vildi senda okkur Áslaugu baráttukveðjur í formannskosningunni á landsfundinum en þá voru veikindin farin að herja á hann. Þegar hugsað er til Sigga sem nú hefur kvatt okkur allt of snemma koma í hugann ljóðlínur úr ljóðinu Fákar eftir Einar Benediktsson.
Menn og hestar á hásumardegi,
í hóp á þráðbeinum skínandi vegi,
með nesti við bogann og bikar með.
Betra á dauðlegi heimurinn eigi.
Við minnumst Sigga með mikilli hlýju, gleði og sérstöku þakklæti fyrir vináttuna.
Sigurbjörn Magnússon og Hlíf Sturludóttir.