Kristrún Ingunn Sveinsdóttir sló eigið Íslandsmet í réttstöðulyftu í -52 kg flokki kvenna í klassískum kraftlyftingum á Evrópumótinu í Málaga á Spáni. Hún lyfti 152,5 kg í greininni og samtals 357,5 kílóum, með hnébeygju og bekkpressu, sem skilaði henni áttunda sæti af fimmtán keppendum í flokknum.
Stjarnan er komin í undanúrslitin í deildabikar kvenna í knattspyrnu og tekur þar sæti FH-inga. Hafnarfjarðarliðið varð að gefa frá sér sætið vegna æfingaferðar erlendis. Stjarnan, sem var næst á eftir FH í 2. riðli A-deildar, mætir því Þór/KA í undanúrslitum á Akureyri næsta mánudagskvöld en Breiðablik og Valur mætast í hinum undanúrslitaleiknum annað kvöld.
Handknattleikskonan Lydía Gunnþórsdóttir hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við KA/Þór, sem á dögunum endurheimti sæti sitt í úrvalsdeildinni eftir árs fjarveru. Lydía er 18 ára en hefur leikið með meistaraflokki KA/Þórs frá fimmtán ára aldri.
Tómas Óli Kristjánsson bjargaði stigi fyrir U17 ára landslið Íslands í knattspyrnu í gær þegar hann jafnaði úr vítaspyrnu gegn Póllandi á 90. mínútu leiksins, 1:1. Tómas, sem krækti sjálfur í vítaspyrnuna, hafði áður freistað þess að jafna af vítapunktinum á 54. mínútu en þá varði markvörður Pólverja frá honum. Leikið var í Kozalin í Póllandi en Ísland mætir þar Belgíu og Írlandi í tveimur síðari leikjunum í undankeppni EM á næstu dögum.
Finnski knattspyrnumarkvörðurinn Matias Niemelä hefur samið við Vestra til þriggja ára en verður lánaður til Grindavíkur í 1. deildinni á komandi tímabili. Niemalä er 23 ára og varði mark TPS Turku í finnsku B-deildinni á síðasta tímabili. Hann hefur leikið 17 leiki í efstu deild Finnlands með KPT Kotka og RoPS Rovaniemi.
Knattspyrnumaðurinn Helgi Guðjónsson hyggst leika áfram með Víkingi næstu fjögur tímabil en hann hefur skrifað undir nýjan samning við félagið til loka tímabilsins 2028. Helgi er 25 ára sóknarmaður sem kom til Víkings frá Fram árið 2020 og er orðinn þriðji markahæstur í sögu félagsins í efstu deild með 31 mark í 111 leikjum fyrir félagið í deildinni.