Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
„Þetta er bara blekkingarleikur og verið er að drepa málinu á dreif. Byggingarfulltrúinn afturkallaði byggingarleyfið fyrir kjötvinnsluna sem varð til þess að úrskurðarnefndin vísaði stjórnsýslukærunni frá. Á meðan er svo haldið áfram af fullum krafti við að klára húsið.“
Þetta segir Kristján Hálfdánarson, formaður húsfélagsins að Árskógum 7, sem barist hefur fyrir því ásamt Búseta að framkvæmdin við Álfabakka 2 verði stöðvuð.
Fyrirspurn Eignabyggðar um hvort kjötvinnslan í húsinu eigi að fara í umhverfismat var kynnt í Skipulagsgátt í gær. Íbúar í Árskógum hafa fylgst með því að verið sé að klára húsið eftir að stjórnsýslukæru Búseta var vísað frá í úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
„Við ætlum ekki að láta valta yfir okkur og teljum að það sé vísvitandi verið að blekkja til að þröngva þessu húsi niður á stað þar sem það á alls ekki heima.“
Hann segir að íbúarnir hafi verið blekktir á öllum stigum þessarar framkvæmdar.
„Fyrst þegar deiliskipulagið var auglýst, þar sem auglýsingin var beinlínis falin. Síðan var það fullyrt við okkur af byggingarfulltrúa að hæðin á húsinu yrði aldrei meira en ein og hálf hæð og síðast var úrskurðarnefndin svo vængstífð með einhverjum lagabrellum um kjötvinnslu sem er ekki nema hluti af framkvæmdinni. Eftir að úrskurðarnefndin vísaði kærunni frá hafa þeir nýtt tímann til að klára húsið.“
Kristján segir að atburðarásin frá upphafi sýni að það átti troða þessu húsi á þennan stað sama hvað það kostaði.
„Við erum hins vegar svo heppin að hafa Búseta með okkur, sem getur rekið þetta mál fyrir dómstólum því við sem einstaklingar höfum ekki burði til þess að etja kappi við fjárfesta af þessari stærðargráðu. Borgin er gjörsamlega ráðalaus og borgarfulltrúar virðast vera leiksoppar einhverra peningamanna.“