Karnival Það er stuð á vorin í Ríó.
Karnival Það er stuð á vorin í Ríó. — AFP/Mauro Pimentel
Í sjálfsævisögu Angelu Merkel fyrrverandi kanslara, Freiheit (s. 240-256), er sagt frá fyrstu loftslagsráðstefnum Sameinuðu þjóðanna og fyrst nefndur undirbúningsfundur rammaáætlunar, sem haldinn var í Rio de Janeiro í Brasilíu vorið 1992

Í sjálfsævisögu Angelu Merkel fyrrverandi kanslara, Freiheit (s. 240-256), er sagt frá fyrstu loftslagsráðstefnum Sameinuðu þjóðanna og fyrst nefndur undirbúningsfundur rammaáætlunar, sem haldinn var í Rio de Janeiro í Brasilíu vorið 1992. Þar samþykktu 150 ríki þessa áætlun, sem tók gildi í mars 1994.

Árið eftir, vorið 1995, var fyrsta cop-ráðstefnan haldin í Berlín undir stjórn Merkel, enda var hún þá orðin umhverfisráðherra í ríkisstjórn Kohls.

Illa var spáð fyrir Merkel að stjórna þessari alþjóðaráðstefnu, hún væri of ung og ekki vel mælt á enska tungu, enda alin upp í DDR, þar sem meira var lagt upp úr rússnesku. Merkel komst vel frá þessari raun, en mestu átökin voru sem æ síðan milli iðnríkja og þeirra minna þróuðu.

Nú eru liðin 30 ár og cop 30 stendur fyrir dyrum í haust, og þá er aftur leitað til Brasilíu eins og í árdaga loftslagsverndar og nú til Belem.

Það er allt í góðu nema þar í grennd er í byggingu flennibreiður þjóðvegur sem mun kljúfa regnskóginn á nokkurra km kafla.

Illar tungur sögðu að þetta hefði verið gert fyrir ráðstefnugesti til að frílysta sig, en því var mótmælt því byrjað hefði verið á veginum áður en til kom að Brasilía héldi ráðstefnuna.

Um þetta er þráttað, en skrambi væri freistandi að bregða sér þangað suður eftir í haust og þeysa gegnum regnskóginn á blæjulimósínu með sól í trjátoppum og rakan, hlýjan vind í hári eins og í frægri ballöðu …

Sunnlendingur