Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Alls bárust Landsvirkjun sjö tilboð í áformaðar byggingaframkvæmdir fyrir vindorkuverið Vaðölduver, sem til skamms tíma var kallað Búrfellslundur, og var lægsta tilboðið upp á rúma 6,8 milljarða króna en hið hæsta upp á rúma 9,5 milljarða. Kostnaðaráætlun Landsvirkjunar hljóðaði upp á tæpa 9 milljarða. Framangreindar tölur eru með virðisaukaskatti.
Lægsta tilboðið átti Ístak. Tilboðin voru opnuð í síðustu viku og stefnt að samningum í apríl.
Útboðið er vegna mannvirkja fyrir Vaðölduver eins og fyrr segir, en í verkinu felst bygging á undirstöðum fyrir 28 vindmyllur, gerð kranastæðis og vinnusvæðis í kringum vindmyllurnar, uppsteypu og fullnaðarfrágang safnstöðvar sem verða staðsteypt hús á einni hæð auk kjallara. Grunnflötur byggingarinnar verður 830 fermetrar, en undir hluta hússins verður 180 fermetra kjallari.
Þá felst í útboðinu útlögn á um 80 km löngum strengjum á milli vindmyllanna og safnstöðvarinnar, en auk þess felst öll nauðsynleg jarðvinna í verkinu, þ.m.t. gröftur um 20 km af skurðum.
Auk framangreindra verkefna voru boðnar út framkvæmdir sem ná til bygginga sem mynda vinnubúðir við Hvammsvirkjun. Fimm tilboð bárust, það lægsta upp á tæpar 700 milljónir kr. en hið hæsta upp á tæplega 1,1 milljarð. Kostnaðaráætlun var tæpar 682 milljónir, en fjárhæðirnar eru án virðisaukaskatts. Lægsta boð átti Stólpi Gámar.
Í verkinu felst m.a. smíði á færanlegum vinnubúðaeiningum og undirstöðum, flutningur, uppsetning og frágangur á einingum og undirstöðum, ásamt lagningu og tengingu lagna frá vinnubúðaeiningunum að tengipunktum á vinnubúðasvæðinu.» 22