Baksvið
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Fyrsta skemmtiferðaskip ársins er væntanlegt til Reykjavíkur í dag.
Þar með er ekki sagt að sumarvertíð farþegaskipa/skemmtiferðaskipa sé hafin því næsta skip er ekki væntanlegt til Reykjavíkur fyrr en 1. maí. Því mun ekkert skip koma til höfuðborgarinnar í apríl. Fimm skipakomur voru til Reykjavíkur í apríl í fyrra.
Skipið sem kemur í dag er franskt, gert út af Ponant-skipafélaginu og heitir Le Commandant Charcot. Samkvæmt áætlun á það að leggjast að Skarfabakka í Sundahöfn klukkan 17 síðdegis í dag en tímaáætlanir geta breyst.
Skipið er 31.283 brúttótonn að stærð. Það tekur 250 farþega og í áhöfn eru 235 manns.
Skipið var að koma frá Grænlandi og heldur þangað á ný á morgun með nýja farþega.
Gasskip til landsins
Le Commandant Charcot er knúið fljótandi LNG-gasi. Sérstakt gasflutningaskip, Coralius, er væntanlegt til Reykjavíkur í dag og verður gasi dælt yfir í farþegaskipið. Nokkur skipafélög hafa tekið LNG (Liquified Natural Gas) upp sem orkugjafa í stað olíu.
Fyrsta skip sumarsins fyllir flokk minni skemmtiferðaskipa sem hingað sigla. Fyrsta stóra skemmtiferðaskipið er væntanlegt 1. maí. Það heitir Norwegian Pearl og er 93.530 brúttótonn. Farþegafjöldi getur mestur orðið 2.394 og í áhöfn eru 1.100 manns.
Fjöldi skipakoma verður í maí og smám saman fer þeim fjölgandi eftir því sem líður á sumarið. Mesta annríkið verður í júlí og ágúst og þá verður oft ys og þys í Sundahöfn enda skipta ferþegar skemmtiferðaskipanna þúsundum suma dagana. Síðasta skipið er bókað 27. október.
Samkvæmt upplýsingum Sigurðar Jökuls Ólafssonar, markaðsstjóra Faxaflóahafna og formanns samtakanna Cruise Iceland, stefnir í að skipakomur til Reykjavíkur þetta sumarið verði færri en í fyrra. Samkvæmt bókunarstöðunni 13. febrúar sl. eru 237 komur farþegaskipa/skemmtiferðaskipa bókaðar í sumar. Í fyrrasumar voru skipakomur 259 og farþegafjöldinn alls 321.966. Búast má við að farþegar verði eitthvað færri í sumar.
Samkvæmt upplýsingum Sigurðar Jökuls fækkar minni skipum, svokölluðum leiðangursskipum, meira en stærri skipum. Skipakomur leiðangursskipa í sumar til Reykjavíkur eru bókaðar 107 en voru 127 í fyrra. Komum stærri skipa fækkar um tvær.
Þegar hins vegar er litið til bókunarstöðunnar fyrir árið 2026 virðist komum stærri skemmtiferðaskipa fækka til muna. En margt getur breyst áður en árið 2026 gengur í garð.
Útlit er fyrir að skiptifarþegum fjölgi í sumar frá því í fyrra. Er þá átt við farþega sem koma til Keflavíkurflugvallar með flugi og fara um borð í skipin í Reykjavík. Þeir stíga svo frá borði í Reykjavík að siglingu lokinni og halda til síns heima með flugi.
Leiðangursskipin taka við nýjum gestum í Reykjavík og sigla svo hringinn í kringum Ísland og til Grænlands, Svalbarða og Færeyja.
Í einhverjum tilvikum lýkur ferðinni í Noregi eða annars staðar, en mjög oft snúa skipin aftur til Reykjavíkur og ferðinni lýkur þar. Þessi skip koma flest margoft til Reykjavíkur yfir sumarið.
Leiðangursskipin koma við í mörgum höfnum á Íslandi og fylgja þessum heimsóknum mikil viðskipti fyrir heimamenn. Stundum eru mörg skip í höfn samtímis, t.d. á Ísafirði og Akureyri.
Fækkun leiðangursskipa hefur því umtalsverð áhrif á tekjur hafna á landsbyggðinni sem og heimamanna.
Ýmsar ástæður eru fyrir fækkun á komum skemmtiferðaskipa að sögn Sigurðar Jökuls. Óvissa hefur verið með afnám tollfrelsis skipa í hringsiglingum, gistináttagjald var sett á fyrra með stuttum fyrirvara og svo loks hafi nýtt innviðagjald verið sett á með enn styttri fyrirvara.
Óvissan er mikil
Allt þetta hefur skapað mikla óvissu sem gerir það að verkum að skipafélögin eiga erfitt með að skipuleggja sig fram í tímann varðandi áfangastaðinn Ísland,“ segir Sigurður.
Fulltrúar íslenskra hafna og erlendra skipafélaga áttu á dögunum fund með Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra. Ráðherra hafi kallað eftir gögnum sem sýni að verið sé að skoða málið gaumgæfilega.
„Skipafélögin reikna með að endanleg útfærsla skýrist í þessum mánuði,“ segir Sigurður.