Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Skipulagsfulltrúi í Reykjavík hefur tekið jákvætt í fyrirspurn arkitektastofunnar Nordic Office of Architecture varðandi breytingar á deiliskipulagi í Stefnisvogi 54. Það er síðasta óbyggða lóðin á Gelgjutanga en fyrirhugað fjölbýlishús verður kennileiti fyrir hverfið.
Óskað var eftir afstöðu skipulagsfulltrúa til breytinga á deiliskipulagi sem felur í sér aukið byggingarmagn og fjölgun íbúða í húsinu um 23 í alls 80 íbúðir. Með breytingunni hækkar nýtingarhlutfallið úr 1,45 í 1,69 sem er í samræmi við nýtingarhlutfall aðliggjandi lóðar.
Á Gelgjutanga
„Fyrirliggjandi tillaga sýnir að tækifæri til aukningar á byggingarmagni felast í formmótun hennar sem hafa munu lítil sem engin áhrif á nánasta umhverfi. Þrívíddarmyndir og skuggavarpsmyndir sýna enn fremur að tillagan fer vel í umhverfi sínu og uppfyllir gildandi deiliskipulag hvað varðar húshæðir og kennileiti á norðausturhorni lóðar,“ segir í umsögn skipulagsfulltrúa. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir sex íbúðareitum á Gelgjutanga. Bjarg byggði fyrsta reitinn, reit 1-1, en REIR Verk er með hina reitina fimm, reiti 1-2 til 1-6.
REIR Verk með fimm reiti
REIR Verk hefur þegar byggt fjölbýlishús á reitum 1-2 og 1-3 og hefur hafið uppbyggingu fjölbýlishúsa á reitum 1-4 og 1-6. Fyrirtækið hyggst svo byggja síðasta húsið, Stefnisvog 54, á reit 1-5 en þaðan verður mikið útsýni út á sundin eins og sjá má á teikningunni hér fyrir ofan.
Þær upplýsingar fengust frá REIR Verki að alls verði um 360 íbúðir á þeim fimm reitum sem fyrirtækið byggir upp á Gelgjutanga. Það eru til dæmis álíka margar íbúðir og byggðar voru á RÚV-reitnum.