Pálína Gísladóttir fæddist í Reykjavík 19. júní 1938. Hún lést á Hrafnistu Hlévangi 11. mars 2025.
Foreldrar hennar voru Sigurrós Scheving Hallgrímsdóttir, f. 17. júlí 1908, d. 3. mars 1983 og Gísli Guðmundsson, f. 20. mars 1903, d. 10. janúar 1983.
Systir Pálínu var Ingibjörg, f. 10. september 1934, d. 7. desember 2009.
Þann 20. júlí 1963 giftist Pálína Sigurgeiri Njarðari Kristjánssyni, f. 20. júní 1937, d. 28. janúar 2024. Foreldrar hans voru Guðmundína Ingvarsdóttir, f. 21. ágúst 1909, d. 11. september 2005, og Kristján Árni Guðmundsson, f. 7. júlí 1906, d. 1. júlí 1977.
Dóttir Pálínu og Sigurgeirs er Linda Sigurgeirsdóttir, f. 1966. Eiginmaður hennar er Ármann Jóhannsson. Dætur þeirra eru Íris Björk og Eydís Rós. Þau eiga tvö barnabörn, Amalie Rós og Frosta Þór.
Pálína og Sigurgeir hófu búskap sinn í Ytri-Njarðvík, búseta þeirra skiptist á milli Njarðvíkur og Hafnarfjarðar, árin urðu um 40 í Njarðvík og um 20 í Hafnarfirði. Árið 2020 fluttu þau aftur til Njarðvíkur.
Pálína vann hin ýmsu störf sem ung kona i Hafnarfirði, m.a. í Rafha og við fiskvinnslu. Þegar Pálína flutti í Njarðvíkurnar 1962 hóf hún störf á skrifstofu Njarðvíkurhrepps. 1972 fór hún að vinna hjá Bæjarfógetanum í Hafnarfirði. 1980 hóf hún störf hjá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og starfaði þar í rúm 25 ár eða þar til hún fór á eftirlaun.
Útför Pálínu fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 20. mars 2025, klukkan 13.
Með miklum söknuði og djúpu þakklæti kveðjum við okkar kæru Pálínu Gísladóttur. Pálína var hæglát og vönduð kona sem bar með sér rósemi og virðingu. Hún var snögg í hreyfingum og alltaf reiðubúin að láta hlutina gerast – látlaus en öflug í verkum sínum og nærveru.
Hún var mikil fagurkeri og það endurspeglaðist ekki aðeins á heimilinu heldur einnig í klæðaburði hennar, sem var alltaf smekklegur og til fyrirmyndar. Hún kunni að velja fallega hluti og klæddi sig af mikilli smekkvísi, hvort sem var í hversdagsleikanum eða við hátíðleg tilefni.
Heimili hennar og Sigurgeirs bar af í snyrtimennsku, þar sem fagurfræði og hlýja réðu ríkjum. Þau Palla og Geiri voru óaðskiljanleg og ávallt nefnd saman. Þau voru sem einn – samstiga í lífinu og styrktu hvort annað í hvívetna. Það var fallegt að sjá hvernig þau tóku sameiginlegar ákvarðanir og deildu gleði og ábyrgð í hinu daglega lífi.
Ferðir til sólarlanda voru einnig órjúfanlegur hluti af þeirra lífsstíl. Slíkar ferðir voru þeim ómissandi – þau nutu þess að ferðast saman og sólin og ylurinn voru þeim kærkomin hvíld og endurnæring. Úti í heimi fundu þau nýja staði, nýja stemningu, en alltaf var það félagsskapurinn þeirra á milli sem skipti mestu. Þau bjuggu til ómetanlegar minningar sem endurspegluðu þeirra djúpu tengsl og lífsgleði.
Pálína var kona sem lét ekki mikið yfir sig ganga, en þeir sem þekktu hana fundu fyrir traustri nærveru hennar og umhyggju. Hún var verkleg, ákveðin og hlý – kona sem bar með sér yfirvegun og styrk, bæði í smáu og stóru.
Við kveðjum Pálínu með miklu þakklæti og hlýju í hjarta, minningar um samverustundir lifa áfram og eftir situr sú dýrmæta arfleifð sem hún skildi eftir sig í lífi okkar allra.
Hvíldu í friði, elsku Palla.
Viðar og Sigríður (Sigga).
Elsku amma.
Nú ert þú komin til afa, hann hefur verið að bíða eftir þér. Við trúum því að þið séuð nú sameinuð að nýju og eftir sitja fallegar minningar hjá okkur systrum. Við systurnar eigum það sameiginlegt að okkar fyrstu minningar um þig eru frá því þegar þið afi bjugguð á Holtsgötunni. Við fundum alltaf mikla hlýju og ást heima hjá ykkur. Það er okkur minnisstætt þegar við komum til ykkar í pössun, sérstaklega næturpössun. Allt var leyfilegt, Íris fékk að hlaupa um húsið og hoppa á milli húsgagna með slæðurnar þínar sem skikkju, hún þóttist nefnilega vera superman og Eydís fékk að smakka matarkex dýpt í kaffi þó hún væri bara smábarn. Þó allt væri leyfilegt, þá var samt ein regla, það var að fara með bænirnar áður en við fórum að sofa. Okkur þykir afar vænt um þá minningu í dag.
Þú varst alltaf algjör pæja. Það var þér mikilvægt að vera ávallt vel tilhöfð. Þú fórst til dæmis aldrei út úr húsi nema með varalit og þú varst alltaf með naglalakk. Þú pældir mikið í tískunni og við dýrkuðum að fara í verslunarferðir með þér, sem við gerðum jú reglulega. Þú hefur tvímælalaust átt hlut í því að móta tískuáhuga okkar systra.
Þú naust þess að gefa gjafir og var gjafmildi þín mikil. Við fengum alltaf veglegar afmælisgjafir, jólagjafir, gjafir þegar þið afi komuð heim frá útlöndum og alltaf var einhverju laumað að okkur þegar við fórum í verslunarferðir saman.
Þú varst ekki bara aðalpæjuamman, heldur bakaðir þú líka langbestu pönnsurnar og kleinurnar. Það var einfaldlega bara langbest að koma í kaffi til ömmu og afa. Alltaf tókstu vel á móti Eydísi og vinkonum hennar þegar við mættum óvænt heim til ykkar og báðum þig um að baka pönnsur fyrir okkur.
Það var ætíð gaman að koma til ykkar í sveitina, þar sem þið voruð búin að koma fyrir flotta hjólhýsinu ykkar og gera svo fallegt umhverfi í kring en líka nóg pláss til að pútta smá. Þú klikkaðir aldrei á veitingunum í sveitinni, og oft var skellt í gómsætar vöfflur.
Það er ekki sjálfgefið að eignast vinkonu í ömmu sinni þegar komið er á fullorðinsár. En við systur erum svo heppnar að hafa gert það. Ég, Íris, er svo þakklát fyrir ómetanlegan stuðning sem ég fékk frá ykkur afa á háskólaárunum, og öll kvöldin heima hjá ykkur á Herjólfsgötunni, þar sem þú og ég töluðum oft út í eitt um allt milli himins og jarðar.
Hvíldu í friði elsku amma okkar, við söknum þín. Takk fyrir allt, og eins og þú sagðir alltaf, we love you all.
Þínar ömmustelpur,
Íris Björk og Eydís Rós.