Vinna er hafin í utanríkisráðuneytinu við að afmarka landgrunn Íslands á Reykjaneshrygg og Ægisdjúpi með endanlegum og bindandi hætti gagnvart öðrum ríkjum, í samræmi við niðurstöður landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðarinnar frá því í síðustu viku

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Vinna er hafin í utanríkisráðuneytinu við að afmarka landgrunn Íslands á Reykjaneshrygg og Ægisdjúpi með endanlegum og bindandi hætti gagnvart öðrum ríkjum, í samræmi við niðurstöður landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðarinnar frá því í síðustu viku.

Landgrunnsnefndin samþykkti landgrunnssvæði á Reykjaneshrygg sem nær rúmar 570 sjómílur frá grunnlínum. Að sögn Birgis Hrafns Búasonar, deildarstjóra laga- og stjórnsýsluskrifstofu utanríkisráðuneytisins, var landgrunn Íslands upphaflega afmarkað á níunda áratugnum með reglugerð en önnur hafsvæði séu mörkuð með sérstökum lögum um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn. Því mæli ýmislegt með því að fella landgrunnsafmörkunina undir þau lög. Hann sagðist ekki geta sagt til um hvenær þeirri vinnu ljúki en ólíklegt sé að það náist að leggja fram lagafrumvarp í vor.

Þegar niðurstaða Alþingis liggur fyrir verður hún tilkynnt til Sameinuðu þjóðanna. Fyrir liggur að ef ríki afmarkar landgrunn sitt á grundvelli tillagna landgrunnsnefndar SÞ mega engin ríki andmæla þeirri afmörkun og hún verður endanleg og bindandi. Í því felst að réttindi Íslands til hafsbotnsins á þessu svæði eru hin sömu og réttindi Íslands til hafsbotnsins innan efnahagslögsögunnar og Íslendingar hafa einir rétt til að nýta þær auðlindir sem þar kunna að leynast. Öll ríki eiga hins vegar rétt til rannsókna á úthafinu en öðrum ríkjum er óheimilt að stunda rannsóknir sem kunna að raska hafsbotninum á íslenska landgrunninu.

Auðlindir á landgrunninu

Þær náttúruauðlindir sem tilheyra landgrunninu eru jarðefnaauðlindir á borð við olíu, gas og málma, aðrar ólífrænar auðlindir hafsbotnsins og botnlaganna, til dæmis jarðhiti, og lífverur í flokki botnsetutegunda og erfðaefni þeirra.

Birgir segir að engar líkur séu á að olía finnist á Reykjaneshrygg enda er það háhitasvæði. Ekki hefur farið fram sérstök auðlindagreining á Reykjaneshrygg en miðað við rannsóknir sem gerðar hafi verið á sambærilegum svæðum séu töluverðar líkur á að þar sé ýmsar auðlindir að finna, svo sem ýmiskonar steinefni sem falla til á háhitasvæðum neðansjávar. Spurningin er hins vegar hvenær verði tæknilega mögulegt að nýta þær og hvort Ísland telji þá ástæðu til þess.

„En tækninni og þekkingu á hafinu fleygir fram. Munurinn á þeirri þekkingu sem er á hafinu nú og þeirri þekkingu sem var þegar hafréttarsáttmálinn var gerður árið 1982 er gríðarlegur. Því er aldrei að vita hvað gerist á næstu áratugum,“ segir Birgir.

Mikill sigur

Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins í vikunni segir að niðurstaða landgrunnsnefndarinnar sé Íslandi mjög hagfelld og um að ræða farsæla niðurstöðu í mikilvægu ferli sem staðið hefur yfir í tvo og hálfan áratug.

Birgir segir að legið hafi fyrir eftir gerð hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1982 og lengi síðan að Ísland gerði sér engar væntingar um landgrunn á Reykjaneshrygg umfram 350 sjómílur, sem sé ákveðinn veggur í sáttmálanum, einkum á neðansjávarhryggjum.

„Skilyrðin fyrir að komast út fyrir þennan 350 sjómílna múr eru mjög ströng en okkur tókst að brjótast í gegnum þann múr og fá landgrunn sem er 200 sjómílum stærra, þannig að þetta var mikill sigur.“

Ósamið um Hatton Rockall

Landgrunn Íslands utan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar samanstendur af Ægisdjúpi í suðvesturhluta Síldarsmugunnar svonefndu, Reykjaneshrygg og Hatton Rockall-svæðinu, sem Bretland, Írland og Danmörk fyrir hönd Færeyja gera einnig tilkall til. Landgrunnsnefndin skilaði tillögum sínum um ytri mörk landgrunns Íslands í Ægisdjúpi árið 2016.

Fram kom í tilkynningu utanríkisráðuneytisins í vikunni að greinargerð um Hatton Rockall-svæðið sé í undirbúningi. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á því svæði hafa bent til að töluverðar líkur séu á að olía finnist þar, sem flækir málið. Landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna má ekki taka fyrir svæði sem eru umdeild, nema öll ríkin sem gera tilkall til þess sammælist um það. Nefndin myndi þá aðeins kveða upp úr um hver ytri mörk svæðanna eru en viðkomandi ríki verða áður að koma sér saman um hvernig þau skipta svæðinu á milli sín.

Viðræður í dvala

Viðræður ríkjanna fjögurra sem gera tilkall til Hatton Rockall-svæðisins fóru áður fram með reglubundnum hætti en hafa síðan verið stopular og fundir haldnir á um áratugar fresti. Af Íslands hálfu hefur verið lögð áhersla á að ríkin leggi sig fram við að ná samkomulagi um skiptingu landgrunnsins á milli þeirra og að þau skili í framhaldi af því sameiginlegri greinargerð til landgrunnsnefndarinnar um ytri mörk svæðisins.

Birgir Hrafn Búason segir að síðasti fundur hafi verið haldinn fyrir tæpum tveimur árum, þá að frumkvæði Íslands og Færeyja, en þá höfðu viðræðurnar legið í dvala í rúman áratug. Þessi fundur hafi ekki skilað árangri og staðan varðandi Hatton Rockall-svæðið sé því óbreytt. Birgir segist ekki hafa skýringar á því hvers vegna svona hægt gangi að koma þessum viðræðum á rekspöl.

Þingsályktun um Rockall

Kröfur Íslands til landsgrunns utan efnahagslögsögunnar komu fyrst fram á síðustu öld en Íslendingar voru með fyrstu ríkjum til að hefja undirbúning á sviði landgrunnskrafna. Upphafið er gjarnan rakið til þess að Eyjólfur Konráð Jónsson alþingismaður og fleiri lögðu fram þingsályktunartillögu árið 1978 um landgrunnsmörk Íslands til suðurs. Tillagan kvað á um að ríkisstjórninni yrði falið að mótmæla öllum tilraunum Breta til að reyna að slá eignarhaldi á klettinn Rokk (Rockall). Alþingi lýsi því jafnframt yfir að ákvörðun ytri landgrunnsmarka Íslands til suðurs miðast við að engin þjóð eigi tilkall til Rokksins.

Í greinargerð með tillögunni sagði að ríkisstjórn Stóra-Bretlands hefði gert tilraun til að krefjast eignarhalds Breta á klettinum Rockall, sem er lítil óbyggð klettaeyja um 460 kílómetra vestur af Skotlandi, í þeim tilgangi að teygja yfirráð þeirra út á hafsbotnssvæði sem tilheyri Íslendingum eftir þeim þjóðréttarreglum sem væru í mótun. Öllum slíkum tilraunum beri þegar í stað að mótmæla, enda þótt sker þetta mundi ekki fá sjálfstæða efnahagslögsögu eftir þeim reglum sem skráðar séu í uppkasti að hafréttarsáttmála.

Tillögunni var vísað til utanríkismálanefndar þingsins, sem varð sammála um að leggja til að henni yrði vísað til ríkisstjórnarinnar svo breyttri: „Alþingi lýsir því yfir, að ytri landgrunnsmörk Íslands til suðurs verði ákveðin án tillits til klettsins Rockall og að samvinna verði höfð við Færeyinga til að tryggja sameiginleg réttindi á landgrunnssvæðinu utan 200 sjómílna marka landanna.“ Það var samþykkt og var málinu vísað til ríkisstjórnarinnar. Eyjólfur Konráð fylgdi málinu eftir á Alþingi næstu árin og barðist fyrir því að kröfum Íslendinga til réttinda á þessu svæði yrði fylgt fast eftir.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson